Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Hinn hátignarlegi askur
Fréttir 12. febrúar 2016

Hinn hátignarlegi askur

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Ættkvísl eskitrjáa, Fraxinus, hefur um það bil sjötíu tegundum á að skipa sem útbreiðslu hafa víðs vegar um norðurhvel jarðar. Þar af vaxa fjórar í Evrópu, mannaaskurinn, Fraxinus ornus L., og mjóaskurinn, Fraxinus angustifolia Vahl, báðir um suðurhluta álfunnar. Lóaskur, Fraxinus pallasiae Wilm., vex á þröngu svæði í löndunum sem liggja að Svartahafi.

Askurinn sem kastljósinu verður beint að hér er okkar eiginlegi askur, Fraxinus excelsior L., sem útbreiðslu hefur svo til um alla Evrópu frá Kákasus og Pýreneaskaga í suðri og til suðurbyggða Finnlands og Norður-Þrændalaga í norðri. Hann er askurinn sem mest snertir vesturevrópska menningarsögu.

Tignarlegt viðurnefni

Vísindaheiti asksins, Fraxinus excelsior, festi Karl von Linné á bók árið 1753. Heitið útleggst bókstaflega „hinn hátignarlegasti askur“. Hvort sem það hefur nú verið fyrir það að askurinn verður næsta snoturt og hávaxið tré þar sem hann þrífst vel, ellegar að Linné var með sögnina um Ask Yggdrasils bak við eyrað að hann valdi honum þetta tignarlega viðurnefni. Einhverjir hafa stungið upp á að kalla hann evrópuask á íslensku, en það er algjör óþarfi og slítur tengslin við menningarsöguna. Látum duga að kalla askinn áfram ask í daglegu tali, þótt auðvitað megi skjóta evrópuforliðnum framan við þegar um er að ræða samanburðarupptalningu mismunandi tegunda frá ýmsum heimshlutum.

Ættkvíslarheitið má rekja aftur til frumgerðar evrópumálanna, þótt það hafi tekið allmiklum breytingum þá er gríska heitið sem síðar var notað sem undirstaða ættkvíslarheitisins, fraxinos, af sömu rót runnið og íslenska heitið askur. Í nágrannamálunum er það í ýmsum myndum. Enska heitið „ash“ kemur frá hinu engilsaxneska „æsc“ og Æ-rúnin í gamla saxnesk-frísnesku fúþark-röðinni heitir „askur“ og er A-rúnin með einu skásettu striki undir lengra skástriki og mun hafa táknað hljóð sem var einskonar málamiðlun fyrir a og e. Kannski næst hinu þýska og sænska ä. Á norðurlandamálunum, nema finnsku, er asksheitið sameiginlegt. Á finnsku er það „saarni“. Á þýsku Eschen.  Timbrið og fleirtöluheiti tegundarinnar er eski. Við tölum um „eskivið“, „eskilund“ og „eskikjarr“ en hvert einstakt tré er „askur“. Þetta er sama regla og gildir fyrir flestar norrænar trjátegundir, sbr. birkiviður, birkiskógur eða birkikjarr og svo björk um einstaklinginn.

Státleg tré í sérbýli

Askurinn getur orðið þrjátíu til fjörutíu metra hátt tré þar sem hann þrífst best og ef hann fær að vera í friði. Vegna þess hve útbreiðslusvæðið er víðfeðmt hafa komið fram stofnar sem hafa aðlagast margskonar vaxtarsvæðum. Í eðli sínu er askurinn ylelskt meginlandstré sem best þrífst á kalkríkum grunni, þ.e. við hátt pH-gildi. Um miðbik vaxtarsvæðisins greinist hann í tvo meginstofna. Annar þeirra heldur sig hátt í landinu og dafnar best utan í hólum og fjallahlíðum. Hinn meginstofninn heldur sig í dalbotnunum, meðfram fljótum sem iðulega flæða yfir bakka sína og geta valdið nokkuð langvinnum uppistöðum vatns. Í sjálfu sér er ekki greinanlegur munur milli þessara meginstofna. Þeir blandast frítt innbyrðis, en eitthvað gerir að verkum að sumir afkomendanna velja frekar rakann og flæðihættuna en aðrir kjósa heldur að hafast við á þurru allan tímann. Þar sem askurinn vex nyrst á útbreiðslusvæðinu kýs hann frjóan og jafnrakan jarðveg og heldur sig helst þar sem hann fær yl og skjól.

