Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Hefðarkonur og fákar þeirra við Stóru-Laxá. Frá vinstri; Anna Björg Níelsdóttir, Vigdís Þorvaldsdóttir, Jenný Erlingsdóttir, Sigríður Sigfúsdóttir, Dagbjört Guðmundsdóttir, Sigríður Hrönn Gunnarsdóttir, Guðbjörg Rósa Björnsdóttir, Ásta B. Gunnlaugsdóttir, Elsa Ingjaldsdóttir, Margrét Stefánsdóttir, Erna Ingvarsdóttir og Elín Bjarnveig Sveinsdóttir. Á myndina vantar Hörpu Dís Harðardóttur, Margréti K. Erlingsdóttur, Jóhönnu Kristínu Guðmundsdóttur, Sjöfn Sveinsdóttur og Hrönn Guðmundsdóttur.
Hefðarkonur og fákar þeirra við Stóru-Laxá. Frá vinstri; Anna Björg Níelsdóttir, Vigdís Þorvaldsdóttir, Jenný Erlingsdóttir, Sigríður Sigfúsdóttir, Dagbjört Guðmundsdóttir, Sigríður Hrönn Gunnarsdóttir, Guðbjörg Rósa Björnsdóttir, Ásta B. Gunnlaugsdóttir, Elsa Ingjaldsdóttir, Margrét Stefánsdóttir, Erna Ingvarsdóttir og Elín Bjarnveig Sveinsdóttir. Á myndina vantar Hörpu Dís Harðardóttur, Margréti K. Erlingsdóttur, Jóhönnu Kristínu Guðmundsdóttur, Sjöfn Sveinsdóttur og Hrönn Guðmundsdóttur.
Mynd / ghp
Fréttir 19. júlí 2022

Hesturinn er sameiningartákn

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Sautján konur hafa í fjórtán ár lagt upp í hestaferð kringum Jónsmessu. Þær setja tvö skilyrði; að gisting og matur sé eins og best verður á kosið, enda er fylkingin samansafn sannkallaðra hefðarkvenna.

Oft verða góðar hugmyndir til í gleðskap. Svo er annað mál hvort hugmyndirnar verða að veruleika. Í tilfelli „Hefðarkvenna“, eins og þær kjósa að kalla sig, létu nokkrar konur gjörð fylgja orðum. Þær hóuðu saman nokkrum kunningjakonum, sem þær vissu til að hefðu stigið á bak hesti, og héldu í hestaferð.

„Í upphafi tengdumst við margar hverjar lítið sem ekkert, nema í gegnum þennan hóp. Við erum ólíkar konur, komum úr ólíkum áttum, erum á ólíkum aldri, að fást við ólíka hluti dagsdaglega,“ segir Erna Ingvarsdóttir, en tuttugu ár eru á milli elstu og yngstu hefðarkonunnar.

Þrjár þeirra eru valdar ár hvert til að undirbúa ferðina, sem alltaf er haldinn á sama tíma árs; í þrjá daga kringum Jónsmessu. Undirbúningsnefndin finnur til gistingu við hæfi kringum skemmtilegar reiðleiðir. Þær Elsa Ingjaldsdóttir, Erna Ingvarsdóttir og Elín Bjarnveig Sveinsdóttir mönnuðu undirbúningsnefndina í ár.

Hrossin, landið og við

Sumar hefðarkvennanna eru alvanir knapar með hesta á húsi ár hvert,meðan aðrar stíga á bak einstaka sinnum. Skiptir það þó engu máli enda er erfiðleikastig ferðaleiðar ekki markmiðið.

„Þetta snýst um að vera úti í náttúrunni og takast á við verkefnið saman. Við leggjum upp með að vera á góðum reiðgötum svo við njótum þess bara að vera á töltinu og upplifum að vera á hestunum. Þegar maður er í þrjá daga í röð með hestunum sínum verður sú þrenning að einu. Það er mjög sterk upplifun,“ segir Erna og Elsa tekur undir á háfleygum nótum: „Við verðum eitt; hrossin, landið og við.“

Að öllu gamni slepptu segir Elsa hestaferðir tilvalda leið til að slíta sig frá veruleikanum um stund. Hestaferðir séu núvitund í sinni tærustu mynd.

