Þorskurinn er kóngurinn hér
Á meðan kóngafólk og prelátar ýmiss konar prýða seðla og mynt í flestum löndum heims skartar íslenski krónupeningurinn, grunneining peningakerfis okkar, upphleyptri mynd af þorski.
Það er ekki að ástæðulausu. Þorskurinn hefur, ásamt sauðkindinni, verið undirstaða efnahags Íslendinga öldum saman. Hann er ennþá einn af máttarstólpunum þótt dregið hafi hlutfallslega úr mikilvægi hans með tilkomu nýrra atvinnugreina, ekki síst á allra síðustu árum.
100 milljarðar króna
Þrátt fyrir að nýjar tegundir hafi bæst við nytjastofna á Íslandsmiðum á síðustu árum, svo sem makríll og kolmunni, og norsk-íslenska síldin hafi tekið upp fyrra göngumynstur sitt, er þorskurinn þó áfram kóngurinn í lífríkinu umhverfis landið. Sá guli skilaði þjóðarbúinu 100 milljörðum króna á síðasta ári, eða 43% af heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða. Þetta hlutfall hefur sjaldan farið niður fyrir þriðjung á liðnum árum.
Fyrir ekki svo löngu síðan byggðist gjaldeyrisöflun þjóðarinnar að stærstum hluta á útflutningi sjávarafurða. Nú er það allt breytt. Fyrst komst áliðnaðurinn upp að hlið sjávarútvegsins en síðan varð sprengingin stóra þegar erlendir ferðamenn fóru að flæða inn í landið í áður óþekktum fjölda. Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru tekjur af útflutningi vöru og þjónustu á síðasta ári 1.187 milljarðar króna, þar af námu tekjur af ferðamönnum 463 milljörðum, eða 39% af heild. Næst kom útflutningur sjávarafurða 232 milljarðar (19,5%) og útflutningur á áli 182 milljarðar (15,3%).
Færri tonn – fleiri krónur
Þorskurinn, sem hér er aðallega til umræðu, skilaði einn og sér 100 milljörðum króna í gjaldeyristekjur í fyrra, eins og áður sagði, og var það 8,4% af heildargjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Þessi verðmæti voru búin til úr 264.000 tonnum af þorski sem dregin voru úr sjó. Það athyglisverða er að á sama tíma og veiddum tonnum hefur fækkað í áranna rás hefur verðmæti afurðanna farið stigvaxandi mælt á núvirði, fyrst og fremst vegna aukinnar og bættrar nýtingar hráefnisins. Er nú svo komið að nánast allt af þorskinum er nýtt á einn eða annan hátt.
Tölurnar tala sínu máli um þetta. Fram kom í erindi Önnu Kristínar Daníelsdóttur, sviðsstjóra hjá Matís, á ráðstefnu í Hörpu á dögunum, að árið 2016 hafi útflutningsverðmæti landaðs þorskafla Íslendinga verið 3,15 dollarar kílóið sem er 4,6 sinnum meira en árið 1981. Þorskaflinn 2016 skilaði 2,6 sinnum meiri verðmætum en árið 1981, þótt aflinn 2016 hafi einungis verði 57% af afla ársins 1981.
Hliðargrein við landbúnað
Sé litið aftur til þjóðveldisaldar voru skreið, vaðmál, lýsi og skáldskapur okkar helstu útflutningsafurðir, segir Ágúst Einarsson prófessor í bók sinni Íslenskur sjávarútvegur í alþjóðlegu samhengi, sem kom út í fyrra. Í byrjun 14. aldar tók skreið við af vaðmáli sem helsta útflutningsafurðin. Ekki er þó þar með sagt að þorskurinn hafi verið þjóðinni mikilvægari en sauðkindin, síður en svo. Sjávarútvegur var hér ætíð stundaður sem hliðarbúgrein við landbúnað og það þekktist um aldir að fara á vetrarvertíð á Suðurland og Snæfellsnes þegar lítið var við að vera í sveitinni og þorskurinn gekk nærri landi til að hrygna. Ágúst bendir á að svo seint sem árið 1870 hafi 81% vinnuafls landsmanna verið í landbúnaði (nú er það 2%).
