Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Parið og heimsmeistararnir, Eyrún Ýr Pálsdóttir og Teitur Árnason, eftir sigurinn á HM í Berlín í sumar. Teitur varð heimsmeistari á Dynfara frá Steinnesi í gæðingaskeiði og Eyrún Ýr varð heimsmeistari á nöfnu sinni frá Hásæti í flokki sex vetra hryssna.
Parið og heimsmeistararnir, Eyrún Ýr Pálsdóttir og Teitur Árnason, eftir sigurinn á HM í Berlín í sumar. Teitur varð heimsmeistari á Dynfara frá Steinnesi í gæðingaskeiði og Eyrún Ýr varð heimsmeistari á nöfnu sinni frá Hásæti í flokki sex vetra hryssna.
Mynd / Gísli Guðjónsson
Fréttir 31. október 2019

Heimsmeistarapar gerir það gott í hestamennskunni

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Í Baugstjörninni á Selfossi býr hestaparið Eyrún Ýr Pálsdóttir og Teitur Árnason, ásamt syni sínum, Stormi Inga, sem er rúm­lega eins og hálfs árs. Hestar eiga allan hug fjölskyldunnar enda er tamning og keppni atvinna þeirra Eyrúnar og Teits.

Þau eru með frábæra vinnu­aðstöðu á Ingólfshvoli í Ölfusi og á Hvoli í sömu sveit. Sá árangur sem stendur upp úr hjá parinu eru heimsmeistaratitlar, sem þau unnu á HM í Berlín í sumar. Þau svöruðu nokkrum spurningum blaðsins en byrjum á að vita  áður en lengra er haldið hver þau eru?

Eyrún á Hrannari frá Flugumýri 2 en þau unnu A-flokk gæðinga á Landsmóti hestamanna 2016. Þau hafa einnig verið Íslandsmeistarar og Reykjavíkurmeistarar í fimmgang meistara. Mynd / Bjarney Anna Þórsdóttir

Eyrún Ýr er Skagfirðingur

Eyrún Ýr Pálsdóttir er fædd og uppalin á Flugumýri í Skaga­firði. Foreldrar hennar eru Páll Bjarki Pálsson og Eyrún Anna Sigurðardóttir. Systkini Eyrúnar eru þau Ásta Björk, Sigurður Rúnar, Þórdís Inga og Júlía, öll hafa þau áhuga á hestamennsku og má segja að þau séu í raun fædd á hestbaki. Eyrún er útskrifuð frá Háskólanum á Hólum.

Teitur sigraði A-flokk gæðinga á Landsmóti hestamanna 2019 á Hafsteini frá Vakurstöðum. Sama ár sigruðu þeir einnig Reykjavíkurmeistaramót og Íslandsmót í fimmgangi. Mynd / Bjarney Anna Þórsdóttir

Teitur er Reykvíkingur

Teitur Árnason er fæddur og uppalinn í Reykjavík en byrjaði í sinni hestamennsku þegar hann flutti í Árbæinn, sem er við hestamannafélagið Fák. Þar byrjaði hann að sækja reiðskóla ásamt vini sínum og systur. Eftir það var ekki aftur snúið og stór hluti fjölskyldunnar er kominn á fullt í hestamennskuna. Teitur lauk framhaldsskólanámi og er einnig útskrifaður frá Háskólanum á Hólum.

Hafa þekkst lengi

Eyrún og Árni hafa þekkst í mörg ár og alltaf vitað af hvort öðru í hestamennskunni en það small eitthvað saman á milli þeirra 2016 þegar þau ákváðu að byrja saman. Stormur Ingi, sonur þeirra, fæddist í febrúar 2018, kraftmikill og skemmtilegur strákur. Bæði þakka þau foreldrum sínum þann mikla áhuga sem þau hafa alltaf haft á hestamennsku.

„Ég er náttúrlega fædd á hrossa­ræktarbúi og í sveit þar sem nánast öll dýr voru og hef því umgengist dýr frá unga aldri. Þetta gerist svo auðvitað ekki nema það sé einhver á bak við krakkana sem styður við þau og vorum við bæði sennilega mjög heppin með það sem krakkar að foreldrar okkar nenntu að sinna þessum áhuga okkar á hestum,“ segir Eyrún.

