Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Frá aðalfundi Æðarræktarfélags íslands sem haldinn var í Bændahöllinni 12. nóvember síðastliðinn.
Frá aðalfundi Æðarræktarfélags íslands sem haldinn var í Bændahöllinni 12. nóvember síðastliðinn.
Mynd / GG
Fréttir 25. janúar 2017

Góðar söluhorfur á æðardún eftir gott sumar 2016

Höfundur: HKr. / GG
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands var haldinn þann 12. nóvember sl. á Hótel Sögu. Á fundinn mættu tæplega 70 manns, en almennt var gott hljóð í æðarbændum eftir hagstætt vor og sumar. 
 
Söluhorfur á æðardúni síðasta sumars eru góðar og má ætla að magn til útflutnings verði allavega svipað og 2015, eða rúmlega 3 tonn. Þá var búið að flytja heldur meira út í nóvember en á sama tíma árið áður. Víðast var hefur tíðarfar verið hagstætt æðarfuglinum vor og sumar 2016 og gott hljóð í æðarbændum. Styrking krónunnar hefur þó ekki verið að vinna með æðarbændum að undanförnu frekar en öðrum útflutningsgreinum. Að öllu óbreyttu getur það farið að hafa áhrif á verð til bænda. 
 
Aukið ónæði víða í æðarvarpi
 
Á fundinum voru æðarbændur hvattir til að friða æðarvörp sín, en aukið ónæði er í sumum vörpum vegna fjölgunar ferðamanna og vegna aukins þyrluflugs. Það eru sýslumenn sem sjá um friðlýsingu æðarvarpa. Upplýsingar er að finna á www.icelandeider.is og www.syslumenn.is. 
 
Dr. Þórður Örn Kristjánsson kynnti rannsóknir sínar á varpvistfræði æðarfugls við Breiðafjörð en hann varði doktorsritgerð sína í haust.
 
Þá voru flutt erindi á fundinum um auðlindir í netlögum. Arnór Snæbjörnsson, lögfræðingur í atvinnuvegaráðuneytinu, fjallaði um lagalega umgjörð um öflun sjávargróðurs og Jón Einar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Snæfellsnesi, um lífríki í netlögum.
 
Fyrirlesarar svöruðu fjölda fyrirspurna og umræður urðu um möguleg áhrif nýtingar sjávar á vistkerfi æðarfugls, bæði vegna þeirrar auknu nýtingar sem fyrirhuguð er á þara og þangi í Breiðafirði og eins vegna stóraukins sjókvíaeldis, m.a. á Vestfjörðum. Á fundinum voru samþykktar ályktanir þar að lútandi. 
 
Ályktun um öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni
 
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands skorar á umhverfisráðherra, sjávarútvegsráðherra og sveitarstjórnir við Breiðafjörð að standa vörð um lífríki Breiðafjarðar og leggjast gegn áformum um stóraukna nýtingu á sjávargróðri án undangenginna rannsókna. Gerð er krafa til stjórnvalda um að virtar verði meginreglur stjórnsýslunnar, m.a.  andmælaréttur og meðalhófsregla. Jafnframt að virt verði stjórnarskrárvarin réttindi við töku ákvarðana um gjaldtöku og nýtingu á lífríki Breiðafjarðar. Sérstaklega er þess krafist að fullt tillit verði tekið til grenndarsjónarmiða varðandi alla nýtingu.
 
Samþykkt á aðalfundi Æðar­ræktarfélags Íslands þann 12. nóvember 2016 vegna frumvarps til laga um breytingar á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni); 679. mál, lagafrumvarp, 145. löggjafarþing 2015–2016.
 
Greinargerð með ályktuninni:
 
Þang og þari, stundum nefndir regnskógar norðursins, eru undirstaða auðugs lífríkis í sjó og á landi við Breiðafjörð. Þang og þari eru afkastamiklir frumframleiðendur og uppspretta gríðarlegs magns lífræns efnis sem aðrir hlutar lífkeðjunnar eru háðir. Þang og þari eru auk þess allt í senn mikilvægt búsvæði fyrir fjölda lífvera, fæða fyrir ýmis dýr sem éta þá og þegar þeir brotna niður verða þeir fæða fyrir dýr sem sía sjó, svo sem krækling og hörpudisk. Æðarræktarfélag Íslands tekur undir ályktun Æðarræktarfélags Snæfellinga  og Æðarvéa frá deildarfundum 2016 og skorar á stjórnvöld að leyfa ekki frekari þang- og þaraöflun án undangenginna rannsókna á lífríki Breiðafjarðar. Þá telur félagið að framlagt frumvarp sé aðför að hefðbundnum hlunnindum sjávarjarða og lífríki Breiðafjarðar.
 
