Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Gúrkuútflutningur til Færeyja og Grænlands hefur fest sig í sessi. Viðræður eru við stóran norskan dreifingaraðila.
Gúrkuútflutningur til Færeyja og Grænlands hefur fest sig í sessi. Viðræður eru við stóran norskan dreifingaraðila.
Fréttir 6. desember 2022

Gúrkuútflutningur hefur fest sig í sessi

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Útflutningur á íslenskum gúrkum til Grænlands og Færeyja virðist hafa fest sig í sessi. Þegar framboð er nægt á Íslandi þá eru nokkur bretti send úr landi á viku.

Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjubænda.

Þá er enn horft til Danmerkur og Noregs sem vænlegan markaðsvettvang fyrir íslenskar gúrkur – og annað íslenskt grænmeti – í ljósi þeirrar orku- og áburðarkreppu sem nú plagar landbúnað margra Evrópulanda.

Fyrir ári síðan var sagt frá því hér í blaðinu að verkefnið Íslenskt grænmeti á erlenda markaði hafi hlotið einn hæsta styrk Matvælasjóðs, eða 20 milljónir króna. Í forsvari fyrir verkefnið eru þeir Sverrir Sverrisson, stjórnarformaður útflutningsfyrirtækisins Pure Arctic, og Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna (SFG). Gunnlaugur segir ljóst að íslenskar gúrkur hafi fest sig í sessi sem útflutningsvara til Færeyja og Grænlands.

Ekki alltaf nóg til af gúrkum

„Þetta er í stöðugum farvegi, nema þegar ekki er nóg til af gúrkum fyrir innanlandsmarkað,“ segir hann, spurður um framvinduna í þessum útflutningsmálum á þessu og næsta ári. „Verðið sveiflast mikið á erlendu mörkuðunum – sérstaklega yfir sumartímann. Það er alveg ljóst að vetrartíminn er mest spennandi fyrir okkur til að markaðssetja okkar vörur og byggja upp framtíðarmarkað á Norðurlöndunum allt árið.

Þannig má segja að helstu tíðindin séu utan frá, þar sem til dæmis í Hollandi, þar sem venjulega eru 850 hektarar undir tómatarækt með lýsingu, en þar er verið að skera umfangið í vetur niður í 150 hektara vegna óhagstæðs orkuverðs. Það má segja að það sé kannski lýsandi fyrir stöðuna í Norður-Evrópu, þar sem framleiðslan hefur víða dottið alveg niður í vetur.“

Líka mjólk og kjöt

„Grænlendingar eru áfjáðir í að kaupa af okkur Íslendingum ferskvöru, ekki bara grænmeti heldur líka mjólk og kjöt,“ segir Gunnlaugur en Pure Arctic, sem SFG er hluthafi í, hefur einmitt einnig haft milligöngu um sölu slíkra vara til þessara landa. Gallinn er sá að það er nokkuð dýrara að flytja þessar búvörur frá Reykjavík til Nuuk en alla leið frá Danmörku, þó það sé um tæplega 60 prósent styttri siglingaleið að ræða í sama skipi sem hefur viðkomu í Reykjavík. Þessi staða hefur neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra afurða og það er mikið atriði að þetta verði fært til betri vegar sem fyrst.

Stæður af íslenskum gúrkum á leið í útflutning.

Spennandi Noregsmarkaður

Varðandi sölu á gúrkum til Danmerkur, segir Gunnlaugur að í raun hafi þetta verið tilraunasendingar fram til þessa.

„Við prófuðum þetta aðeins síðasta vetur og veturinn þar á undan, en það verður að segjast eins og er að það hefur verið erfitt að komast aftur inn á markaðinn í vetur, þar sem neytendur hafa almennt séð dregið mjög saman seglin í sínum innkaupum og velja alla jafna ódýrustu vöruna vegna orkukreppunnar sem ríkir í Evrópu. Einn af okkar stærri viðskiptavinum er samt sem áður byrjaður að kaupa af okkur aftur og við vitum einnig að það eru fleiri tækifæri á Danmerkurmarkaði fyrir þann hluta markaðarins sem leggur áherslu á hreinleika, gæði og umhverfisvæna framleiðslu vörunnar, en þar stendur íslenska gúrkan mjög sterk. Við væntum þess að eftirspurnin muni aukast á ný þegar orkumarkaðirnir leita aftur í eðlilegt horf og neytendur hafa meira á milli handanna sem vonandi gerist fyrr en seinna.

Við höfum einnig verið að kanna markaðinn í Noregi og eigum í viðræðum við stóran dreifingaraðila sem stendur og munum líklega fara í einhverjar prufusendingar þangað. Noregsmarkaðurinn er mjög spennandi fyrir okkur þar sem verðlagningin er hærri en í Danmerku og því eru okkar vörur samkeppnishæfari þar.“

Stækkun garðyrkjustöðva

Á síðustu tveimur árum hefur orðið talverð aukning í gúrkuframleiðslu á Íslandi.

„Hluti af ástæðunni fyrir því að gúrkuframleiðendur réðust í stækkanir á sínum stöðvum var að markaðsaðstæður voru taldar vænlegar með tilliti til útflutnings til nágrannaríkja okkar. Það hefur reynst rétt hvað varðar Grænland og Færeyjar en aðeins meiri óvissa með Danmörku sem og önnur Evrópulönd. Samkvæmt okkar rannsóknum þá virðast samt vera ákveðin tækifæri þar í stöðunni – og ekki bara með gúrkur – en það tekur lengri tíma að vinna sig inn á þá markaði.

Ef það reynast vel borgandi markaðir þarna úti, þá er í sjálfu sér ekki vandamál fyrir íslensku stöðvarnar að auka framleiðsluna,“ segir Gunnlaugur.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...