Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Frá Kvægkongres, Fagþingi nautgriparæktarinnar í Herning í Danmörku.
Frá Kvægkongres, Fagþingi nautgriparæktarinnar í Herning í Danmörku.
Mynd / SS
Fréttir 18. apríl 2017

Fróðleg erindi á Fagþingi nautgriparræktarinnar í Danmörku

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Dagana 27. og 28. febrúar sl. fór fram hið árlega Fagþing nautgriparæktarinnar í Herning í Danmörku, betur þekkt sem Kvægkongres, eins og greint hefur verið frá í síðustu tveimur tölublöðum Bændablaðsins. 
 
Alls voru haldnar 11 málstofur á þessu fagþingi og fer hér þriðji og síðasti hluti umfjöllunar um fagþingið.
 
6. Í mjaltabásnum
 
Í málstofu um mjaltabásinn voru haldin 8 fróðleg erindi sem öll snéru með einum eða öðrum hætti að mjöltum, mjaltatækni eða mjólkurgæðum. Eitt fjallaði um líftölu í stórum sílótönkum og hvernig sé hægt að ná tökum á slíku vandamáli ef það kemur upp. Annað um rétta lyfjameðhöndlun og nýjar áherslur SEGES í þeim efnum en sem mörgum er kunnugt um þá mega danskir kúabændur sjálfir meðhöndla helstu sjúkdóma. Það þriðja var um nýja áhugaverða rannsókn um smithættu við mjaltaþjóna en þar sem eitt mjaltatæki sér um 60-65 gripi þá eru miklar líkur á að tækið beri smitefni á milli kúa. 
 
Í rannsókninni kom einnig fram að sé júgursýkt kýr mjólkuð þá má finna, með erfðaefnisgreiningu, bakteríur úr henni inni í mjaltahylkinu næstu þrjár mjaltir á eftir. Með öðrum orðum þá er veruleg hætta á krosssmiti milli sýktra kúa og ósýktra ef ekki er keyrður stuttur kerfisþvottur eftir að sýkt kýr er mjólkuð.
 
Bónus greiddur fyrir lágar frumutölur
 
Þá var flutt afar fróðlegt erindi frá afurðafélaginu Them sem er sérhæft í framleiðslu á hörðum ostum. Það afurðafélag hefur komið sér upp áhugaverðu kerfi fyrir afurðastöðvaverðið en innleggjendur félagsins fá gæðaálag vegna frumutölu allt niður í 100.000/ml. Verðlagningin er þannig að fyrir hverjar 1.000 frumur/ml fyrir neðan 200.000 þá borgar afurðafélagið bónus. Þannig er stöðugur hagur af því að lækka frumutöluna allt niður fyrir 100.000. Kerfið hefur þegar skilað eftirtektarverðum árangri og eru mörg kúabú nú með frumutölu sem er innan við 100.000/ml.
 
Þrjú erindi í þessari málstofu voru á ensku en þau fjölluðu annars vegar um hvaða spenadýfur ætti helst að nota fyrir mjaltir og eftir mjaltir og svo um reynslu Dairy group á Englandi af því að vinna við ráðgjöf um mjólkurgæði.
 
Hér má sjá bónda ræða við mjólkurgæðaráðgjafa frá SEGES um mjaltatæki.
 
Erindi Prebens bónda vel sótt
 
Það erindi sem var best sótt, af mörg hundruð manns, var erindi bóndans Preben Vingborg og eins af sérfræðingum SEGES í mjólkurgæðum, dýralæknisins Michael Farre. Preben hefur verið að ná afar góðum árangri við mjaltir, sé horft bæði til mjólkurgæða, mjólkurmagns og afkasta og fóru þeir félagarnir yfir það hvað skýrir það. Preben þessi er með 550 Jersey kýr og þær skila vel af sér, alls 11.136 kg orkuleiðréttrar mjólkur að jafnaði. Frumutala búsins er nú 110.000/ml og eru kýrnar mjólkaðar þrisvar á dag í 2x24 hraðmjaltabás frá Boumatic.
 