Frá fornu fari hefur askur gjarna verið ræktaður og gróðursettur norðan við sín eiginlegu mörk og virðist þrífast þar vel þótt hann komist þar ekki á legg af sjálfsdáðum.

Askurinn býr við sérbýli, það er að segja að trén eru sérkynja, karlblóm og kvenblóm eru á mismunandi einstaklingum. Kventrén eru bosmameiri en karltrén. Blómgun hefst nokkru fyrir laufgun og blómin frjóvgast með vindi. Blómin eru í klösum líkt og á sýrenum, sem eru af sömu ætt, Olíuviðarætt, en þau eru án krónublaða og ekki mikið sjónarspil af þeim svosem. En ef kvenblómin ná að þroska fræ, þá eru fræklasarnir sérstæðir og áberandi. Fræin eru mörg saman, hvert um sig í vængjaðri hnot sem svífur til jarðar í nokkuð langan tíma eftir fræþroskann að hausti og fram eftir vetri. Til að þetta gerist þarf að tryggja að karl- og kvenplöntur séu í góðu færi til samskipta. 

Sein laufgun, snemmbært lauffall

Af öllum lauftrjám á meginlandi Evrópu hefur askurinn það orð á sér að springa út síðastur trjáa að vori. Venjulega fer ekki að bæra á laufum fyrr en aðrar tegundir eru að mestu komnar í fullt skrúð. Laufin eru gljáandi fagurgræn, fjaðurflipótt og minna helst á lauf reyniviðar. Þau spretta út frá gagnstæðum brumum, eins og einkennandi er fyrir tegundir af Olíuviðarætt.

Vaxtarhraðinn er ávallt í takti við hitaframboðið og daglengdina og askurinn lætur dynti veðurfarsins lítil áhrif hafa á sig. Í svölum sumrum vex hann hægt en gefur svolítið í þegar hlýnar í veðri. Hér á landi eru það snöggar og óvæntar frostnætur sem geta slegið hann út af laginu og komið í veg fyrir að hann geti lokið eðlilegum sumarvexti. Þá kelur yngstu brumin svo að afturkippur kemur í uppvöxtinn. En ef allt er eðlilegt setur askurinn allt í botn  til að ljúka sumarvextinum um leið hann verður var fyrstu frostnátta við jörð. Hann notar þá einn til tvo daga til að ganga frá brumum og gera þau vetrarklár. Og á þriðju frostnótt sviptir hann af sér öllum laufunum, oft án þess að skipta lit frá grænu yfir í gult.

Aðlögunarhæfni asksins er viðbrugðið. Á suðlægustu svæðum hans nýtur hann að meðaltali 270 frostlausra vaxtardaga. En þegar nyrst er komið gerir hann sér að góðu að fá ekki nema 90 slíka daga. Því hafa nokkur eskitré þrifist bærilega í íslenskum görðum. Mér er sagt að askur sem ættaður er frá Leksvík í Norður-Þrændalögum þroski fræ í Múlakoti reglulega. Ég hef þetta óstaðfest, en reynist það rétt, er ómaksins vert að vinna betur með þann efnivið til að fá fram stofn sem aðlagast gæti betur íslenskum aðstæðum. Því vissulega er askurinn tígulegt tré fyrir stærri garða og skógarlundi. Og ef vel til tekst gæti askurinn vaxið hér sem verðmætt viðartré í skógrækt og arðbær fjárfesting fyrir komandi kynslóðir.

