Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Viðvörunarljósin blikka um allan heim
Fréttaskýring 10. febrúar 2016

Viðvörunarljósin blikka um allan heim

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Viðvörunarljós blikka nú um allan heim vegna stöðunnar á fjármálamörkuðum og fólki er ráðlagt að losa sig við öll sín verðbréf sé þess einhver kostur. Olíuverð hefur ekki verið lægra í áraraðir og hægagangur víða í hagkerfum heimsins. 
 
Þá fer hagvöxtur og framleiðni ört dvínandi í Kína, öðru stærsta hagkerfi heims, og víðar er hagvöxtur undir væntingum. Enn á ný eru að koma fram staðfestingar á því að fjármálakerfi heimsins gengur hreinlega ekki upp. Það er greinilega ekki að virka, nema fyrir þá sem eru á toppi píramídans.
Kallað er eftir því að ríkisstjórnir heimsins bregðist við. Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, segir að fjármálakerfi heimsins verði áfram brothætt. 
 
Styttra á milli kollsteypa
 
Stöðugt verður styttra á milli efnahagsáfalla sem skapast af óstjórnlegum tilfærslum auðs í formi vaxta án rauninnistæðu til tiltölulega fámenns hóps ofurríkra. Þessir vextir, sem eru í raun ekkert nema loft, eru skuldfærðir á almenning og krafa gerð um að sá sami almenningur greiði hinum ofurríku brúsann með raunverðmætum í formi vinnuframlags eða með framleiddum vörum. Til viðbótar vaxtakröfu hafa menn búið til alls konar fjármálavafninga sem ekkert er á bak við nema blekkingar.
 
Íslenskir bankar með frí spil
 
Sem dæmi um furðulegheitin þá er íslenskum bönkum enn leyft að búa til rafræna peninga til útlána að eigin geðþótta án þess að þeir peningar séu til í raunveruleikanum. Í stað þess að Seðlabankinn hafi umsjón með öllum peningum sem settir eru í umferð og útdeili þeim, þá er bönkum nánast gefið frítt spil við útgáfu rafrænnar ímyndaðrar myntar. Þeir þurfa því ekki að kaupa eða fá peninga að láni hjá Seðlabankanum og skila af því eðlilegu afgjaldi. Heldur hirða þeir allan afraksturinn af ávöxtun þessara platpeninga sem í upphafi eru ekki ávísun á nokkur einustu raunverðmæti eins og alvöru peningum er ætlað að vera. Til að kóróna þetta er bönkum svo heimilt að taka ofurvexti af öllum slíkum lánum og verðtryggja svo allt saman 100% á kostnað lántakenda. 
 
Allt eins mætti segja að  með útgáfu rafrænna peninga séu bankarnir að taka framtíðareign viðskiptavina sinna að láni hjá viðskiptavinum sjálfum og innheimta síðan af þeim væntanlegu eignum vexti. 
Svo undrast pólitíkusar fáránlegar hagnaðartölur íslensku bankanna og að slík rafpeningaútgáfa geti valdið skekkju, óvissu og óstjórn í hagkerfinu. Samt hefur löggjafarvaldið á Alþingi í hendi sér að breyta þessu.
 
Hinir ríku verða enn ríkari
 
Með því fjármálakerfi sem nú er við lýði er búið að flytja eignir 99% jarðarbúa (6.930.000.000) til hins ofurríka eins prósents, sem telur þá væntanlega um 70 milljónir manna. 
 
Samkvæmt skýrslu Oxfam eiga 62 einstaklingar nú meiri eignir en helmingur jarðarbúa. Það sem meira er, að á árunum 2010 til 2015 jukust eignir hinna 62 ríkustu einstaklinganna um 500 milljarða dollara, en eignir hinna 50% fátækustu jarðarbúanna rýrnuðu á sama tíma um 41%.
 
Samkvæmt gögnum Credit Suisse hefur þessi eignaupptaka eins prósentsins verið að aukast hröðum skrefum frá því fyrsta skýrslan kom út um það á árinu 2000. Kallar Oxfam eftir aðgerðum ríkisstjórna til að snúa þessari þróun við. 
 