Framúrskarandi aðstaða

Eyrún og Árni vinna alla daga við að þjálfa hross og hugsa um þau.
„Það er að ýmsu að huga þegar kemur að þjálfun hestsins og reynum við að standa eins vel og við getum að því. Það þarf að fóðra þá tvisvar til þrisvar á dag. Þeir þurfa að fá að fara út, það þarf að hirða þá og svo er einnig þjálfun sirka 5 sinnum í viku, þannig það er á ýmsu að taka,“ segir Teitur. Bæði eru þau í reiðkennslu en þá kemur fólk til þeirra til að læra eða að þau fara til fólksins. „Við erum með aðstöðu á Hvoli og Ingólfshvoli í Ölfusi, báðir staðir eru með framúrskarandi aðstöðu fyrir hross sem skiptir gríðarlegu máli við þjálfun á hestum,“ segir Eyrún.

Eiga sjálf 15 hross

Eyrún og Teitur eiga sjálf 15 hross en það hefur aukist töluvert hjá þeim síðustu ár eftir að þau byrjuðu að rækta sína eigin hesta. „Já, við erum alltaf að fá nokkur folöld á ári undan mjög góðum hryssum og notum stóðhesta sem hrífa okkur. Nú í ár fór til dæmis stóðhestur úr okkar ræktun í fyrstu verðlaun. Sá heitir Fjölnir frá Flugumýri og hlaut meðal annars 9 fyrir tölt, brokk og fegurð í reið. Við stefnum á að rækta fremur gæði en magn,“ segir Teitur og brosir út í annað.

Bæði atvinnumenn

Parið vinnur eingöngu við hesta­mennsku og eru því atvinnumenn í faginu. Þau segja frábært að geta unnið við áhugamálið sitt, ekki síst að geta verið úti í hesthúsi allan daginn með hrossunum í stað þess kannski að sitja á skrifstofustól allan daginn að horfa á tölvuskjá.

„Það  má líka nefna það að hún er oft óljós línan á milli vinnu og áhugamálsins þannig að maður verður að vera fórnfús á tímann þegar kemur að atvinnumennsku í hestamennsku. Teitur fer alltaf snemma út úr húsi og kemur vanalega aðeins of seint heim. Eftir að við eignuðumst Storm höfum við þó reynt að hafa þetta meira undir stjórn þó vissulega komi álagstími eins og í öllu,“ segir Eyrún.

Heimsmeistarar í Berlín

Teitur og Eyrún náðu frábærum árangri á HM í Berlín í sumar þar sem þau urðu bæði heimsmeistarar.
„HM í Berlín var auðvitað svolítið sérstakt hjá okkur. Teitur var valinn í liðið á hesti sem hann hafði ekki keppt á áður, Dynfara frá Steinnesi, sá hestur er staðsettur í Þýskalandi og var frábærlega þjálfaður hjá vinafólki okkar, Begga og Vicky í Lótushof. Hryssan Eyrún Ýr var svo efst í sínum flokki en hún er í eigu Dana. Því lá beinast við að hún færi á heimsmeistaramótið en við þurftum að breyta um knapa þar sem Teitur sýndi hana þar því hann mátti vera á erlendum og íslenskum hesti vegna einangrunar hjá íslensku hestunum. Það lá því beinast við að ég myndi sýna nöfnu mína og gekk það líka svona vel að við urðum efstar í okkar flokki með 8,58 og lönduðu nokkrum 9 og einni 9,5,“ segir Eyrún. Aðalgrein Teits var gæðingaskeiðið þar sem hann fékk 8,25 í fyrri spretti en bætti svo heldur betur í seinni sprett og hlaut 9,08 fyrir hann. 8,66 var því lokaeinkunnin og fyrsta sætið hans. Þess ber einnig að geta að þetta er í annað sinn sem Teitur verður heimsmeistari í gæðingaskeiði. Teitur keppti einnig í 100 metra skeiði og 250 metra skeiði og fór á tímanum 22,65 sek. og 7,67 sek. í 100 metra skeiði. Það má því segja að HM hafi gengið vonum framar hjá Eyrúnu og Teiti, þau voru allavega mjög heppin í Berlín.

