Fyrsti rafmagnssteypubíllinn á leiðinni til landsins
Steypustöðin gekk nýlega frá samningi við steypudælu og -bílaframleiðandann Putzmeister um fyrsta rafmagnsknúna steypubílinn.
Bifreiðin verður einnig fyrst sinnar tegundar í heiminum frá framleiðandanum. Einnig gekk Steypustöðin frá kaupum á Hybrid steypudælu og mun því geta dælt steypu á byggingasvæðum með verulega lágri kolefnislosun frá flutningum. Rafmagnsteypubíllinn er 100% rafknúinn og mengar því ekkert, hvort sem er í akstri eða losun steypunnar á verkstað.
„Það var ótrúlega gaman að ganga frá þessum samningi, það er ákveðinn viðurkenning fyrir íslenska steypumarkaðinn að fá þetta traust og ryðja þannig brautina í heiminum fyrir umhverfisvæna steypuflutninga,“ segir Björn Ingi Victorsson, forstjóri Steypustöðvarinnar. „Til að taka skrefið af fullri alvöru höfum við einnig fest kaup á tvinndælu sem dælir á 100% rafmagni á verkstað. Þannig myndast enginn kolefnisútblástur á verkstað meðan á steypuframkvæmdum stendur,“ bætir Björn Ingi við.