Sumir í hópi hinna ofurríku eru farnir að gera sér grein fyrir afleiðingunum. Bill Gates hefur t.d. verið að ausa úr sínum sjóðum  til velferðarmála, enda óttast hann að illa geti farið. Spurningin er bara hvenær kemur að þeim þolmörkum að almenningur verði búinn að fá nóg. Óbeinir samfélagsþættir geta hæglega flýtt þeim tímamörkum, eins og t.d. flóttamannastraumurinn í Evrópu. Þegar þessum þolmörkum verður náð er hætt við almennri uppreisn gegn kerfinu og þeim ofurríku. 
 
Stutt í ruglið
 
Á meðan allt er í uppnámi í fjármálaheiminum, ekki síst í Asíu, berast fréttir af því að íslensk stjórnvöld séu að leggja drög að áhættufjármögnun í hlut upp á 2,3 milljarða íslenskra króna í nýjum Innviðafjárfestingabanka Asíu (IMFB). Sennilega væri margfalt gæfulegra fyrir þjóðina að klára nauðsynlegt afnám verðtryggingar á húsnæðislánum, endurskoða regluverkið um stjórntæki Seðlabankans, þ.m.t. stýrivexti, og setja um leið þak á vaxtatöku bankanna. 
 
Fjármálastjórn íslenska ríkisins virðist samt vera á mjög góðu róli og betur hefur tekist að stýra Íslandi út úr afleiðingum síðustu fjármálakreppu en flestum öðrum ríkjum. Lánast hefur að stýra mörgum stórmálum farsællega í höfn. Þar má nefna Icesave-málið. Það hefði valdið okkur efnahagserfiðleikum með gríðarlegri vaxtabyrði fram á næsta áratug, ef þjóðin hefði ekki gripið í taumana með aðstoð forseta Íslands. Nú er verið að ganga frá uppgjörum við kröfuhafa föllnu bankanna og næst á dagskrá er að losa um gjaldeyrishöft sem flestir telja af hinu góða. Menn hljóta samt að spyrja sig hvort ekki sé rétt að fara varlega í ljósi reynslunnar.
 
Losun gjaldeyrishafta mun m.a. opna fyrir möguleika íslensku lífeyrissjóðanna til að fjárfesta erlendis. Sömu lífeyrissjóðir brenndu sig illa í glæfralegum fjárfestingum í aðdraganda efnahagshrunsins 2008 og hurfu hundruð milljarða út um gluggann. Slíkt getur hæglega gerst aftur ef ekki er rétt haldið á spöðunum. Áhætta almennra launamanna af slíku „gambli“ er gríðarleg. Samt hefur þessi sami almenningur, sem á í raun sjóðina, ekkert um fjárfestingastefnuna að segja, eða hverjir stýra þessum sjóðum. 
 
Bjartsýni ýtir undir drifkraft en varúð er alltaf nauðsynleg
 
Þó alltaf sé gott að vera bjartsýnn, þá hefur það hingað til verið talið til hygginda að hafa vaðið fyrir neðan sig. Mikil uppbygging hefur verið að eiga sér stað í sveitum landsins á liðnum misserum eftir lægð liðinna ára. Það á ekki síst við í byggingum á nýjum fjósum og uppbyggingu vegna ferðaþjónustu. Í byggingu er nú fjöldi hótela, margvíslegra gisti- og veitingastaða um allt land. Þótt full þörf virðist vera á þessu samhliða ótrúlegri fjölgun ferðamanna, þá er sennilega enn frekar þörf á að hafa allan vara á í ljósi reynslunnar. 
 
Góðærið felur í sér mikla hættu
 
Íslendingar hafa aldrei áður upplifað viðlíka fjölgun erlendra ferðamanna. Þjónusta við á aðra milljón ferðamanna á ári er ný upplifun sem menn reyna nú að læra að takast á við. Margar brotalamir hafa komið í ljós og kallað er eftir auknu fjármagni inn í þessa grein úr öllum áttum. Unnið er að úrlausnum og allt virðist stefna í rétta átt. Þegar flest virðist í lukkunnar velstandi hefur þörfin á að fara varlega trúlega aldrei verið meiri.
 