Markmið hans er að kýrnar bíði ekki lengi eftir mjöltum og því eru nokkuð margir sem koma að mjöltunum svo það séu ekki of margar kýr á biðsvæði hverju sinni. Þá hefur hann hámarks mjaltatíma á kúnum og ef þær eru ekki búnar að mjólkast eftir 8 mínútur tekur kerfið einfaldlega tækin af kúnum. Mjaltatíminn er því skammur og kýrnar komnar fljótt aftur inn í fjós að éta eða hvíla sig en að jafnaði liggja kýrnar í fjósinu hjá Preben 15 klst. á sólarhring. Það er afar gott í fjósi þar sem mjólkað er þrisvar á sólarhring og skilar sér í mjólkurtankinn með auknum afurðum kúnna.
 
7. Vinnufundir
 
Þessi málstofa var haldin að kvöldi og snérist um það að smala saman áhugaverðum þátttakendum um ákveðin málefni og fara heldur dýpra í þau en almennt gengur og gerist í hefðbundnum erindum. Til þess að taka þátt í þessum hluta fagþingsins þurftu þátttakendur að hafa skráð sig fyrirfram til leiks, enda takmarkaður fjöldi sem gat verið um hvert verkefni málstofunnar. Alls voru tekin fyrir 7 málefni og voru 3 þeirra um fóður og fóðrun m.a. gátu bændur komið með heilfóðursýni og fengið álit fagmanna á því. 
Þá sá Íslandsvinurinn Vibeke Fladkær Nielsen um smitvarnaleik en í Danmörku er komið út nýtt borðspil sem sérstaklega er hannað til þess að vekja athygli þátttakenda á því hvað réttar smitvarnir á kúabúum skipta gríðarlega miklu máli. Hér má t.d. nefna hvernig forðast beri t.d. að júgurbólgusmitefni berist á milli kúa, að kálfar sýki hver annan og margt fleira mætti nefna. 
 
Síðan gátu þátttakendur fengið tvö örnámskeið í notkun á danska bústjórnarkerfinu DMS og að síðustu var vinnufundur haldinn um hið stöðugt vaxandi verkefni á dönskum kúabúum sem er að stjórna fólki í vinnu. Búin hafa stækkað ár frá ári og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun og með því hefur hlutverk bændanna færst úr því að vera sjálfir í búskapnum og mikið til yfir í það að vera framkvæmdastjórar. Það hentar eðlilega misvel og þarna gátu bændur fengið góð ráð til þess að bæta þessa eiginleika.
 
8. Holdanautarækt
 
Sex erindi voru haldin í þessari málstofu en fjallað var um kynbótastarf, starfsemi danska nautakjötsráðsins og farið yfir hagkvæmni þess að taka land í „beitarfóstur“ en víða innan Evrópusambandsins fá bændur greitt fyrir að halda gróðri á sameiginlegu landi niðri með stýrðri beit. 
 
Hin þrjú erindin fjölluð öll með einum eða öðrum hætti að markaðssetningu á nautakjöti. Eitt þeirra var flutt af Christine Nielsen, sérfræðingi í markaðsmálum, en hún fjallaði m.a. um nýlega markaðsrannsókn í Danmörku sem sýnir skýrt að neytendur þar í landi horfa í auknum mæli til matvara með skýra tilvísun til uppruna. Þá kom einnig fram í sömu könnun að Danir treysta dönskum matvörum betur en innfluttum og var það útskýrt með tiltrú danskra neytenda á að þarlendar matvörur væru hreinni og betri en innfluttar. 
Hún sagði að almennt væru neytendur í dag mun meðvitaðri en áður um matvæli og að þeir hugsuðu meira en áður um hollustu, uppruna, vistvænleika, umhverfisálag og fleiri slíka þætti. Þetta þyrftu allir söluaðilar matvæla að hugsa um og horfa til mikilvægi þess að upplýsa neytendur vel um það sem verið væri að framleiða.
 
Þá fjölluðu hin tvö um sölu beint frá býli. Annað þeirra var flutt af kúabóndanum Louise Dolmer sem rekur heimasíðuna www.landmad.dk. Louise býr á litlu búi við Grenå á Jótlandi og árið 2011 opnaði hún verslun sem selur eingöngu vörur sem koma beint frá bændum og í dag er hún með vörur frá 170 bændum í umboðssölu. Verslun hennar hefur gengið stórvel og er hún með marga starfsmenn sem sjá um bæði verslunina og að senda vörur frá vefversluninni. Hún kvað aðgengi neytenda mikilvægt og að þeir sem reka bú í nágrenni við þéttbýli ættu að skoða að hefja sölu með svipuðum hætti.
 
