Hálfur milljarður til nautgripa- og sauðfjárbænda
Matvælaráðuneytið hefur birt niðurstöður um úthlutanir vegna fjárfestingastuðnings í nautgripa- og sauðfjárrækt vegna framkvæmda á þessu ári.
Í nautgriparækt bárust 138 umsóknir, en til úthlutunar voru 268 milljónir króna sem skiptast á milli nautgripabænda. Fjárfestingastuðningur fyrir hvern framleiðanda getur að hámarki numið 40 prósentum af stofnkostnaði ef heildarkostnaður fer yfir eina milljón króna. Hver framleiðandi getur þó ekki fengið hærra framlag ár hvert en tíu prósent af árlegri heildarupphæð fjárfestingastuðningsins samkvæmt fjárlögum.
Samkvæmt umsóknum nautgripabænda nemur heildarkostnaður við fjárfestingar þeirra á þessu ári alls tæpum fimm milljörðum króna.
Í sauðfjárrækt bárust 135 umsóknir, en heildarupphæðin sem nú var til úthlutunar nam 238 milljónum króna en þar voru auknir fjármunir til ráðstöfunar samkvæmt endurskoðuðum sauðfjársamningi búvörusamninganna. Ónýttar beingreiðslur í sauðfjárrækt eru nú nýttar í fjárfestingastuðning.
Stuðningurinn getur nú numið allt að 40 prósentum af stofnkostnaði fyrir hvern framleiðanda í stað 20 prósenta áður, ef heildarkostnaður fer yfir eina milljón króna. Sömu skilyrði gilda fyrir sauðfjárbændur hvað það varðar að enginn þeirra getur fengið hærra framlag ár hvert en sem nemur tíu prósentum af árlegri heildarupphæð stuðningsins.
Samkvæmt umsóknum sauðfjárbænda nemur heildarkostnaður þeirra vegna fjárfestinga á árinu 2,2 milljörðum króna.