Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Úr vinnslusalnum hjá Ístex.
Úr vinnslusalnum hjá Ístex.
Mynd / HKr.
Fréttir 1. október 2020

Helmingur bænda hefur mikinn áhuga á ull en 18% lítinn

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur gefið út skýrslu um rannsókn sem unnin var fyrir Textílmiðstöð Íslands um viðhorf sauðfjárbænda til ullarræktunar og hvernig sé hægt að auka verðmæti ullarinnar. Þar kemur m.a. fram að rúmlega helmingur svarenda hafði mjög eða frekar mikinn áhuga á ullarræktun samanborið við 18% sem höfðu mjög eða frekar lítinn áhuga.

Skýrsluhöfundar eru Guðbjört Guðjónsdóttir, Guðný Bergþóra Tryggvadóttir og Inga Rún Sæmundsdóttir. Í rannsókn þeirra kemur fram að veruleg óánægja er meðal sauðfjárbænda um skilaverð á ull en 71% telja frekar eða mjög illa borgað fyrir ull. Langflestir svarenda skiluðu ull af búinu til Ístex og flokkuðu ullina samkvæmt flokkunarkerfi Ístex.

Um 11% fannst mjög eða frekar vel borgað fyrir kíló af fyrsta flokks hvítri ull hjá Ístex. Um 69% svarenda fannst ásættanlegt verð fyrir kíló af fyrsta flokks hvítri ull liggja á bilinu 500 til 1.100 kr. Einungis 1% töldu að mjög vel væri borgað fyrir ullina.

Ullarverð og stuðningsgreiðslur

Vert er að hafa í huga að skilaverð frá vinnslustöðvum fyrir ull til bænda er eitt, en auk þess fá bændur stuðning samkvæmt búvörusamningum fyrir ullarframleiðsluna. Þó flestum bændum finnist verð sem Ístex greiðir kannski lágt, þá er það samt verulega mikið hærra en þekkist á heimsmarkaði nú um stundir. Fyrir framleiðslu ársins 2019 námu greiðslurnar frá Ístex að meðaltali fyrir haustull 285 krónur og 30 aura, en hún er flokkuð í 10 gæða og litaflokka sem misjafnt verð er greitt fyrir. Hæst var þá greitt fyrir flokk sem heitir H-Lamb, eða 515 krónur á kíló, en fyrir 1. flokk (H-1) voru greiddar 415 krónur fyrir kílóið. Þar við bættust stuðningsgreiðslur ríkisins við ullarframleiðslu í sauðfjárrækt samkvæmt búvörusamningi en þær námu að meðaltali 944,8 krónum á kíló. Þar eru stuðningsgreiðslur líka mismunandi eftir flokkum. Samtals var því verið að greiða að meðaltali fyrir haustullina 1.230,1 krónu á kg og 1.398 krónur fyrir verðmætasta flokkinn.

Fyrir vetrarullina er greitt talsvert minna og stuðningurinn þar er sömuleiðis lægri. Þar er ullin í sex flokkum. Meðalverð hjá Ístex fyrir vetrarull frá bændum 2019–2020 var 79,3 kr. á kíló. Stuðningur ríkisins til bænda vegna vetrarullar nam 372,7 krónum að meðaltali á kíló. Samtals gerir það að meðaltali 452 krónur á kíló.

Ístex hefur gefið út verðskrá fyrir ull sem bændur framleiða 2020 og í vetur, en þar er um talsverðar verðlækkanir að ræða í sumum flokkum (Sjá nánar á bls. 47). Ekki liggur fyrir hver endanlegur stuðningur ríkisins verður við ullarframleiðslu bænda núna, en fyrirfram var ráðgert að hann yrði hærri en í fyrra

Kraftur er starfsemi Textílmiðstöðvar Íslands á Blönduósi

Mikill kraftur er í starfsemi Textíl-miðstöðvar Íslands á Blönduósi um þessar mundir en þar er Elsa Arnardóttir forstöðumaður. Hún segir að verið sé að efla rannsóknarvinnu m.a. með þátttöku í stóru Evrópuverkefni sem skilar sér í styrk upp á um 120 milljónir króna á næstu þrem og hálfu ári. Þeir fjármunir nýtast í uppbyggingu á staðnum. Þá fékkst líka 17 milljóna króna styrkur frá Innviðasjóði til að styrkja rannsóknir.

„Með þessu erum við að færast inn í nútímann og getum fest kaup á stafrænum vélbúnaði. Styrkir hafa fengist sem nýttir verða til að nútímavæða tækjabúnaðinn á staðnum. Í þessu felast mjög miklir möguleikar. Þá getum við boðið áhugasömum bændum að skoða möguleika á að koma hingað og vinna með ullina,“ segir Elsa.