Frakkar atkvæðamestir
Lengst af stunduðu Íslendingar handfæraveiðar á árabátum og aflinn var takmarkaður. Erlendar þjóðir, Englendingar, Þjóðverjar, Hollendingar og Frakkar, voru mun stórtækari í veiðum á Íslandsmiðum en heimamenn. Á 18. og 19. öld voru Frakkar langatkvæðamestir útlendinga hér við land og er afli þeirra upp úr sjó talinn hafa numið samtals 2,2 milljónum tonna að verðmæti 600 milljarða króna á núverandi verðlagi. Flest urðu frönsku fiskiskipin tæplega 350 talsins árið 1884 með liðlega 6.000 fiskimönnum.
Veiðar Frakka við Ísland kröfðust mikilla mannfórna. Alls hurfu hátt í 400 hundruð skip í hafið og með þeim um 4.000 sjómenn frá því að þessar veiðar hófust fyrir alvöru á fyrri hluta 19. aldar og þar til þeim lauk fyrir síðari heimsstyrjöld , að mati Elínar Pálmadóttur blaðamanns, sem skrifað hefur mest um veiðar Frakkanna við Ísland.
Aflinn stóreykst
Við upphaf 20. aldarinnar heldur vélvæðing bátaflotans innreið sína á Íslandi og togarar koma til sögunnar. Afli Íslendinga jafnt sem útlendinga stóreykst. Nú voru helstu erlendu veiðiþjóðirnar Bretar og Þjóðverjar og lítið dró úr afla þeirra þótt fiskveiðilögsagan væri færð út á ofanverðri 20. öld, fyrst úr 3 sjómílum í 4 sjómílur árið 1952, síðan í 12 sjómílur árið 1958 og svo í 50 sjómílur árið 1972. Það var ekki fyrr en með útfærslunni í 200 sjómílur árið 1975 að Íslendingum tókst loks að reka útlendingana af höndum sér.
Veiðar útlendinga
En hversu mikið veiddu útlendingar á Íslandsmiðum á tuttugustu öldinni og hve stór var hlutur Íslendinga? Í grein í Fiskifréttum fyrir tveimur árum var leitast við að svara því. Í Hagskinnu, riti Hagstofu Íslands, má finna tölur um árlegan afla útlendinga við Ísland allt frá árinu 1905. Séu þessar tölur lagðar saman kemur í ljós að heildarafli botnfisks á Íslandsmiðum á tímabilinu frá 1905 til 1978 (þegar útlendingum var endanlega úthýst úr fiskveiðilögsögunni) nam 38 milljónum tonna, þar af veiddu útlend fiskiskip 18 milljónir tonna en íslensk 19 milljónir.
Lengi framan af öldinni var árlegur afli útlendinga yfirleitt meiri en Íslendinga ef tímabil tveggja heimsstyrjalda er undanskilið. Fiskifréttir reiknuðu út að aflaverðmæti þeirra 18 milljóna tonna sem útlendingar (aðallega Bretar og Þjóðverjar) drógu úr sjó við Ísland á þessu tímabili hefði numið um 5 þúsund milljörðum króna miðað við markaðsverð á þorski og ýsu í dag. Það samsvarar yfir 70 milljörðum króna á ári að meðaltali ef stríðsárin eru undanskilin.
Heildarafli dregst saman
Það er svo annað umhugsunarefni hvers vegna heildarbotnfiskaflinn á Íslandsmiðum er miklu minni nú en hann var stærstan hluta þess tíma sem við deildum fiskimiðunum með útlendingum á 20. öldinni. Allt frá árinu 1950 og þar til 200 mílna fiskveiðilögsagan var viðurkennd árið 1976 fór botnfiskaflinn í heild aldrei niður fyrir 600 þúsund tonn og var iðulega um og yfir 800 þús. tonn. Á seinni árum hefur botnfiskaflinn minnkað niður í rúmlega 400 þús. tonn á ári. Ekki er einhlít skýring á þessu en nærtækast er að ætla að náttúruleg skilyrði fyrir vöxt og viðgang fiskistofna á okkar hafsvæði hafi versnað sem m.a. lýsir sér í því að þorskgöngur frá Grænlandi til Íslands, sem áður voru mikil búbót, heyra nú sögunni til.
Þótt hlutur þorsksins og annarra nytjafiska í efnahag Íslendinga hafi dregist saman hlutfallslega er sá guli ennþá mikilvæg undirstaða góðra lífskjara í landinu. Það er því áfram vel við hæfi að hann prýði íslenska krónupeninginn.