Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Frá Tasmaníu.
Frá Tasmaníu.
Fréttaskýring 13. nóvember 2019

„Ekkert „vegan“ er til sem ekki hefur áhrif á dýralíf”

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Sífellt fleiri velja sér þann lífsstíl að borða einungis fæðu úr jurtaríkinu sem nefnd er „vegan“. Helstu rökin eru gjarnan sögð væntumþykja um dýr og að fólk vilji ekki neyta fæðu sem búin hafi verið til með því að deyða dýr. Kannski er þetta samt ekki eins einfalt og veganfólk telur sér og öðrum trú um.  
 
Í tímaritinu Weekend Australian var grein eftir Matthew Evans þann 29. júní síðastliðinn. Orð Evans hafa víða vakið athygli og ABC News fjallaði m.a. um málið 3. júlí. Hann er bóndi á Puggle Farm-býlinu í Huon dal í Tasmaníu í Ástralíu, matreiðslumaður og matargagnrýnandi sem hafði hugsað sér að verða vegan og gerði tilraunir sem grænmetisæta. Hann hefur gefið út að minnsta kosti tíu bækur um mat, m.a. bækurnar Never Order Chicken on a Monday og The Dirty Chef. Hann fór að velta fyrir sér hugmyndafræðinni á bak við vegan lífsstílinn og hvort hún stæðist skoðun. Niðurstaðan hans er sláandi.
 
Matthew Evans vildi verða vegan.
Til að trúa hugmyndafræðinni þarf að loka augunum fyrir fjölmörgum staðreyndum
 
„Það er margt að segja um veganisma,“ segir Evans. Þar veltir hann fyrir sér þeirri spurningu hvort jurtaætur eða „veganistar“ séu raunverulega bara jurtaætur vegna þeirrar staðreyndar hversu mikill fjöldi dýra láti lífið á hverjum degi við framleiðslu á jurtafæði.  
 
Hann segir að hver hugsandi neytandi matvæla neyðist til að fara í kringum heilan helling af siðferðilega gráum svæðum ef eingöngu eigi að borða veganfæði. Þá þurfi menn um leið að loka augunum fyrir fjölmörgum staðreyndum.
 
„Ef þér er annt um það sem þú setur í munninn, þá er það líklega einfaldasta leiðin að neyta einungis kjöts. 
 
Það eru engin grá svæði um svokallað „siðferðilegt“ kjöt, eða hvort „frjálsar hænur“ (Free range) séu nákvæmlega skilgreindar svo þegar það eru 10.000 hænur á hektara eða ekki. Að borða ekki kjöt, eða neyta fæðu sem kemur frá dýrum eða dýraeldi, þýðir þó vissulega að þú ert að gera betur gagnvart þeim dýrum sem þar eiga í hlut, líka gagnvart umhverfinu og þinni eigin heilsu. Þótt veganismi hafi verið að aukast hjá vestrænum þjóðum á hann samt enn langt í land með að geta talist almennt neysluviðhorf. Ef veganfæði felur raunverulega í sér sigur fyrir allt og alla, af hverju er þá svo erfitt að sannfæra fólk um gildi þess að vera á grænmetisfæði?“ spyr  Matthew Evans. 
 
Hugmyndafræðin er falleg en veruleikinn er ekki svo einfaldur
 
Hann bendir á að vegan-heimspekin snúist oftast um að draga úr þjáningum. Með því að borða ekki dýr sé samkvæmt skilgreiningu fræðanna verið að draga úr þjáningu. Það þyki flestum yndislega falleg hugmyndafræði. – „Ég vildi óska þess að það væri bara svona einfalt,“ segir Evans. 
 
Hann tekur dæmi af baunum eða ertum og vísar til 2.700 hektara býlis í Norður-Tasmaníu í Ástralíu sem hann heimsótti og er með blandaðan búskap. Hann nefnir bæinn Collydean (sem er þó ekki raunverulegt nafn á bænum, en þessi bóndabær er samt til í veruleikanum). Þar er nautgriparækt, einhver sauðfjárrækt, skógrækt, byggrækt og sum ár rækta bændurnir ertur, eða um 400 tonn á hverri vertíð. 
 
