Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Úr vinnslusal Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Úr vinnslusal Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Mynd / Hákon Ernuson
Fréttaskýring 18. maí 2021

Tæknibyltingin í uppsjávargeiranum

Höfundur: Guðjón Einarsson

Gríðarleg uppbygging og tækniþróun hefur orðið í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski á síðustu árum. Helmingi færri skip en áður þarf til að veiða svipað aflamagn og afköst á hvern starfsmann í landvinnslunni hafa margfaldast vegna aukinnar sjálfvirkni. Þá fer mun stærri hluti aflans til manneldis en fyrr.


Veruleg endurnýjun hefur orðið í uppsjávarflotanum í seinni tíð. Nýjasta viðbótin er Vilhelm Þorsteinsson EA, sem Samherji lét smíða og fékk afhentan fyrir skemmstu. Fljótlega er svo von á systurskipi hans, Berki NK, sem Síldarvinnslan í Neskaupstað er eigandi að. Burðargeta þessara skipa hvors um sig er vel yfir 3.000 tonn í þrettán lestartönkum þar sem aflinn verður kældur niður til að sem best hráefni komi að landi.

Samþjöppun í eignarhaldi

Þegar nær dró síðustu aldamótum varð mikil samþjöppun í eignar­haldi uppsjávarflotans. Einstaklings­útgerðir runnu inn í stærri einingar, skipunum fækkaði og stærri og fullkomnari skip voru keypt í staðinn. Á árinu 2001 voru 43 uppsjávarskip í rekstri að hluta eða öllu leyti en síðan þá hefur þeim fækkað um meira en helming og eru nú innan við 20 talsins. Sum þeirra eru af nýjustu og fullkomnustu gerð smíðuð á síðustu 10 árum: Venus NS, Víkingur AK, Sigurður VE, Beitir NK, Heimaey VE og Börkur NK. Önnur eru nokkru eldri en flest eru búin fullkomnum kælikerfum sem er forsenda þess að unnt sé að koma með fyrsta flokks hráefni að landi. Þau fáu skip sem eru með síðri búnað til kælingar liggja við bryggju og er aðeins gripið til þeirra ef veiðigeta hinna dugar ekki til.

„Kæling aflans skiptir öllu máli,“ segir Sindri Karl Sigurðsson, verkefna- og þróunarstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. „Það er ekki hægt að laga hráefni sem farið er að skemmast út af ónógri kælingu eða slæmri meðferð við dælingu og geymslu um borð. Það er stöðugt verið að betrumbæta ferlið frá því að fiskurinn kemur í veiðarfærið og þangað til hann skilar sér inn í vinnsluna í landi.“

Stóraukin sjálfvirkni

Stóraukin sjálfvirkni hefur leitt til mikillar hagræðingar í vinnslu uppsjávarfiska í landi, að sögn Sindra. Áður var fiskinum handraðað í flökunarvélarnar eftir að skemmdur fiskur hafði verið tíndur úr, en nú eru komnar sjálfvirkar flökunarvélar sem greina fisktegundir, ýta skemmdum fiski frá og raða síðan fiskinum inn. Áður þurfti fjóra starfsmenn við hverja flökunarvél en nú sér einn starfsmaður um þrjár vélar. Sem sagt fækkun úr 12 mönnum í einn vegna þriggja flökunarvéla. Sama þróun hefur átt sér stað í frystingunni. Raðað er í frystitækin og losað úr þeim með sjálfvirkum hætti.

Sem dæmi um þær byltingar­kenndu breytingar sem orðið hafa í þessum geira nefndi Sindri að upp úr 1990 hefðu afköstin hjá Síldarvinnslunni í uppsjávarfiski verið um 70 tonn á dag með 56 manns í vinnu, en núna væri verið að frysta um 600 tonn með álíka fjölda starfsmanna. Svo tekinn sé annar samanburður, þá voru afköst á manntíma um 250-300 kíló um aldamótin en eru nú 1100 kíló. Hér spila bæði inn í breyttir vinnsluhættir, síldarsöltun sem var mannaflafrekasta vinnslan var aflögð og áhersla á sjálfvirknivæðingu frystingar sett í forgrunn.