9. Frá akri í stæðu
 
Þessi málstofa fjallaði um þau ótal verkefni „utan fjóss“ sem allir kúabændur glíma við vor, sumar og haust. Það er reyndar haldin sérstakt fagþing um jarðrækt í Danmörku og því voru erindin í þessari málstofu ekki nema 8 talsins, sem er ekki mikið ef horft er til umfangs þeirrar vinnu sem fram fer utan við veggi fjóssins. Flest þeirra snéru eingöngu að dönskum aðstæðum eins og gengur og gerist s.s. um val á heppilegu grasfræi, verkun á maísvotheyi, notkun á hugbúnaði SEGES til þess að halda utan um fóðuröflunina, lagerstjórnun þegar fóðrið er komið í stæðu og svo um fóðrunina sjálfa. 
 
Samkeppni gull-ráðunautanna
 
Af mörgum góðum erindum var etv. áhugaverðast að heyra um gull-ráðunautana en árið 2016 var efnt til samkeppni allra nautgriparáðunauta í Danmörku og þeir sem gátu skilað bestum árangri, mælt sem framgangur og hagkvæmni fóðrunar hjá útvöldum kúabúum. Þrír ráðunautar stóðu uppi sem sigurvegarar. Þau greindu svo frá því hvað þurfti til, til þess að vinna þessa skemmtilegu samkeppni. 
 
Heilt yfir má líklega draga saman niðurstöður ráðunautanna í það að það er mikilvægt að draga saman mikið af gögnum frá þeim búum sem unnið er með, standa fyrir verklegum fundum með mörgum bændum, fara í heimsóknir til bænda á álagstímum til þess að fá rétta tilfinningu fyrir því sem þarf að gera og kynna sér vel vinnubrögð bænda með því að prófa sjálf(ur) að grípa í verkin. Ella verði erfitt að setja sig vel inn í verkin og fyrir vikið er hætta á að ráðgjöfin hitti ekki í mark.
 
10. Samvinna
 
Í þessari málstofu var lögð áhersla á bústjórn og voru flutt átta erindi í málstofunni. Sjö þeirra fjölluðu með einum eða öðrum hætti um mannahald og það að stjórna mörgu starfsfólki á búum og etv. á erindi þeirra ekki beint við á Íslandi. Eitt erindið fjallaði um slysahættu við bústörf á kúabúum. Þar kom m.a. fram að algengustu slysin sem verða á kúabúum verða þegar verið að er ragast í nautgripum. Þar á eftir koma vélaslys og þá slys vegna falls. Þessar upplýsingar komu frá fulltrúa danska vinnueftirlitsins og koma trúlega heim og saman við tíðni slysa á kúabúum hér á landi.
 
11. Sérfundir um einstök kúakyn 
 
Síðasta málstofa fagþingsins voru svokallaðir kvöldfundir félaganna sem standa á bak við einstök kúakyn í Danmörku og mætti eiginlega segja að um þrjár aðskildar málstofur sé að ræða, þ.e. fyrir kúabændur með rauðar danskar kýr (RDM), kúabændur með Jersey kýr og svo hinn stóra hóp kúabænda með svartskjöldóttar kýr (Holstein). Á þessum kvöldfundum eru tekin fyrir innri málefni félaganna en alltaf fengnir fyrirlesarar einnig til þess að brjóta fundina upp.
 
Allt framlagt efni og flest erindi fagþingsins er hægt að hlaða niður af heimasíðu fagþingsins: www.kvaegkongres.dk. Þá voru ennfremur mörg tekin upp með svipuðum hætti og margir lesendur þekkja frá t.d. Veffræðslukerfi Landssambands kúabænda. Þar má hlusta og horfa á upptökur þeirra fyrirlestra. Rétt er að geta þess að mest allt efni er á dönsku en þó er hluti þess á ensku.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Sviðsstjóri mjólkurgæðasviðs
Dýralækninga- og gæðadeild
SEGES í Danmörku
Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arf...

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...