Possums-dýr eru drepin í stórum stíl í baunarækt. 
 
Mikill fjöldi dýra drepinn svo hægt sé að rækta baunir
 
Til að vernda baunræktunina hafa bændurnir reist nokkrar girðingar til að halda dýrum frá baunaökrunum. Þeir þurfa samt að skjóta mikið af dýrum sem sækja í akrana. Evans segir að á meðan hann dvaldist á bænum hafi bændurnir haft leyfi til að drepa um 150 dádýr til að verja baunaakurinn. 
 
„Þeir drepa reglulega um 800 til 1.000 possums (eins konar rottur) og 500 wallabies (pokadýr) á hverju ári ásamt nokkrum öndum. Bændur á  Collydean-sveitabýlinu bjóða einungis veiðimönnum að veiða sem nota dýrin sem þeir drepa til manneldis eða nýta dýrin í gæludýrafóður. Veiðimennirnir mega ekki skilja dýrin eftir á akrinum eins og algengt er þegar bændur eru að verja uppskeru sína. 
 
Meira en 1.500 dýr eru drepin á hverju ári til að hægt sé að rækta baunir á um 75 hekturum á Collydean-sveitabýlinu sem síðan fara í frystigeymslur. Þá eru ekki talin með 1.500 nagdýr, sem líka láta lífið vegna ræktunarinnar og sumir líta á sem óhjákvæmileg afföll á dýrum (collateral damage). Þau dýr sem drepast eru vissulega falleg dýr með heitt blóð. Auk þess er eitthvað af fuglum sem drepnir eru, en þeim er hent.“ 
Eigendur Collydean fullvissuðu  Evans um að það væri ekki hagkvæmt fyrir þá að rækta baunir án þess að drepa dýr. 
 
„Það þýðir að í hvert skipti sem við borðum baunir hafa bændur fyrir okkar hönd reynt að hafa stjórn á „plágunni“ sem sækir í uppskeruna.  Dýrin hafa því dáið í okkar nafni,“ segir Evans. „Fjöldi dýra sem deyja til að hægt sé að framleiða veganmat er ótrúlega mikill.“ 
 
Mun fleiri dýr drepin við að framleiða prótein úr hveiti en nautakjöti
 
Evans bendir fólki líka á að íhuga ræktun á hveiti, sem er töluvert öflug búgrein í Ástralíu. 
 
„Við skulum líta á næringarinnihald matarins sem um ræðir, vegna þess að ekki eru öll matvæli jöfn hvað þetta varðar. Samkvæmt grein frá Mike Archer, prófessor við raunvísindadeild Háskólans í Nýju Suður-Wales (NSW), deyja u.þ.b. 25 sinnum fleiri tilfinningaverur við að framleiða kíló af próteini úr hveiti en kíló af próteini úr nautakjöti. Þökk sé einrækt, músaplágu og nútíma landbúnaðarkerfi. Svakalegur fjöldi af smádýrum lætur lífið við að framleiða hveiti. Jú, aðallega eru þetta nagdýr, en í hinum fullkomna veganheimi ættu þá ekki öll dýr með heitt blóð að vera lögð að jöfnu?“
 
Eitrað fyrir einum milljarði músa
 
Að meðaltali er eitrað fyrir einum milljarði músa á hverju ári í Vestur-Ástralíu eingöngu. Í ­skýrslu öldungadeildarinnar frá 2005, kemur fram að ef við drepum ekki mýs myndi kostnaður við fæðuöflun hækka verulega. Þrátt fyrir beitingu ýtrustu tækni kosta mýs ástralska hagkerfið um 36 milljónir ástralskra dollara á ári, eða sem nemur rúmum þrem milljörðum íslenskra króna. Evans heldur áfram: 
 
 
200 þúsund endur drepnar vegna hrísgrjónaræktar
 
„Við skulum líta á fugla. Á fimm ára tímabili fram til 2013 drápu hrísgrjónabændur í NSW næstum 200.000 endur af áströlskum uppruna til að vernda akra sína. Já, það er rétt, bara til að rækta hrísgrjón. Það er til viðbótar við öll dýrin sem drepin hafa verið vegna óbeinna áhrifa af hrísgrjónaræktuninni, dýr sem lifðu á vatnasvæðum sem tæmd voru til að veita vatni á akrana í þessari þurru heimsálfu. Svona er nú landbúnaðurinn,“ segir Evans. 
 