Draumahesturinn

Þegar Eyrún og Teitur eru spurð út í draumahestinn þeirra stóð ekki á svarinu, þau svöruðu alveg eins.
„Hann er hreingengur, öflugur, með gott jafnvægi milli bæði burðar og rýmis. Fótahár og velgerðan háls. Hreyfingarmikill og með frábært geðslag,“ segja þau og hlæja saman.

Það vantar nýliðun

„Hestamennskunni hefur farið mikið fram síðastliðin ár, fagmennska hjá atvinnufólki hefur aukist gríðarlega og er alltaf að verða meiri og meiri sérhæfing. Við erum auðvitað svolítið mikið smituð af okkar umhverfi, sem er keppnis- og kynbótaþjálfun, og okkar sérhæfing liggur svolítið mikið þar,“ segir Eyrún aðspurð hvernig henni lítist á hestamennskuna á Íslandi í dag. Teitur segir að keppnishestamennska sé alltaf að verða vinsælli og voru til að mynda mótin í ár þau stærstu hingað til með mörg hundruð keppendum.
„Það sem hins vegar mætti leggja meira púður í er að auka nýliðun í hestamennsku, það er dýrt að halda hest á húsi og teljum við að kostnaðarliðurinn sé fráhrindandi. Almenna hestamennskan að leggja á góðan hest í fallegu umhverfi með góðum vinum er æðislegt og eitthvað sem allir ættu að prófa,“ segir Teitur.

Ímynd hestamennskunnar er góð

Þegar kemur að umræðunni um ímynd hestamennskunnar á Íslandi eru Teitur og Eyrún sammála um að hún sé klárlega að breytast frá því sem áður var.

„Knapar og þjálfarar taka starf sitt mjög alvarlega og sinna því flestir af alúð. Til að komast langt þarftu að vera vel undirbúinn og það tekur tíma og gerist ekki á einni nóttu með einhverju töfrabragði. Allir sem þekkja aðeins til hestamennsku nú til dags vita að vel er staðið að öllum hlutum hjá þeim. Markaðssetning íslenska hestsins er alltaf í þróun, nú er þegar byrjað að rækta íslenska hestinn í miklu magni í Þýskalandi, Danmörku og Svíþjóð svo eitthvað sé nefnt og erum við því komin í þó nokkra samkeppni við þau  lönd þegar kemur að sölu á íslenskum hestum erlendis. Ég held við ættum að ná að markaðssetja betur trausta, geðprúða dúnmjúka ganghestinn sem veitir knapa sínum ánægju alla daga, ég tel að við getum gert betur þar,“ segir Teitur.

Byrja á að fara á reiðnámskeið

Það eru margir sem hafa áhuga á hestamennsku og langar að prófa en þora ekki, halda að þeir verði sér til skammar. Hvað segja Eyrún og Teitur um það, hvernig á óvant fólk að byrja í hestamennsku?
„Byrja á að sækja sér reið­nám­skeið, fá grunnatriðin á hreint og einnig þessa grunntilfinningu fyrir hreyfingum og viðbrögðum hestsins. Þegar áhuginn hefur kviknað þá leiðir eitt af öðru og áður en viðkomandi veit er hann kominn á fullt í útreiðarnar, þetta er ekki flókið,“ segir Eyrún og hlær.

Ekki búin að toppa enn

Að endingu er parið spurt út í framtíð þeirra í hestamennsku, hvernig þau sjá hana. Eyrún verður fyrir svörum.

„Við erum alltaf að læra og erum stöðugt í endurmati og reyna að bæta okkur. Við munum halda áfram að þjálfa hross því það er það sem okkur finnst gaman að gera. Við erum klárlega ekki búin að ná toppnum og erum ekki fullnuma. Þannig að við teljum að á næstu 10–15 árum munum við ná aukinni reynslu og þekkingu í faginu, sem muni nýtast okkur og við hlökkum bara til komandi ára.

9 myndir:

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...