Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Austri frá Stóru-Hámundarstöðum, annar tveggja fullorðinna hrúta með arfgerðina T37. Hann fer á sæðingastöð í haust.
Austri frá Stóru-Hámundarstöðum, annar tveggja fullorðinna hrúta með arfgerðina T37. Hann fer á sæðingastöð í haust.
Mynd / Snorri Snorrason
Fréttir 15. september 2022

Fyrsta skrefið í átt að ræktun á riðuþolnum stofni

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Segja má að fyrsta lögformlega skrefið hafi nú verið tekið í þá átt að gera Íslendingum fært að rækta upp riðuþolinn sauðfjárstofn, með verndandi arfgerðum gegn riðusmitum.

Matvælastofnun hefur veitt undanþágu fyrir sölu á líflömbum og kynbótagripum, yfir varnarlínur núna í haust, með mögulegar verndandi arfgerðir. Bæir þar sem smit hefur komið upp á síðustu sjö árum hafa forgang við kaup á slíkum gripum, þar sem fjöldi með þessar arfgerðir er enn mjög takmarkaður.

Flutningur sauðfjár yfir varnarlínur er bannaður samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma. Matvælastofnun er þó heimilt að veita undanþágu frá þeirri reglu fyrir kynbótagripi, en hingað til hefur það ákvæði eingöngu verið notað til að flytja kynbótahrúta á sæðingastöðvar.

Byggt á upplýsingum úr arfgerðarrannsóknum

Á undanförnum misserum hefur verið unnið að undirbúningi fyrir þessi tímamót innan tveggja samstarfsverkefna, með aðkomu starfsmanna Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, Keldna, íslenskra sauðfjárbænda og alþjóðlegra vísindamanna. Í þeim hefur falist sú vinna að greina arfgerðir í íslensku sauðfé á landsvísu í þeim tilgangi að finna verndandi og mögulega verndandi arfgerðir til að nota til ræktunarstarfsins.

Matvælastofnun veitir þessa heimild nú í því ljósi að gripir hafa fundist sem bera verndandi arfgerð gegn riðuveiki (ARR-arfgerð) og mögulega verndandi arfgerð (T137), að undangengnu áhættumati. Hvetur stofnunin eindregið til sæðinga með hrútum sem bera verndandi arfgerðir svo halda megi flutningi líflamba á milli svæða í lágmarki.

Alls hafa fundist 136 gripir

Þegar niðurstöður arfgerðarrannsókna samstarfsverkefnanna eru skoðaðar kemur í ljós að 13 fullorðnir gripir eru í dag með ARR- arfgerð, aðeins einn hrútur og 41 lamb. Með arfgerð T137 eru tveir fullorðnir hrútar, 39 ær og 42 lömb – í alls átta hjörðum. Alls 136 gripir.

Eyþór Einarsson.
Mynd / RML

Eyþór Einarsson, hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, segir að þar sem framboð af gripum með ARR og T137 sé takmarkað, ættu bændur líka að huga að því að velja markvisst lítið næmu arfgerðina AHQ sem fannst í rúmlega 14 prósenta gripa samkvæmt niðurstöðum arfgerðarrannsóknanna, eða um 2.800 gripir. Að auki eru gripir með þessa arfgerð sem áður hafa verið greindir á síðustu árum, fyrir téðar arfgerðarrannsóknir.

Talið er að sá efniviður sem sé til staðar, muni duga nokkuð vel til að hægt sé að hefja skipulega ræktun á stofnum sem eru verndaðir gegn smiti.

Áhugi bænda á viðskiptunum

Eyþór segist hafa af því spurnir að áhugi sé meðal bænda að ná sér í hrúta, sérstaklega á mestu riðusvæðunum. Hann segir að sæðingastöðvarnar hafi þegar tryggt sér hrúta með bæði ARR og T137; Gimstein, eina fullorða hrútinn með ARR-arfgerð frá Þernunesi í Reyðarfirði, og Austra frá Stóru- Hámundarstöðum á Árskógsströnd.

Matvælastofnun hefur skilgreint forgangssvæði, þeirra bæja sem hafa forgang við kaup á gripum með þessar arfgerðir, þannig að þær nýtist sem best til að draga úr útbreiðslu á riðuveiki.

Bæir á forgangssvæði 1 hafa forgang að líflömbum með þessar arfgerðir, en á þessu svæði eru bæir þar sem riða hefur komið á undanförnum sjö árum og bæir með faraldsfræðilega tengingu við þá, svo sem sameiginlegan upprekstrarrétt eða annan þekktan samgang.

Til að erfðaefnið sé sem best nýtt eru hjarðir á þessu svæði með um 300 kindur eða fleiri í forgangi. Ekki verður heimilt að flytja aðflutta kynbótahrúta á milli hjarða á svæðinu frá móttökubæjum.

Á forgangssvæði 2 eru bæir þar sem riða hefur komið upp undanfarin 7 ár og bæir með faraldsfræðilega tengingu við þá, en hjarðir minni en 300 kindur.

Á forgangssvæði 3 eru allir aðrir bæir á riðusvæðum, sýktum varnarhólfum, og ekki falla undir forgangssvæði 1 eða 2.

Íslandskort sem sýnir útbreiðslu á riðusmitum á landsvísu, þar sem bæir eru merktir eftir því hversu langt er síðan síðasta smittilfelli var staðfest. Mynd / Matvælastofnun

Á Norðvesturlandi (t.h.) hafa flest smittilfelli riðuveiki í sauðfé verið staðfest. Rauðu punktarnir eru þau forgangssvæði sem hafa mestan forgang við kaup á gripum með verndandi eða mögulega verndandi arfgerðir, samkvæmt skilgreiningu Matvælastofnunar. Mynd / Matvælastofnun

Undanþágan nær ekki til flutnings inn á hrein sölusvæði

Undanþágan nær ekki til flutnings líflamba inn á hrein líflambasölusvæði.

Matvælastofnun hefur gefið það út að umsóknum um slíka flutninga skuli skilað inn í gegnum þjónustugátt stofnunarinnar og verða umsóknir afgreiddar 12. september 2022.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...