„Til að rækta eitthvað hefur það óhjákvæmilega áhrif á aðra þætti í lífríkinu. Stundum eru það dýr og þá stundum fjári mikill fjöldi af dýrum. 
 
Dýrin sem aðallega drepast á Fat Pig Farm, landareign okkar í Huon-dalnum sunnan Hobart, eru sniglar sem annars gætu eyðilagt garðinn okkar ef þeir fengju að vera í friði. Við drepum nálægt 5.000 „moths fiðrilda“ á hverju ári til að rækta grænmeti (Moths er tegund Lepidoptera-skordýra sem teljast samt ekki eiginleg fiðrildi). Einnig snigla og þúsundir á  þúsundir ofan af ýmsum skordýrum.“
 
Veganistar borða ekki hunang, en býflugur eru samt lykillinn að ræktun grænmetis
 
Evans segir skordýr samt skipta miklu máli í allri grænmetisframleiðslu. Mest nýtta skordýrið af öllum er evrópska hunangsflugan.
 
„Sannar veganætur borða ekki hunang vegna þess að það er afleiðing af ræktun og nýtingu á evrópsku hunangsflugunni. Veganistar borða ekki hunang vegna þess að það að borða hunang er sagt vera „að stela“ hunangi úr býflugnabúinu og af því að býflugur deyja í því ferli þegar býflugnaræktendur eru að sækja hunangið í búin. Jú, veganistar hafa rétt fyrir sér, bý­­flugur deyja í því ferli. 
 
Vandamálið er að hunangsflugur eru mjög góðar við að frjóvga blóm nytjajurta. Þannig að gríðarlega stór hluti ræktunar byggir algjörlega á aðstoð býflugna meðal annars í ávaxtarækt.  Fjöldi ræktenda nytjajurta myndi þurfa að upplifa mun minni uppskeru vegna minni frjósemi ef býflugna nyti ekki við.“
 
Án býflugna myndi öll ræktun nánast hrynja
 
„Um þriðjungur allrar ræktunar á heimsvísu nýtur góðs af beinum samskiptum við býflugur, þar af eru evrópsku hunangsflugurnar þær langskilvirkustu. Hvort sem við borðum hunang eða ekki, þá erum við að njóta góðs af starfi hinna tömdu evrópsku hunangsflugna. Án þeirra myndi sum ræktun nánast hrynja, kostnaður við ræktunina stóraukast og aðrar óæskilegar tegundir kæmu í staðinn. Mikill fjöldi býflugna deyr á hverju ári við frjóvgunarvinnu fyrir okkur mannfólkið,“ segir Evans.
 
Milljarðar býflugna láta lífið vegna ávaxta- og grænmetisræktar
 
Samkvæmt gögnum Scientific American er áætlað að allt að 80 milljarðar hunangsflugna séu notaðar við frjóvgun bara í möndluiðnaðinum í Kaliforníu á hverju ári. Allt að helmingur þeirra drepst í því ferli og í flugi til og frá stóru möndluökrunum. Blóðbaðið eftir eina uppskeru telur því um 40 milljarða býflugna.
 
Eru veganvínin hrein?
 
Evans spyr einnig: „Hvað með veganvín? Þar er vissulega hvorki notaðar fiskblöðrur, mjólkurduft né egg við að fella grugg í mörgum veganvíntegundum, bjór og eplasafa. Þið megið samt ekki gleyma að skoða hvað gerist við uppskeruna. 
 
