Geitapylsur, ærkjöt, geitaostar og sauðamjólkurís
Matarmarkaður smáframleiðenda matvæla var haldinn á 1. hæð aðalbyggingar Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri 7. mars.þar sem gestir gátu nælt sér í margvíslegar krásir úr smiðju matarfrumkvöðla úr þéttbýli og af landsbyggðinni.
Markaðurinn var haldinn í kjölfar málþingsins Landslagið í landbúnaði og matvælaframleiðslu, þar sem Oddný Anna Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla, fór yfir stöðu og horfur fyrir sína félagsmenn. Íþyngjandi regluverk utan um þessa tegund matvælaframleiðslu er talin vera helsta ógnin og hamlar frekari framþróun.
Samtök smáframleiðenda matvæla voru stofnuð árið 2019 og þar innanborðs eru bændur úr félagsskapnum Beint frá býli sem stofnaður var árið 2008. Af þeim 208 framleiðslufyrirtækjum sem eru í samtökunum eru 75 prósent á landsbyggðinni en 25 prósent á höfuðborgarsvæðinu.
Á markaðinum mátti meðal annars finna geita-, lamba- og ærkjöt í ýmsum myndum, pylsur, paté, kæfur, ostar, sinnep, síróp og hlaup, krydd, hvítlaukssalt, sveppasalt, harðfisksnakk, sultur og marmelaði, te, drykkir úr íslenskum jurtum og skógarafurðum, sælkerapoppkorn, frostþurrkað sælgæti, bakkelsi, konfekt og ís. Bændur og smáframleiðendur eru með ýmislegt annað handverk á sínum prjónum en matvæli og á markaðnum mátti einnig finna sápur, krem, gærur, sauða- og geitaband, uppskriftir og prjónapakka.