Fuglum fækkar í talningu
Vetrartalning á fuglum dróst út janúar, en hefð er fyrir því að telja í upphafi þess mánaðar eða milli jóla og nýárs. Fækkun er í flestum tegundum þó ekki sé hægt að draga miklar ályktanir á muni milli ára.
Tíðarfar og tímasetning geti breytt miklu um hversu margir fuglar sjást. Guðmundur A. Guðmundsson hjá Náttúrufræðistofnun Íslands segir að ekki séu alltaf jafnmörg svæði talin hverju sinni, þó þau sé að jafnaði í kringum tvö hundruð. Því standi til að gera vísitölu vetrarfugla aðgengilega á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar sem leiðrétti fyrir slíkum mun og sýni þróunina til lengri tíma á myndrænan hátt.
Heilt yfir sé tíu til tuttugu prósent fækkun meðal andfugla, vaðfugla og máva. Þetta sé þróun sem hafi verið í gangi lengi og segir Guðmundur engar augljósar skýringar á því. Þó megi gera ráð fyrir að útbreiðsla fuglaflensu hafi haft einhver áhrif til fækkunar. Helmingsmunur var á töldum haförnum í ár og í fyrra, en það geti skýrst af tilviljun hvað talningarmenn komu augu á marga þar sem stofninn sé svo lítill.
Dagsetning talningar skipti máli
Þá geti verið mjög mikill munur á milli ára á tegundum eins og snjótittlingi og súlu. Fyrrnefnda tegundin leiti til stranda og mannabyggða ef það er snjór yfir öllu, annars hverfi hann til fjalla. Súlan sé farfugl sem hverfi alfarið á suðlægari hafsvæði í skamman tíma í desember og janúar og því geti hún verið rétt ókomin eða nýkomin þegar talning á sér stað. Vegna þessa sé ekki hægt að draga ályktanir af miklum af sveiflum í fjölda fugla talda af þessum tegundum.
Algengasta fuglategundin í vetrartalningum sé æðarfugl. Að jafnaði séu sextíu til sjötíu þúsund æðarfuglar skráðir. Síðan séu ýmsar andategundir og mávategundir áberandi. Á sumrin séu annars konar talningar og þær mismunandi eftir tegundum. „Vaðfuglar eru til dæmis teljanlegastir þegar þeir eru með nýklakta unga og við erum að vinna með þá í fyrrihluta júní,“ segir Guðmundur. Þá nefnir hann að bjargfugla sé hægt að telja fram í byrjun júlí.
Sjálfboðaliðar frá 1952
Guðmundur segir vetrartalningar á fuglum fyrst hafa verið gerðar hérlendis árið 1952 að amerískri fyrirmynd. Mjög fá talningasvæði hafi verið undir fyrstu áratugina, en þeim hafi fjölgað jafnt og þétt. Fyrst var talið milli jóla og nýárs, en vegna flugelda og veisluhalds hafi talningunum verið frestað fram í janúar. Þeir sem telji séu fyrst og fremst sjálfboðaliðar, þó Guðmundur segi að einhverjir starfsmenn Náttúrufræðistofnunar og náttúrustofanna víðs vegar um land taki þátt. Fólk þurfi ekki að sækja námskeið þó mælt sé með því að fara fyrst með reyndu fólki. Allir talningamenn séu vopnaðir kíki og sumir fjarsjá, sem sé stór sjónauki á þrífæti. Þeir gangi fimm til tíu kílómetra leið, ýmist meðfram ströndum, upp með ám eða hjá auðum vötnum.