Sífellt meira til manneldis

Sú breyting hefur einnig orðið á liðnum árum að sífellt meira af uppsjávaraflanum hefur við unnið í pakkningar til manneldis. Undantekningin er kolmunni sem ekki er arðvænn markaður fyrir til manneldis enn sem komið er og fer hann því allur til bræðslu, svo og meðafli á þeim veiðum. Að sögn Sigurjóns Arasonar yfirverkfræðings hjá Matís er nú svo komið að allur makríl- og síldarafli hérlendis er tekin til manneldisvinnslu og sama er að segja um loðnuaflann á síðustu vertíð. Það hráefni úr þessum fiskistofnum sem skilar sér í fiskimjölsverksmiðjurnar er fyrst og fremst afskurður og innyfli úr fiskinum sem ekki nýtist á annan hátt. Reyndar er nú unnið að rannsóknaverkefni sem miðar að því að nýta þessa hluta fisksins einnig til manneldis og rauðátuna úr maga hans sömuleiðis. Síldarvinnslan ásamt Stefáni Þór Eysteinssyni hjá Matís leiða það verkefni.

Innreið makrílsins

Gott dæmi um mikilvægi kælingar afla um borð í fiskiskipunum er makríllinn. Þegar makríllinn hélt innreið sína í íslenska lögsögu fyrir alvöru árið 2007 voru viðbrögðin fyrst þau að veiða sem mest af honum í bræðslu enda lítil þekking í landinu á vinnslu hans til manneldis (ásamt því að vinnslubúnaður húsanna var ekki hannaður fyrir þetta stóran fisk) og flestum lá á að afla sér sem mestrar veiðireynslu áður en þessi nýi stofn yrði kvótasettur. Jafnframt var mönnum ljóst að makríll veiddur að sumarlagi eins og hérlendis væri ekki heppilegt hráefni til manneldisvinnslu. Erlendis er hann alls ekki veiddur á þessum árstíma af þessum sökum.

Að sögn Sigurjóns Arasonar er makríllinn aðeins 10% feitur þegar hann kemur til Íslands í byrjun júlí í ætisleit en rýkur upp í 25-30% fitu á þremur vikum. Við svo snögg umskipti verður holdið sundurtætt af ofáti og vöðvar fitusprengdir. Þá skiptir öllu máli að kæla aflann niður í mínus 1,5 gráður um borð í fiskiskipunum þannig að unnt sé að vinna hann í landi. Jafnframt hafa útgerðirnar reynt að færa veiðina eins aftarlega á sumarið og unnt er til þess að makríllinn verði betra vinnsluhráefni. Það hefur tekist þokkalega þótt elta hafi þurft makrílinn langt á haf út á leið hans frá landinu undir lokin. „Sú þekking sem búið var að afla hérlendis um mikilvægi kælingar áður en makríllinn hóf göngu sína til Íslands flýtti fyrir því hversu fljótt menn náðu tökum á makrílvinnslunni. Árangurinn hefur satt að segja verið undraverður,“ segir Sigurjón.

Norsk-íslenska síldin

Í því sambandi má benda á að vinnsla á norsk-íslenskri síld til manneldis í landi hófst ekki að marki fyrir en búið var að ná tökum á kælingu aflans. Sú breyting kom í kjölfar úreldingar skipa eftir kvótasetningu norsk-íslensku síldarinnar og stýringar veiðanna. Þær útgerðir sem stóðu eftir endurbættu skip sín með nýjum kælikerfum en veiðar á kolmunna höfðu á sama tíma kallað eftir auknu vélarafli. Þessi grunnþekking nýttist síðan áfram þegar kom að veiðum á makríl til manneldis. Segja má að á þessum árum hafi verið búið í haginn fyrir komu makríls með rannsóknum á aflagæðum með tilliti til samspils veiða og vinnslu.

Uppsjávarfiskur helmingur heildaraflans

Á síðasta ári nam uppsjávarafli íslenskra skipa 529 þúsund tonnum eða rétt rúmlega helmingi af heildarafla landsmanna. Aflaverðmætið var liðlega 24 milljarðar og útflutningsverðmætið nálægt helmingi hærra. Þetta voru 16% af heildaraflaverðmæti landsmanna og 17% af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða það árið. Rétt er að taka fram að engar loðnuveiðar voru leyfðar á árinu 2020 og munar mikið um það.

Alls níu fyrirtæki stunda veiðar og vinnslu á uppsjávarfiski hérlendis: Brim, Eskja, Gjögur, Ísfélag Vestmannaeyja, Loðnuvinnslan, Samherji, Síldarvinnslan, Skinney-Þinganes og Vinnslustöðin (útgerð Hugins VE meðtalin). Vinnsla á uppsjávarfiski til manneldis eru á sjö stöðum á landinu: Þórshöfn, Vopnafirði, Neskaupstað, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Höfn og Vestmannaeyjum. Auk þess eru gerð út tvö frystiskip á uppsjávarveiðum.

Skylt efni: veiðar | uppsjávarfiskur

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...