Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Dominque Plédel Jónsson er formaður Slow Food á Norðurlöndunum og ritari Slow Food Reykjavík.
Dominque Plédel Jónsson er formaður Slow Food á Norðurlöndunum og ritari Slow Food Reykjavík.
Mynd / Sigurður Már Harðarson
Fréttir 12. júlí 2021

Geitfjárafurðir fá sögumiða Slow Food-hreyfingarinnar

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Um þessar mundir er unnið að gerð svokallaðra sögumiða fyrir íslenska geitabændur, sem ætlaðir eru framleiðendum í verkefninu Presidia innan alþjóðlegu Slow Food-hreyfingarinnar. Á sögumiðanum er sögð saga hvers og eins ræktanda, sem tekur þátt í verkefninu. Presidia-verkefnin eru fjölbreytt en eiga það sameiginlegt að halda utan um ræktun og framleiðslu afurða og búfjárkynja vítt og breitt um heiminn sem eru í útrýmingarhættu. Presidia utan um íslensku geitina var skráð árið 2015 og er í raun ákveðinn framleiðendahópur sem undirgengst ákveðnar framleiðslureglur sem Slow Food Reykjavík og alþjóðlega hreyfingin hafa komið sér saman um. Hafa Dominique Plédel Jónsson, sem er ritari Slow Food Reykjavík ásamt því að gegna formennsku í Slow Food á Norðurlöndum, og dr. Ólafur Dýrmundsson haft veg og vanda að vinnunni af hálfu Íslands í samstarfi við Geitfjárræktarfélag Íslands.

Landnámshænan fyrsta húsdýrið á Norðurlöndum til að bera merkið

Íslenska landnámshænan og íslenska skyrið eru einnig í Presidia – og íslenskir ræktendur landnáms­hænunnar fengu sinn sögumiða í lok síðasta árs. Um leið varð hún fyrsta húsdýrið á Norðurlöndunum til að bera merki Slow Food á afurðunum, rauða snigilinn. Að sögn Dominique Plédel Jónsson hafa þau dr. Ólafur unnið saman að þessum framgangi, sem felst til að mynda í stofnun framleið­endahópa. „Sögumiðinn fyrir íslensku geitabændurna er á leiðinni til okkar og verður þeim leyft að merkja afurðir sínar með honum.“

Framleiðslureglurnar tilbúnar

Dominique segir að framleiðslureglur framleiðendahópsins séu tilbúnar og allir þurfi að samþykkja þær formlega. Þetta eru uppfærðar framleiðslureglur frá 2015. Í þeim segir í greininni um ræktun:

 „Dýrin verða að vera í lausagöngu á beitartímabilinu, og skulu fóðruð með heyi innanhúss yfir vetrartímann og njóta útivistar þegar veður leyfir. Innanhúss verða dýrin að hafa að minnsta kosti 1 m2 legurými hver og 50 cm við garðann (íslensk reglugerð um velferð dýra). Húsin verða að hafa náttúrulega dagsbirtu.“ Í greininni um afurðir segir: „Kynið er einstakt hvað varðar gæði kjötsins og mjólkin stenst vel samanburð við mjólk annarra geitakynja frá næringarfræðilegu sjónarmiði (fitu, prótein, laktósa). Kjötið, þó það sé magurt og bragðmikið, er minna en hjá öðrum geitategundum og vinnsla á íslenskri geitakasmírull var næstum horfin. Sú hefð að framleiða osta, aðallega ferskan eins og skyr, féll í gleymsku þegar stórt samvinnufyrirtæki hóf að safna kúamjólk víðs vegar um landið til að vinna hana á miðstýrðan hátt með iðnaðaraðferðum. Í dag eru nokkrir framleiðendur sem nota mjólkina til að framleiða osta og jógúrt en í mjög litlum mæli og eru þeir fúsir til að endurheimta fyrri þekkingu fyrir geitamjólkurosta og aðrar mjólkurafurðir úr þessum sjaldgæfa íslenska búfjárkyni. Þar að auki kjósa nokkrir bændur, þó í mjög litlum mæli, að rækta þetta kyn og selja kjöt sitt og halda hefðinni á lofti þrátt fyrir lítinn fjárhagslegan ávinning.“

Undanþágur vegna hrámjólkur til 2022

Í framleiðslureglunum eru til­greind­­ar undanþágur fyrir mjólkur­afurðirnar vegna þess að Slow Food leiðbeiningar og hefð­bundnar framleiðslukröfur gera ráð fyrir að hrámjólk sé notuð og heimaframleiddur ostahleypir. Íslenskrar reglugerðir heimila ekki notkun á ógerilsneyddri mjólk til matvælaframleiðslu. Fá framleiðendur undanþágur til ársloka 2022 til að mæta þeim kröfum. Hið sama gildir til að fá leyfi til að bera merki Slow Food á íslenskum geitaostum, þá verða þeir að vera unnir úr hrámjólk – ógerilsneyddir og úr heimgerðum ostahleypi. Dominique bindur vonir við að hægt verði að breyta þessu á næstu misserum, enda séu fordæmi til að mynda frá Svíþjóð, Danmörku og Noregi þar sem ógerilsneydd ostagerð er heimil með ákveðnum skilyrðum. „Við vinnum að því núna að afla þekkingar og reynslu frá Eldrimner, samtökum smáframleiðenda matvæla í Svíþjóð. Óli Þór Hilmarsson og Ólafur Reykdal, starfsmenn Matís, hafa rannsakað íslenska geitamjólk og skrifað skýrslu þar sem mælt er með því að við geitaostagerð sé notuð ógerilsneydd mjólk, til að smáskalaframleiðsla á slíkum ostum geti náð sér á strik. Þar kemur líka fram að víða erlendis séu geitaostar framleiddir úr ógerilsneyddri mjólk og látnir þroskast í marga mánuði. „Á fyrstu einum til þremur mánuðunum kemur í ljós hvort ostarnir eru í lagi, því ef óæskilegir gerlar hafa leynst í mjólkinni, þá yfirtaka þeir fljótt vöxt þeirra gerla sem bætt hefur verið í mjólkina,“ segir í skýrslunni. Þá benda þeir á misræmi í íslenskri löggjöf, því í dag er leyfilegt að flytja inn osta sem hafa verið framleiddir með ógerilsneyddri mjólk, eins og Parmigiano og Grana Padano. Erfðanefnd landbúnaðarins hefur styrkt bæði búfjárverkefnin, sem eru á verkefnasviði Slow Food, sem snýr að því að vernda líffræðilegan fjölbreytileika.

Skylt efni: Slow Food | geitur

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...