Gjaldtaka og öflun hráefnis á einkalandi
 
Í frumvarpinu kemur fram: „Við 4. mgr. 9 gr. laganna bætis nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvarða skal veiðigjald fyrir sjávargróður sem hér segir: 500 kr. á hvert landað tonn klóþangs, hrossaþara og stórþara (blautvigt).”
 
Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir að innheimt verði gjald af klóþangi sem vex í fjörum innan landareigna í einkaeign. Landeigendur eru þeir einu sem heimild hafa til að nýta þangið eða veita öðrum heimild til nýtingar. Frumvarpið gerir ráð fyrir að eignarréttur landeigenda verði skertur með ólögmætri gjaldtöku ríkisins fyrir sjávargróður sem vex á eignarlandi. Æðarbændur eiga í flestum tilfellum landareignir sem liggja að sjó og mótmæla þessari gjaldtöku harðlega. Verði ekki fallið frá gjaldtökunni í frumvarpinu verður látið reyna á lögmæti hennar fyrir dómstólum. Slík gjaldtaka getur jafnframt haft fordæmisgildi fyrir annað sem landareignir geta gefið af sér s.s. hey, fjallagrös, ber, sveppi, lax, silung eða jafnvel æðardún.
 
Frumvarpið nær einnig til þara sem vex á sjávarbotni og er víða innan netlaga. Hluti þarans heyrir því einnig undir landeigendur.
 
Áhrif á lífríki
 
Æðarbændur óttast mjög um lífríkið ef þang og þari verður nýttur í stórauknum mæli án undangenginna rannsókna, sem leitast ættu við að svara því hvaða afleiðingar slík viðbót gæti haft í för með sér fyrir lífríkið í heild. Ofnýting á sjávargróðri gæti haft langvarandi alvarleg og jafnvel óafturkræf áhrif á lífríkið.
Það er skýlaus krafa æðarbænda að við ákvarðanatöku um frekari nýtingu verði gætt sjónarmiða allra hlutaðeigandi aðila, þ.á m. þeirra sem nytja æðarvörp, hrognkelsi, þorsk, ígulker, hörpudisk og bláskel.
Æðarfugl er mikilvæg nytjategund sökum dúntekju og nýtur margs konar verndar skv. íslenskum lögum. Æðardúntekju stunda rúmlega 400 bændur hérlendis. Meðaltal útflutningsverðmætis æðardúns var um 375 milljónir kr. 2008–2013 og var árlegur heildarútflutningur að meðaltali 2,75 tonn af hreinsuðum dún.
Tvö síðustu ár þessa tímabils voru í sérflokki. Árið 2012 voru flutt út 3,08 tonn ogvar heildarútflutningsverðmæti æðardúns tæpar 508 milljónir kr. það ár. Árið 2015 var verðmætið komið upp í tæpar 600 milljónir kr. fyrir 3,1 tonn. Æðarfugl er því án efa mesti nytjafugl landsins og er m.a. friðaður fyrir skotveiði vegna dúntekjunnar. Æðarfugl hefur notið einhvers konar verndar á Íslandi frá þjóðveldisöld og verið alfriðaður frá 1849. Bannað er að skjóta æðarfugl, leggja net nærri æðarvarpi eða trufla varp á annan hátt. Æðarbændur mega þó sinna dúntekju og taka egg svo framarlega sem skilin eru eftir fjögur egg í hreiðri, sbr. lög nr. 64/1994.
 
Æðarræktarfélag Íslands og Æðarræktarfélag Snæfellinga og Æðarvé taka heilshugar undir þær athugasemdir sem Náttúrustofa Vesturlands, Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi og Breiðafjarðarnefnd gerðu við frumvarpið. Í athugasemd Rannsóknaseturs HÍ kemur m.a. fram að klóþangsbreiður eru ungauppeldisstöðvar fyrir æðarfugl. Litlir æðarungar éta nær eingöngu marflær sem lifa í klóþangi en ekki öðrum þangtegundum. Telja má víst að stóraukin nýting klóþangs geti dregið úr nýliðun í varpstofni æðarfugls í Breiðafirði. Varp æðarfugls er einn óvissuþátta við aukna nýtingu klóþangs sem þarf að taka tillit til við verndun og nýtingu Breiðafjarðar. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þeirra hlunninda sem æðarfugl veitir landeigendum. Ef frá eru taldir þörungarnir sjálfir, virðist ekki gert ráð fyrir rannsóknum á lífríkinu áður en nýting verður stóraukin, svo sem til að meta grunnástand lífríkisins fyrir töku sjávargróðurs. Án grunnrannsókna er ekki hægt að meta hvort nýting sjávargróðurs verði sjálfbær fyrir vistkerfið í heild, því það verður ekki gert eingöngu út frá vaxtarhraða þangs og þara.
 