Bændur, stjórnvöld og fjármálastofnanir verða að hlusta eftir því hvað er að gerast í efnahagskerfi heimsins. Ef bakslag kemur í efnahagskerfið eru ferðalög það fyrsta sem fólk dregur úr. Þótt eitthvað sé um eigið fé í öllum þessum framkvæmdum, þá er staðan ekki svo hjá öllum sem byggja þá fyrir lánsfé. Ferðamannaþjóðin Spánverjar urðu illa fyrir barðinu á slíku þegar kreppan skall á 2008 og hafa enn ekki náð sér eftir sjö ára baráttu. 
 
Betra að leita skjóls en að vera étinn
 
Ísland er nú komið í mikinn uppbyggingargír. Mikill samhljómur virðist vera samt með stöðunni á mörgum sviðum og var í aðdraganda hrunsins 2008 bæði hér heima og erlendis. Viðvörunarljósin eru nefnilega farin að blikka víða um heim og bankar jafnvel farnir að gefa út viðvaranir til viðskiptavina. 
 
„Gjöreyðingarár“ í uppsiglingu
– seljið allt!
 
„Seljið allt nema mjög áreiðanleg verðbréf,“ sagði Andrew Roberts hjá Royal Bank of Skotland (RBS) í skilaboðum til viðskiptavina sinna fyrir skömmu. Sagði hann að 2016 muni verða „gjöreyðingarár“. Þess má geta að RBS hafði einnig uppi viðvörunarorð skömmu fyrir hrunið 2008. Fyrstu varnaðarorð bankans nú bárust í nóvember, en þróunin  hefur síðan orðið mun verri en óttast var. 
 
Sagði Roberts að komin væru upp rauð flögg hjá bankanum vegna verðfalls á olíu, óstöðugleika í Kína, minnkandi heimsviðskipta, veikra fyrirtækjalána og hjöðnunar verðbólgu. Þetta hafi allt komið fram í viðskiptum á fyrstu viku ársins.
 
„Við teljum að fjárfestar megi vera hræddir.“
 
Í fyrri viku varaði matsfyrirtækið Morgan Stanley við því að olíuverð kunni að fara niður í 20 dollara á tunnu eða neðar. Þegar verðið yrði komið niður fyrir 30 dollara væri 16 dollara markið ekki langt undan. Olían fór svo niður fyrir 30 dollara markið mánudaginn 18. janúar. 
 
Áöxtunarkrafan út úr myndinni
 
Roberts sagði að þessi kokteill sem nú væri í gangi væri skelfilegur. Fjárfestar ættu ekki lengur að hugsa um að ná ávöxtun á fé sitt, heldur sé spurningin miklu frekar hvort þeir fái fé sitt yfir höfuð til baka. Hinn konunglegi Skotlandsbanki ber saman stöðuna fyrir hrunið 2008 og að staðan nú sé svipuð og þegar Lehman  Brothers-bankinn féll og síðasta efnahagskreppa hófst. Bankinn segir að verðbréf á Vesturlöndum muni falla á þessu ári um 20%, olíuverð falla niður í 16 dollara á tunnu og að björgunaraðgerðir í Kína muni ekki bera árangur.
 
Á vefsíðu MarketWatch á mánudag í síðustu viku var greint frá því að olíuverð héldi áfram að lækka og var bandarísk olía komin niður í 29 dollara á tunnu og norðursjávarolían á Brent markaði fór í 28 dollara um tíma. Allar verðbéfavísitölur heimsins sýndu þá lækkanir á vefnum, en sýnu mest í Bandaríkjunum og Asíu. Þá lækkaði evran í verðgildi á meðan aðrir gjaldmiðlar stóðu nánast í stað eða sýndu örlitla hækkun.  
 