Lítum á vínber sem tínd eru til víngerðar, horfum á þar sem risastórir skammtar af ferskum vínberjum fara í pressuna ásamt músum, köngulóm, eðlum, snákum og froskum. Þetta er sorglegt, því veganvín eru hrein, er það ekki?“
 
 
Við borðum 0,5 til 1 kg af skordýrum við neyslu á hnetusmjöri, súkkulaði og korni 
 
„Við skulum halda áfram og líta á hnetusmjörið, þennan frábæra próteingjafa. Veistu hversu margir hlutar skordýra eru í hverri krukku? Samkvæmt grein í Scientific American borðar hvert okkar um það bil 0,5–1 kg af flugum, möðk­­um og öðrum pöddum á ári, sem faldar eru í súkkulaðinu sem við borðum, í korninu sem við neytum og hnetusmjörinu sem við smyrjum á ristaða brauðið okkar.“ 
 
Þetta kom reyndar líka fram í skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) árið 2013 um ætileg skordýr til að tryggja fæðuöryggi jarðarbúa, „Edible insects: future prospects for  food and feed security“. Einnig í grein í Scientific American í júní 2013 undir fyrirsögninni „Rub a Dub Dub, Is It Time to Eat Grubs?“ 
 
Evans segir að samkvæmt bandarískum reglugerðum megi 125 gramma pakkning af pasta innihalda að meðaltali 125 skordýrabrot eða meira. Einn bolli af rúsínum geti innihaldið allt að 33 ávaxtaflugueggjum. Eitt kílógramm af hveiti innihaldi líklega um 15 grömm af leifum dýraafurða, allt frá kakkalökkum til nagdýra.
 
Hvaða mat sem þú borðar ertu í raun aldrei vegan
 
„Ég dreg þessa mynd ekki upp sem einhvern ógeðsþátt, heldur einfaldlega til að sýna raunveruleg áhrif og kostnað við matvælaframleiðslu. Þegar þú borðar ertu aldrei í raun vegan. Þegar menn vaxa og vinna úr mat, deyr allur matur, aðrir hlutir jafn oft og við borðum þá.“
 
Við allar aðgerðir manna er verið að deyða dýr
 
„Það er talað um matvælaframleiðslu af mikilli ósanngirni þegar hún er sökuð um að drepa dýr.  Allar mannlegar athafnir hafa áhrif á aðrar lifandi verur. Við drepum dýr þegar við keyrum. Við drepum dýr þegar við fljúgum, eða flytjum vörur með flugvél. Við drepum þegar við byggjum járnbrautarlestir, þegar við búum til korn, ræktum epli og mokum upp sandi. Við erum að breyta vistkerfum þegar við komum okkur upp íbúðarhúsnæði, byggjum reiðhjólaverksmiðjur og flytjum baunir með skipum. Við erum að ryðja dýrum út úr sínu eðlilega umhverfi alla daga með öllum þeim sársauka og þjáningum sem því fylgja.“ 
 
„Óhjákvæmileg afföll“ eiga sér stað við alla ræktun
 
„Fyrir þá sem hafa ekki áhuga á að borða kjöt, eða kjósa að borða ekki kjöt, snýst þetta um samhengi hlutanna. Allar skepnurnar sem drepast við ræktun, þ.e. nagdýrin, skordýrin, fuglarnir, eru einfaldlega „óhjákvæmileg afföll“ á dýrum (collateral damage). Þessi hugsunarháttur byggist á því að kjötiðnaðarmenn (eða umboðsmenn þeirra, bændur, slátrarar og matreiðslumenn) „velja“ sér fórnarlamb, svo þetta er frábrugðið því er dýr deyr vegna tilviljunar úti í náttúrunni. Dauði er samt dauði. 
 
Þjáning er líka þjáning, óháð því hvort um mann er að ræða, beint eða ekki. Íhuga þarf öll áhrif gerða okkar. Það held ég að sé kjarni málsins.“
 
Líf byggir allt á því að nýta sér annað lífsform
 
„Hvaða aðgerðir mannanna hafa í för með sér minnstar þjáningar? Sumir álitsgjafar telja að ræktun leiði til meiri þjáninga fyrir fleiri dýr. Skoðunin er sú að lífið sé byggt á lífi. Að við lifum með því að neyta einhvers sem hefur lifað, sem hefur aftur áhrif á annars konar lífsform langt út fyrir okkar skilning. 
 