Ályktað um sjókvíaeldi og æðarfugl
 
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2016 ályktar að brýn nauðsyn sé á því að rannsaka og vakta áhrif sjókvíaeldisstöðva og stækkunar þeirra á lífríki sjávar og þar með beina og óbeina hættu fyrir vöxt og viðkomu æðarfugls.
 
Greinargerð með ályktun:
 
Engar rannsóknir liggja fyrir á áhrifum sjókvíaeldis á lífríki sjávar á Íslandi og þar af leiðandi skortir forsendur til að meta hvort ákvörðun um að stórauka sjókvíaeldi geti falið í sér hættu fyrir lífríkið, þar á meðal fyrir vöxt og viðkomu æðarfugls. Þá er brýn nauðsyn á vöktun núverandi starfsemi í þessu tilliti vegna skorts á þekkingu á áhrifum hennar á lífríkið. Í þessu sambandi má benda á skýrslu NINA (Norsk institutt for naturforskning) sem ber heitið Effekter av forstyrrelser på fugl og paddedyr fra akvakulturanlegg í sjo – en litteraturtudie frá 2015. www.nina.no. Í skýrslunni er bent á skort á rannsóknum á áhrifum sjókvíaeldis á fugla og dýr í Noregi.
 
Þá var samþykkt tilllaga varðandi minka- og refaveiðar en á félagsmönnum mátti heyra að þeir væru orðnir úrkula vonar um að stjórnvöld tækju á þeim málum af festu. Ályktunin hljóðar svo: Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2016 hvetur stjórnvöld til að auka fjármagn til refa- og minkaveiða.
Æðarræktarfélagið hvetur einnig ríkið og sveitarfélög landsins til að koma á samræmdum reglum um veiðar þessara dýra.
 
Einnig voru umræður um áhrif fyrirhugaðra breytinga á fjármögnun BÍ vegna afnáms búnaðargjalds og var stjórn falið að skila greinargerð til félagsmanna. 
 
Fundarstjóri var Salvar Bald­ursson, en stjórn Æðarræktar­félags Íslands skipa;  Guðrún Gauksdóttir, formaður, Kaldaðarnesi, Salvar Baldursson, Vigur og Sólveig Bessa Magnúsdóttir, Innri-Hjarðardal. 
 
Á fundinum var Erla Friðriks­dóttir, Stykkishólmi, endurkjörin í stjórn. Sæmundur Sæmundsson, Hrísey, var kosinn í stjórn í stað Björns Inga Knútssonar. Í varastjórn er Margét Rögnvaldsdóttir, Harð­bak og á fundinum var kjörin í varastjórn Sigríður Magnúsdóttir. 

4 myndir:

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu
Fréttir 3. janúar 2025

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu

Í haust keypti samlagsfélagið SÍA IV, framtakssjóður í rekstri sjóðstýringarfyri...

Hert á ferlunum
Fréttir 3. janúar 2025

Hert á ferlunum

Einfalda, hraða og stytta á ferli rammaáætlunar til að flýta fyrir orkuöflun í l...

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru
Fréttir 3. janúar 2025

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru

Framkvæmdir við uppbyggingu Laxeyjar á fiskeldi í Vestmanna­eyjum hafa gengið sa...

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð
Fréttir 2. janúar 2025

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð

Vænlegast þykir enn sem komið er að horfa til notkunar á verkuðu votheyi til nýt...

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð
Fréttir 2. janúar 2025

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð

Lagt er til að hugtakið kolefniseining verði skilgreint í lögum og að þær verði ...

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild
Fréttir 30. desember 2024

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild

Búsæld seldi hlut sinn í Kjarnafæði Norðlenska (KN) í heild til Kaupfélags Skagf...

Styrkir til verslana
Fréttir 30. desember 2024

Styrkir til verslana

Sex dagvöruverslanir í minni byggðarlögum kringum landið hlutu styrki frá innvið...

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans
Fréttir 27. desember 2024

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans

Stefán Hrafn Magnússon, hreindýrabóndi í Grænlandi, hefur gróðursett tré á landi...