Hættumerki í Kína og verslunum lokað í Bandaríkjunum
 
Vefrit wsws.org (World Socialist Web Site), segir að verðlækkanir á olíumörkuðum og hökt í efnahagsvél Kína veki nú mikinn ótta um að nýtt efnahagsrun sé í uppsiglingu. Hagvöxtur í Kína sé nú líklega sá minnsti í 25 ár. Þá hafi bandaríska verslunarkeðjan Walmart tilkynnt föstudaginn 15. janúar að lokað yrði 154 af 296 verslunum fyrirtækisins og 16 þúsund manns yrði sagt upp. Kemur sú tilkynning í kjölfar yfirlýsinga Macy‘s og Sears-Kmart um lokanir fjölda verslana. Þá hefur BP olíufyrirtækið verið að draga saman seglin eins og fleiri olíufyrirtæki, enda hefur olíuverðið fallið um 20% það sem af er ári til viðbótar gríðarlegum lækkunum á síðasta ári. Var olíutunnan komin niður í 30 dollara sem er versta staða á alþjóðlegum olíumarkaði síðan 2008. 
 
Fram kemur að Standard & Poors 500 vísitalan (S&P 500) hafði þá þegar fallið um ríflega 8% það sem af er ári og Nasdaq um meira en 10%. Á fyrstu tveim vikum ársins hefur kínverska verðbréfavísitalan fallið um 20% og verðbréfamarkaður heimsins hefur tapað 5,7 billjónum dollara (5.700.000.000.000).
 
Svipaðar fregnir voru í breska blaðinu The Guardian. Á vefsíðu Invetopedia kom fram að sex atriði bentu nú til efnahagslægðar á heimsvísu á þessu ári. Tölur úr efnahagskerfinu sýndu nú svipuð einkenni og fyrir hrunið 2008.  
 
Spáir 75% verðfalli hlutabréfa í Bandaríkjunum
 
Flestir fjölmiðlar heims hafa að undanförnu fjallað um yfirvofandi efnahagskreppu. Í vefútgáfu Fortune þann 13. janúar síðastliðinn er grein eftir Chris Matthews um stöðuna. Hann segir að það þurfi ekki að leggja hart við hlustir til að átta sig á óróleikanum á fjármálamörkuðum í Wall Street, London eða París þessa dagana. Verðfall á olíu gefi þar líka sterkar vísbendingar.
 
Vísar hann m.a. í Albert Edwards, stefnumörkunarstjóra hjá franska bankanum Société Générale. Hann segir að veröldin stefni hraðbyri inn í efnahagshrun og verðbréfamarkaðurinn fylgi þar með. Spáir Edwards því að verðbréfamarkaðurinn í Bandaríkjunum muni falla um allt að 75%. Það er verri niðurstaða en í efnahagshruninu 2008 þegar mesta hrunið var 62%.
 
„Blekkingin um velmegun mun splundrast um leið og efnahagsbólan springur,“ segir Edwards. 
Getur markað upphafið að endalokum að myntbandalagi evrunnar
 
Víðar er vísað til orða Edwards, m.a. þeirra sem hann sagði á fjárfestingaráðstefnu í London fyrir skömmu. Þar sagði hann m.a.:
Efnahagslíf heimsins er að stefna inn í kreppu og hrun eins og 2008–2009 sem getur orðið mjög ljótt og markað upphafið að endalokum evrusvæðisins.  
 
Þróunin í efnahagslífi heimsins mun leiða Bandaríkin inn í niður­skrið. Efnahagskreppan mun lifna við á ný. Hún mun verða á allan hátt eins slæm og 2008 til 2009 og verður sannarlega mjög ljót.
Ef efnahagslíf heimsins fer inn í niðurkeyrslu, þá munu tjöldin falla á evrusvæðinu.
 
Sami Edwards hefur reyndar áður komið með svartsýnar efnahagsspár sem ekki hafa enn ræst. Árið 2010 spáði hann hruni S&P 500 vísitölunnar, sem síðan hefur hækkað um meira en 80%, þó að vísu hafi komið nokkurt bakslag að undanförnu. Óvarlegt er þó að afskrifa varnaðarorð Edwards, sérstaklega ef haft er í huga að örfáir menn höfðu uppi svipaðar viðvaranir tveim til þrem árum fyrir kollsteypuna 2008, án þess að á þá væri hlustað. Þess í stað brást markaðurinn og bankarnir við með blekkingaleik og ótrúlegri framleiðslu á fjármálavafningum sem seldir voru á morðfjár. Þeir voru einnig metnir sem hágæðavara af matsfyrirtækjum alveg fram í andlátið, þótt þeir væru í raun verðlausir.  
 