Þú borðar plöntu og það hefur áhrif á það dýr sem ætlaði að borða plöntuna. Tölum t.d. um  hnetu af tré í náttúrunni. Vegna þess að við borðum hnetuna deyr dýr sem ætlaði að borða hnetuna. Kannski er það engispretta, margfætlan á búgarðinum, eða einhver lífvera sem gæti hafa búið í náttúrunni, ef við hefðum ekki nýtt plöntuna.“
 
Ræktun plantna til manneldis hefur mikinn eyðileggingarmátt
 
„Að drepa dýr í náttúrunni til matar hefur lítil áhrif. Vistfræðilegt fótspor búfjár hefur meiri áhrif á landið. Enn meiri áhrif og meiri eyðileggingarmátt hefur samt ræktun plantna til matar. Það er vegna ofnýtingar á jarðvegi, dráps á heilu flokkunum af dýrum til að viðhalda einræktun. Einnig vegna notkunar á tilbúnum áburði og efnum sem nútímabóndinn nýtir sér. Við öll, vegan og dýraætur, erum að njóta áburðar og rotmassa sem kemur frá annaðhvort dýraúrgangi eða jarðefnaeldsneyti. Lífrænir bændur nota rotmassa m.a. sem aukaafurð frá dýraeldi, en hefðbundnir bændur nota köfnunarefnisáburð sem er framleiddur með miklu magni af jarðefnaeldsneyti. Um það bil 2–3 prósent af jarðefnaeldsneyti sem brennt er á hverju ári fer til framleiðslu á köfnunarefnisáburði. Það nemur u.þ.b. 3 prósentum af kolefnislosuninni í heiminum. Þar með talinni losun köfnunarefnis sem losnar út í andrúmsloftið. 
 
Svo er til alþjóðlegt flutningskerfi, sem notar jarðefnaeldsneyti til að senda brasilísku sojabaunirnar þínar og kalifornísku möndlurnar um allan heim.
 
Ef þú notar ekki áburð úr jarðefnaeldsneyti þarftu úrgang frá dýraeldi. Varla er til sá lífræni ávaxta- og grænmetisbóndi sem notar ekki einhvers konar dýraafurð (áburð, blóð og bein) eða rotmassa sem inniheldur það. 
 
Það er varla til býli sem treystir ekki á gas og olíu til að framleiða áburðinn, reka dráttarvélarnar og senda vörurnar. Flestar áætlanir segja að magn jarðefnaeldsneytis sem þarf til að rækta hverja kaloríu af mat og koma henni á borð neytandans sé 10 sinnum meira en orka matarkaloríunnar sjálfrar. Þetta er samt allt leikur að tölum,“ segir Evans.
 
Verst er einræktun, mun verri en grasfóðruð dýr
 
„Kornrækt og einræktun eru verst í þessu tilliti og mun verri en grasfóðruð dýr sem drepin eru og seld í nærumhverfinu. Þau eru hagstæðari náttúrunni og hagkvæmari framleiðandi á orku til fæðuöflunar og ræktun þeirra útheimtir minna af jarðefnaeldsneyti.
 
Ef við tökum dýraúrgang út úr ræktunarkeðjunni erum við að skekkja myndina verulega. Ef þú vilt hreinan veganlandbúnað þá þarf að fjarlægja býflugurnar úr ræktunarferlinu. Það mun leiða til meiri notkunar á jarðefnaeldsneyti, dýrari fæðu, lakari frjóvgunar og minni fjölbreytni í lífríkinu.“ 
 
Hefur komið að öllum hliðum veganumræðunnar
 
„Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að koma að öllum hliðum þessarar umræðu. Ég hef gert tilraunir sem grænmetisæta. Ég hef hugsað mér að verða vegan. Ég hef stundað af ákafa kjúklinga- og svínarækt. Ég hef tapað peningum og þekki örvæntinguna.“ 
 