Eskisprotadrep

Að fá upp íslenskan eskistofn er mjög ákjósanlegur kostur. Ekki síst vegna þess að á síðustu árum hefur komið upp sveppasýking, eskisprotadrep (Chalara fraxinea / Hymenoscyphus fraxineus), sem fer eins og eldur í sinu um eskitré og eskiskóga í nágrannalöndunum og menn óttast að muni ganga af tegundinni dauðri, finnist ekkert ráð til að sigrast á henni. Og miklu er kostað til að finna viðunandi lausn.
Eskisprotadrepið er landlægt í A-Asíu en gerir ekki mikinn usla í þeim eskitegundum sem þar vaxa. En eski í Evrópu og Norður-Ameríku er alveg óvarið fyrir því. Líklega hafa gró borist með menguðum umbúðum eða varningi. Fyrst varð sveppsins vart í Póllandi árið 1992, en síðan hefur hann borist til flestra landa við Eystrasalt og  vestur að Atlantshafi. Því er áríðandi að fara gætilega með innflutning á  eskitrjám og eskifræi frá Evrópu. Gróin berast með vindi og geta þess vegna setið á fatnaði þeirra sem fara um í námunda við eskitré og þau geta líka fylgt mold og plöntum sem flutt eru inn til landsins og smitað þannig ef þau komast hér á uppvaxandi eskitré. Allt fræ og græðlinga þarf að skola með 3% vetnisproxíði í tvær til þrjár mínútur áður en lengra er haldið.

Fjölgun og uppeldi

Eskifræ taka sér góðan tíma til að spíra. Fræ af aski er best að geyma í þvalri sphagnum-mold eða ferskum barnamosa við 12-15°C í 4-12 vikur strax eftir að þeim er safnað og síðan setja þau í kaldörvun við 4°C í fjóra til fimm mánuði. Svo er þeim sáð á líkan hátt og hlyni og fræplönturnar látnar standa óhreyfðar í sáðílátunum og hafðar í köldu gróðurhúsi fyrsta árið. Og síðan áfram eftir dreifsetningu þar til þær hafa náð a.m.k. 50 cm hæð. Þá má setja þær í reit og ala upp undir skermi þar til hægt er að planta þeim út um tveggja metra háum. Þá eru þær komnar upp úr mestu haustkalsáhættunni.

Askur þarf, eins og áður hefur komið fram, frjóan og hlýjan jarðveg. Að hann sé grýttur gerir ekkert til og skvetta af skeljasandi eða dólómítkalki í plöntunargrópina er honum gott veganesti. Og það er áríðandi að rótarhálsinn sé ekki hulinn moldu, því askur myndar sterka rótarkamba sem styðja trén vel gegn stormfalli. Ræturnar eru djúpleitnar og kröftugar. Askur verður með góðu móti þrjú- til fjögurhundruð ára gamall. Einstaka tré getur kannski bætt tveim öldum við þá ævitíð og sagnir eru til um eskitré sem náð hafa 1300 ára aldri. Aski er erfitt að fjölga með græðlingum, en sérvalin yrki  eru grædd á  stálpaðar fræplöntur.

Timbrið

Eskiviður er afar sterkur og sveigjanlegur og vegna þess að trefjarnar eru pípulaga brotnar viðurinn ekki auðveldlega við átök og högg. Eski er því eftirsótt í allskonar sköft sem reynir á. Flest sköft á garðverkfærum eru úr eski. Eins vagnhjól af gömlu gerðinni og hafnarboltakylfur. Eski er mikið notað í húsgögn og innréttingar, viðarspón og gólfparket. En eski veðrast ekki vel og er því sjaldnast notað í smíðar utanhúss. Þess vegna er mjög áríðandi að taka skóflur og önnur garðaamboð á hús þegar þau eru ekki í notkun. Og það fúnar fljótt við að liggja við jörð. Eski er auðunnið og fær fallega áferð við slípun og lökkun.

Þjóðtrú, saga og önnur gagnsemi

Allt frá upphafi menningar í okkar heimsparti hefur askur komið við sögu þeirra þjóða sem löndin byggja. Víða var hann gróðursettur sem vættatré og varðtré við mannabústaði. Seyði af berki og blöðum áttu að geta bætt marga meinsemd. Og víða tíðkaðist að kolla trén síðsumars þriðja til fjórða hvert ár og nota þurrkuð lauf og greinar til skepnufóðurs að vetrinum. Og í norrænu goðafræðinni kemur askur Yggdrasils við sögu, þótt nú vilji fræðingar frekar hallast að því, eftir miklar vangaveltur, að þar hafi alls ekki verið átt við ask í eiginlegri merkingu, heldur ývið. Meira um það síðar.

Skylt efni: Garðyrkja. Ræktun | askur

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...