„Mér þykir yndislegast þegar við erum búnar að ríða okkur svolítið saman og erum farnar að þegja og njóta. Þá erum við í núinu. Við hættum að hafa áhyggjur af vandamálum heima, óborguðum reikningum eða daglegu amstri. Við erum bara hér og nú og hugsum ekki um neitt nema áskorun ferðarinnar, sem getur verið veðrið, reiðleiðin eða bara nýr hestur. Verkefnin verða öll svo yfirstíganleg. Eftir daginn erum við samt alltaf búnar að leysa verkefnin saman,“ segir Elsa.

„Hesturinn er svo miklu meira en skepna og sameinar miklu meira en sig og knapann sem á honum situr. Hann býr til þráð milli sín og mannsins, en spinnur líka þræði milli fólks í kringum sig. Í okkar tilfelli hefur hesturinn skapað þessa dýrmætu vináttu,“ segir Elsa Ingjaldsdóttir en þær Erna Ingvarsdóttir sem hér togast á tóku að sér að vera viðmælendur Bændablaðsins.

Eiginmennirnir öfundast

Í ferðunum gera konurnar vel við sig eins og sönnum drottningum sæmir. „Við leggjum upp með að ferðunum fylgi ákveðinn munaður; uppábúin rúm og góður matur. Við höfum verið heppnar öll fjórtán árin, enda leynast litlar perlur víða um land fyrir hópa í okkar stærð,“ bendir Elsa á. Í ár var heimahöfnin gistihúsið Álftröð á Skeiðum, sem þær leigðu í heilu lagi. Því fylgdi góð aðstaða fyrir bæði menn og hross.

Riðið var frá Álftröð fallega leið upp að Flúðum þar sem konurnar böðuðu sig í Gömlu lauginni.

Þriðja daginn var svo komið við í kaffi hjá Elsu í Syðra-Langholti áður en hópurinn óð Stóru-Laxá áleiðis að Álftröð.

„Eiginmennirnir öfunda okkur af þessum félagsskap og eftir fjórtán ár þá þekkjum við ekki bara ferðafélagana heldur fjölskyldur þeirra líka. Ferðirnar hafa því bundið saman mjög dýrmæta vináttu og sterk tengsl,“ segir Elsa.

Erna nefnir enn fremur að hrossin séu farin að þekkjast innbyrðis. „Sumir hestarnir hafa fylgt okkur í flestar ferðir og farin að mynda tengsl sín á milli. Sem gerir það að verkum að hópurinn er mjög rólegur. Svo er líka merkilegt að við erum eins og beljur á bás á baki.

Við virðumst alltaf fara í ákveðna röð í reiðtúrunum.“

Hefðarkonur vaða Stóru-Laxá. Ákveðin röð virðist alltaf mótast í reiðtúrunum gegnum árin. Elsa (hér fremst) er oftast framarlega, þar sem hún þekkir gjarnan reiðleiðirnar.

Hesturinn spinnur þræði

Þessi árlegi viðburður vinkvennanna sautján er þeim öllum kær og ómissandi partur af lífinu. Ein býr erlendis en flýgur ávallt heim til að taka þátt. Ef heilsufar kemur í veg fyrir að einhver kemst á bak tekur hún þó þátt í máltíðum og gistingu.

„Hesturinn er svo miklu meira en skepna og sameinar miklu meira en sig og knapann sem á honum situr. Hann er sameiningartákn.
Hann býr til þráð milli sín og mannsins, en spinnur líka þræði milli fólks í kringum sig. Í okkar tilfelli hefur hesturinn skapað þessa dýrmætu vináttu,“ segir Elsa „hefðarkona“ Ingjaldsdóttir.

Skylt efni: hestaferð

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...