Getur verið að þetta sé satt?
Í síðasta pistli taldi ég mig knúinn til að fjalla aðeins um COVID-19 sem ég gerði, vitandi það að ég er enginn fræðimaður og veit ekkert um læknisfræði, smitsjúkdóma og smitleiðir. Frekar hefði ég viljað skrifa um hluti sem ég tel mig hafa aðeins meira vit á, svo sem vélar og tæki.
Í ljósi allrar umræðu tel ég mig samt knúinn til að halda áfram skrifum um þennan vírus sem allir hafa skoðun á.
Rannsaka allar hugsanlegar smitleiðir og hegðun vírussins
Í síðasta pistli á þessari síðu opnaði ég umræðuna með þessum orðum:
„Fyrir mér er þessi veira lýsandi dæmi um hættuna sem getur skapast við óheftan innflutning á fersku kjöti. COVID-19 kemur með ferðamönnum erlendis frá og ekkert getur stoppað hana, hins vegar er verið að reyna að hægja á henni með ýmsum höftum.
Í áraraðir hefur innflutningur á kjöti verið takmörkum háð og ekki enn komnar umgangspestir við þann innflutning.“
Á fréttamiðlum hefur fólk töluvert verið að deila tveim myndum í samlíkingu við dauðsföll og sýkta einstaklinga af COVID-19 í mismunandi löndum.
Myndirnar tvær
Myndirnar eru annars vegar af notkun sýklalyfja í landbúnaði í Evrópu (sá þessa mynd fyrst á Facebook-síðu Haraldar Ben., fyrrum formanns Bændasamtakanna, fyrir nokkrum árum). Á þessari mynd má glögglega sjá að Ísland og Noregur bera af í lítilli notkun lyfja, en á botninum eru Ítalía og Spánn. Í Noregi og á Íslandi er enn sem komið er ekki mikil dánartíðni af sýktum einstaklingum, en aftur á móti er dánartíðnin mjög há á Ítalíu og á Spáni.
Hin myndin sýnir dánartíðni fólks árið 2015 vegna fjölónæmra baktería í Evrópulöndum. Getur verið að hér sé fylgni við dánartíðni vegna COVID-19? Þar sem ég veit nánast ekkert um lyf og læknisfræði leitaði ég til frænku minnar um svör. Ingunn Björnsdóttir er bóndadóttir úr Kelduhverfinu, sprenglærð í lyfjafræði og starfar sem dósent í lyfjafræði við Óslóarháskóla. Gefum Ingunni orðið:
„Fyrri myndin sýnir ágætlega hvaða lönd leitast við að lágmarka sýklalyfjanotkun við matvælaframleiðslu og hvaða lönd láta alla slíka viðleitni lönd og leið. Sú seinni sýnir fjölda dauðsfalla vegna sýklalyfjaónæmis, sem áætla má að hafi orðið í ýmsum Evrópulöndum árið 2015. Rétt er hér að skoða tölurnar út frá fólksfjölda í löndunum. Til dæmis mætti umreikna gróft í dauðsföll á hverja milljón íbúa. Þá væru dauðsföllin 3 á Íslandi, 13 í Noregi en sirka 175 á Ítalíu. Áhugasamir geta haldið áfram með reikningsdæmið fyrir öll löndin.“
Íslenskar og norskar landbúnaðarvörur í sérflokki
„Vitað er að ónæmi baktería helst í hendur við sýklalyfjanotkun, þannig að mikil notkun eykur til muna hættu á ónæmi. Og vitað er að þarna þarf að taka með í reikninginn bæði það sem læknar ávísa á lyfseðla og það sem notað er í landbúnaði. Nýlega kom í ljós í kínverskri rannsókn að helmingur þeirra sem látist höfðu á ákveðnum spítala á ákveðnu tímabili af nýju kórónuveirunni hafði bakteríusýkingar ofan í veirusýkinguna, en einungis eitt prósent þeirra sem lögst höfðu inn á sjúkrahús vegna veirunnar en lifað hana af og verið útskrifaðir. Af þessu má ljóst vera að nú er mikilvægt að lágmarka hættu á því að fá í sig ónæmar bakteríur, sem og lágmarka hættu á að ónæmi myndist í bakteríum. Íslenskar og norskar landbúnaðarafurðir eru í sérflokki varðandi þetta, og því góð ástæða til að hvetja til þess í báðum löndunum að halda sig við landbúnaðarafurðir sem framleiddar eru innanlands.
Að lokum vil ég minna á mikilvægi þess matvælaöryggis sem felst í innanlandsframleiðslunni, nú þegar ljóst má verða að alls kyns truflanir verða á bæði framleiðslu og flutningum á hinum ýmsu vörum.“