Dýra- og jurtaríkið er samofin heild
 
„Ég hef líka alið upp dýr, drepið dýr, bæði villt og tamin og eldað dýr. Það sem ég hef fundið út er að dýraheimurinn er ekki einangraður frá heimi plantna og að blæbrigðarík, skynsamleg umræða um kjötneyslu ætti að snerta alla. Þar með talið jurta- og kjötætur þessa heims. Umræður þar sem fordæming, árásargirni og óþol gagnvart þeim sem eru ekki sömu skoðunar eiga ekki rétt á sér.“
 
Látið ekki blekkjast með að það að vera vegan meiði ekki dýr
 
„Græningjum er velkomið að láta í ljós þá skoðun sína að það að ala dýr og borða kjöt hafi afleiðingar. Reyndar eru nokkrar af þessum afleiðingum sem einstaklingar valda dýrum og umhverfi vel þess virði að taka þær til alvarlegrar umhugsunar. Það er alveg mögulegt að sú afstaða að borða minna kjöt geti þýtt minni þjáningu, en ekki láta blekkjast með að það að vera vegan meiði ekki dýr,“ segir Matthew Evans.
 
Samkvæmt þessu er mjög erfitt að framleiða „vegan“ grænmetisfæði án þess að drepa nokkurt einasta dýr. Það er þó líklega hægt að komast næst því með því að neyta eingöngu grænmetis sem framleitt er í lokuðum íslenskum gróðurhúsum. Meira að segja þar er þó gjarnan beitt náttúrulegum vörnum með aðstoð skordýra sem drepa önnur óæskileg sníkjudýr. 
 
Michael Archer, prófessor við UNSW.

Hefur sérhæft sig í rannsóknum á hryggdýrum og forsögulegum skepnum

Prófessor Michael Archer, eða „Mike“ eins og hann er líka kallaður og Evan minnist á, hefur komið víða við í sínum rannsóknum í fornleifafræði og dýrafræði. 
 
Hann hefur starfað við þá deild Háskólans í Nýju Suður-Wales sem fjallar um líffræði, jarð- og umhverfisvísindi. Hann hefur sérhæft sig í rannsóknum á hryggdýrum og forsögulegum dýrum. Þá hefur hann m.a. unnið að rannsóknum á uppruna dýra á Nýja-Sjálandi og víðar í Eyjaálfu ásamt 100 vísindamönnum frá 28 stofnunum í 11 ríkjum, þ.e. Frakklandi, Þýskalandi, Tékklandi, Englandi, Bandaríkjunum, Kína, Kanada, Argentínu, Nýja-Sjálandi og Ástralíu. 
 
 

Nýjar rannsóknir í Bandaríkjunum:

Fæða býflugna kemur bæði úr jurta- og dýraríkinu

Scientific American hefur birt fjölda greina um rannsóknir á býflugum í Bandaríkjunum. Í athyglisverðri grein um býflugur sem birt var 23. ágúst síðastliðinn kemur fram að býflugur eru í raun dýr sem bæði geta lifað á fæðu úr jurta- og dýraríkinu líkt og menn. Þær eru það sem kallað er „omnivores“ og þeirra fæða úr dýraríkinu eru örverur (microbes). 
 
Vísindamenn hafa vitað í áratugi að örverur sem valda gerjun finnast í býflugnabúum. Þeim hefur samt hingað til ekki dottið í hug að þær séu mikilvægur hluti af fæðu býflugna. Talið er að þessi uppgötvun geti hjálpað vísindamönnum að átta sig á af hverju býflugur eigi í stöðugt meiri vandræðum með að lifa af í umhverfi hátæknivædds landbúnaðar. Mögulegt sé að skortur á örverum í umhverfi þeirri valdi því að þær svelti hreinlega til dauða. Þetta kom fram í sameiginlegum rannsóknum vísindamannanna frá Madison-háskólanum í Wisconsin, þeim Prarthana Dharampal og Shawn Steffan. Þeir unnu að rannsóknum á 14 mismunandi tegundum býflugna í samvinnu við landbúnaðarrannsóknarþjónustu landbúnaðarráðuneytis Bandaríkjanna. (U. S. Department of Agriculture’s Agricultural Research Service (ARS).

7 myndir:

Skylt efni: vegan

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...