Það hriktir í kínverska efnahagsundrinu
 
Myndin sem Albert Edwards dregur upp er vissulega máluð í mjög dökkum litum, en er hún svo fráleit?
Margir hafa bent á að sá ofurvöxtur sem verið hefur í efnahagslífinu í Kína með gríðarlegum hagvexti fengi ekki staðist til lengdar. Verðmæti kínverska gjaldmiðilsins Yuan er að mati Edwards verulega ofmetið, þrátt fyrir miklar gengisfellingar að undanförnu. Gengisfellingarnar hafa gert það að verkum að ríkir Kínverjar hafa verið að leggja á flótta með sitt fjármagn úr landinu, sem gerir ekkert en að auka á vanda kínverska efnahagskerfisins. Það sem meira er, hökt í efnahagsmaskínu heimsins hefur gert það að verkum að eftirspurn eftir vörum sem framleiddar eru í Kína hefur verið langt undir væntingum. Þessu hafa kínverskir framleiðendur svarað með því að lækka verð sem Edwards segir að leiði til verðhjöðnunar á heimsvísu. Vestrænir keppinautar geti ekki staðist slíkt og gefist hreinlega upp.
 
Þótt innflutningur á vörum til Bandaríkjanna sé hlutfallslega aðeins brot af bandaríska efnahagskerfinu, þá muni erfiðleikar þarlendra framleiðenda hafa keðjuverkandi áhrif út í þjónustuiðnaðinn. Það muni síðan óhjákvæmilega leiða til frekari samdráttar með tilheyrandi róttækum aðgerðum seðlabanka til að berjast gegn verðlækkunum og neikvæðum hagvexti. Þar sé hins vegar við þann vanda að glíma að vextir séu þegar svo lágir að ekki verður lægra farið og vegna gríðarlegrar skuldabréfaútgáfu til að leiðrétta síðustu kreppu, sé hreinlega ekki innistæða í ríkissjóði fyrir frekari aðgerðum. Niðurstaðan verður að mati Edwards sú að S&P 500 verðbréfavísitalan muni hrapa um 75%, eða úr 2.100 stigum, sem hún náði í fyrrasumar, niður í 550 stig. 
 
Fyrir hvern tala greiningardeildirnar?
 
Greinarhöfundurinn í Fortune, Chris Matthews, veltir því fyrir sér að hugsanlega geti Edwards haft rétt fyrir sér. Ef svo er þá hljóti greiningardeildir sem fjárfestar treysti á að vera að bregðast hastarlega. Þá séu þeir fyrst og fremst að ganga erinda bankanna. Vísar Matthews í stjörnuhagfræðinginn Carl Weinberg sem sagði í pósti til viðskiptavina sinna nýverið að 40% verðlækkun á olíu á einu ári þyrfti alls ekki að hafa í för með sér svo slæm tíðindi.
 
Christopher Balding hjá fjármálavef Bloomberg heldur líka enn í vonina og segir að Kína sé ekki á leið inn í fjármálakreppu. Vandinn sé ofmetinn. Hann viðurkennir þó að of mikil skuldsetning einkageirans gefi almennt vísbendingar um að viðkomandi fjármálakerfi kunni að vera stefnt í voða. Skuldastaðan í Japan sé hins vegar mun verri, en samt óttist menn ekki hrun þar í landi. 
 
„Það þarf engan stærðfræðisérfræðing til að finna út hvað er að gerast“
 
Salvatore Babonese, sérfræðingur í efnahagskerfum heimsins, skrifar grein á fréttavef Aljazeera og er algjörlega á öndverðri skoðun við sérfræðinginn hjá Bloomberg. Hann segir að þegar sé búið að skrúfa væntingar um 7,5% efnahagsvöxt í Kína niður í 6,5%. Efnahagskerfi Kína sé komið upp að hlið þeirra stærstu á Vesturlöndum. Þegar slíkt hafi gerst með Japan, Taívan og Suður-Kóreu hafi hægst á drifkraftinum í þeim löndum. Þetta sé nú að gerast í Kína auk þess sem kínverska þjóðin sé að eldast sem dragi úr hagvaxtaraukningunni.
 
