Greiðslumark færist til Norðvesturlands
Um sjötíu prósent mjólkurkvóta sem skipti um eigendur á síðasta tilboðsmarkaði fór á bæi á Norðurlandi vestra.
Matvælaráðuneytið tilkynnti niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur sem var haldinn 2. apríl síðastliðinn. Af þeim 888.000 lítrum sem viðskiptin náðu til fóru 390.000 lítrar til Skagafjarðar og 233.500 lítrar á starfssvæði Búnaðarsambands Húnaþings og Stranda, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu. Ríflega helmingur af því greiðslumarki sem selt var, rúmlega 486.000 lítrar, fór frá búum á Suðurlandi.
Jafnvægisverð lækkaði milli markaða, reyndist 280 krónur en var 300 krónur á síðasta markaði, í nóvember 2023. Tölur síðustu tilboðsmarkaða benda til minnkandi eftirspurnar eftir mjólkurkvóta.
Aðeins þriðjungur þess greiðslumarks sem boðið hefur verið til sölu á síðustu tveimur tilboðsmörkuðum hefur skipt um eigendur. Fyrir árið 2023 seldist alltaf allt það greiðslumark sem boðið var til sölu.
Kauptilboðum fækkar milli ára
Bændum sem sækjast eftir kaupum á greiðslumarki hefur fækkað verulega frá árinu 2020. Fjöldi gildra kauptilboða voru 218 talsins á aprílmarkaði ársins 2020 en þau voru 57 talsins nú í byrjun apríl 2024. Á sama tíma hefur fjöldi sölutilboða aukist nokkuð, voru níu talsins í apríl árið 2020 en þrjátíu nú síðast.
Talsvert mikil útjöfnun
Rafn Bergsson, formaður búgreinadeildar nautgripabænda hjá Bændasamtökum Íslands, telur að samspil ýmissa þátta dragi úr kauptilboðum bænda.
„Það er greinilega minni eftirspurn eftir greiðslumarki, sem er í takt við það sem við höfum séð á síðustu mörkuðum. Samfara því er verð að lækka. Ástæðurnar fyrir þessu eru helstar að fyrir liggur loforð um að verð á umframmjólk verði ekki lægra en 85 kr/l á þessu ári. Síðustu ár hefur verið talsvert mikil útjöfnun. Það er að framleiðendur sem framleiða umfram greiðslumark hafa fengið fullt verð fyrir stóran hluta af þeirri framleiðslu. Auk þess eru vextir gríðarlega háir núna. Þetta allt dregur úr hvatanum til að fjárfesta í greiðslumarki við núverandi aðstæður,“ segir Rafn.
Framhald á bls. 2 í Bændablaðinu sem kom út í dag