Um fimmtungur hefur mikinn áhuga á heimavinnslu ullar

Í könnun Félagsvísindastofnunar kemur fram að 22% svarenda höfðu mjög eða frekar mikinn áhuga á heimavinnslu á ull, en 87% sögðu enga heimavinnslu á íslenskri ull vera stundaða á bænum. Þeir sem svöruðu í könnuninni voru á aldrinum 18 til 75 ára og eldri. Meirihluti svarenda, eða 52%, voru á aldursbilinu 46 til 65 ára. 

Þau sem stunduðu heimavinnslu á ull voru spurð hvort ullin sem notuð væri í heimavinnslu kæmi af búinu eða væri keypt. Rúmlega helmingur sagði alla ull koma frá búinu.

Um helmingur þeirra sem sögðu að heimavinnsla væri stunduð á bænum sögðust sinna henni sjálfir og svipað hlutfall nefndi eiginkonu/sambýliskonu.

Þar sem heimavinnsla var stunduð var algengast að prjónaskapur eða hekl væri selt frá bænum (16 svarendur) eða þæfð ull (7 svarendur). Um 42% svarenda höfðu mjög eða frekar mikinn áhuga á að láta spinna sérstakt band úr ullinni sem væri hægt að rekja til búsins.

34% höfðu mikinn eða frekar mikinn áhuga á vefverslun

Þegar spurt var hversu mikinn eða lítinn áhuga svarendur hefðu á því að taka þátt í að þróa sameiginlega vefverslun fyrir íslenska ull og ullarvörur í samstarfi við Textílmiðstöðina, kom í ljós að 34% höfðu mikinn eða frekar mikinn áhuga á slíku.

Þá var spurt hvað væri sanngjörn álagning á vörur þeirra í vefverslun og 87% svarenda taldi sanngjarna álagningu vera á bilinu lægri en 30% til 60%, en um 13% töldu sanngjarna álagningu vera hærri en 60%.

90% telja umhverfisvæna ullarframleiðslu mikilvæga

Spurt var um viðhorf til náttúruvænnar ullarframleiðslu. Miklum meirihluta, eða 90%, fannst mjög eða frekar mikilvægt að ullarframleiðsla á Íslandi væri umhverfisvæn. Þegar spurt var hvað ætti að einkenna umhverfisvæna íslenska ullarframleiðslu merktu 79% við að bandið/ullin væri 100% íslensk og 74% að ullarvinnsla færi öll fram á Íslandi. Um 30% höfðu mjög eða frekar miklar áhyggjur af umhverfisáhrifum af textílframleiðslu í heiminum og svipað hlutfall, eða 34%, höfðu mjög eða frekar litlar áhyggjur.

Meirihluti sauðfjárbænda vill fræðast meira um ullina

Þegar sauðfjárbændur voru spurðir hvort þeir hefðu áhuga á að auka þekkingu sína á ákveðnum sviðum sem viðkoma ull og ullarræktun, kom fram nokkur dreifing á svörum þeirra. Algengast var þó að fólk hefði áhuga á að læra meira um meðferð ullar við og eftir rúning (56%) og ræktun fjár með ullargæði í huga (53%).

Vanda þarf betur til verka, auka vöruþróun og breyta viðskiptaháttum

Í lokin voru bændur spurðir í opinni spurningu hvar þeir teldu helstu möguleika sauðfjárbænda liggja í að auka verðmæti ullarinnar og komu nokkur meginþemu fram.

Fram kom að margir töldu helstu möguleika liggja í að vanda betur til verka við ullarvinnslu heima fyrir, þar á meðal við rúning og fjárræktun, aðrir töldu möguleikana liggja í aukinni markaðssetningu og vöruþróun á ull og ullarvörum og enn aðrir í breyttum viðskiptaháttum með ull.

Guðmundur Hallgrímsson að sýna réttu handtökin við að rýja kind.

Skylt efni: ull

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...

Snjallsímar bannaðir í grunnskóla
Fréttir 15. nóvember 2024

Snjallsímar bannaðir í grunnskóla

Frá því í haust hefur nemendum Kirkjubæjarskóla verið óheimilt að vera með snjal...

Stórtæk ræktun á Hrym í Búðardal
Fréttir 15. nóvember 2024

Stórtæk ræktun á Hrym í Búðardal

Ræktunarstöð fyrir lerkitegundina Hrym hefur verið stofnsett í Búðardal þar sem ...

Er stærstu eyðimörk Evrópu að finna á Íslandi?
20. nóvember 2024

Er stærstu eyðimörk Evrópu að finna á Íslandi?

Fornar ástir og fengitíð
20. nóvember 2024

Fornar ástir og fengitíð

Smyrill
20. nóvember 2024

Smyrill

Peysan Björk
20. nóvember 2024

Peysan Björk

Brynjar Freyr
20. nóvember 2024

Brynjar Freyr