„Það þarf engan sérfræðing í stærðfræði til að finna út að ef skuldbindingar þjóðarinnar vaxa í tveggja stafa tölu á sama tíma og efnahagsvöxturinn er í eins stafs tölu, þá hlýtur eitthvað að láta undan,“ segir Salvatore Babonese. 
 
Zero Hedge segir skuldasöfnun í Kína ávísun á erfiðleika
 
Auknar lántökur og hröð skuldsetning í einkageiranum er oft notuð sem vísbending um að hörð lending sé fram undan. Fjallað var um slíkt á vefsíðu Zero Hedge í byrjun árs. Þar er vísað til gagna bankans International Settelments (BIS). Út frá þeim er áætlað að þegar vöxtur einkageirans í skuldsetningum í einhverju ríki fer yfir 40% af vergri landsframleiðslu (gross domestic production −-GDP) á fjögurra ára tímabili, þá séu yfir 90% líkur á að það leiði til efnahagserfiðleika. 
 
Bent er á að vöxtur skuldsetningar einkageirans í Kína sem hlutfalli af GDP hafi verið 75% á milli áranna 2009 til 2014. Aðeins Hong Kong, sem nú er hluti af Kína, var með hærra hlutfall, en líklegt er að hluti þeirrar skuldaaukninga hafi einnig verið vegna fyrirtækja innan Kína. Þá hafi aukningin á fjögurra ára tímabili frá 2009 til 2012 numið um 49%, eða yfir hættumörkum. 
 
Vísað er til þess að Kína hafi verið að upplifa alla þætti óstöðugleika í efnahagslífinu frá því markaðurinn þar opnaðist á áttunda áratug síðustu aldar. Þar líkt og á Íslandi fór bankakerfið gjörsamlega fram úr sér og jókst umfang þess mjög hratt. Þurfti kínverska ríkið að afskrifa sem svaraði um 20% af vergum þjóðartekjum vegna verðlausra skuldabréfa sem gefin voru út í bankakerfinu  á milli áranna 1995 til 2005. Þennan vanda var ekki hægt að takast á við nema með gengisfellingu (sem er ekkert annað en tilfærsla verðmæta frá almenningi) og auknum útflutningi. Þar hafa Kínverjar heldur betur náð árangri, en takmörk eru samt fyrir öllu. Meta sérfræðingar Zero Hedge það svo að áhættan á hruni lánamarkaðarins í Kína sé nú veruleg. Þeir telja að sú góða mynd sem sýnd hafi verið af stöðunni í Kína á liðnum árum og þá staðreynd að kerfið hafi enn ekki fallið þrátt fyrir mikla skuldsetningu, sé byggð á ákveðnum blekkingum. Fjárfestar hafi til þessa treyst á að kínversk stjórnvöld styðji við kerfið af festu, tryggi hagvöxt og muni passa upp á að t.d. fasteignamarkaðurinn haldi. Nú séu loks að vakna efasemdir um að stjórnvöld í Kína ráði við dæmið. Vextinum hafi einfaldlega verið haldið uppi með aukinni skuldasöfnun. Vandamálin muni að öllum líkindum fara að hafa áhrif á yfirborðið á árinu 2016. 
 
„Við spáum að HSCEI vísitalan muni falla um 7% til ársloka 2016,“ segja greinarhöfundar Zero Hedge.  
Vert er að vekja athygli á því að það er ekki síst inn á þennan yfirspennta markað sem nýr Innviðafjárfestingabanki Asíu (IMFB) mun stefna og þá hugsanlega með áhættuhlutafé íslenska ríkisins innanborðs. Vonandi fer þetta þó betur en margir sérfræðingar eru að spá.

6 myndir:

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...