HMS hlýtur viðurkenninguna Byggðagleraugun 2022
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, SSNV, hafa veitt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, viðurkenninguna Byggðagleraugun 2022 fyrir árangursríka uppbyggingu starfsstöðvar stofnunarinnar á Sauðárkróki.
Byggðagleraugun er viðurkenning sem stjórn SSNV veitir til ráðuneytis eða stofnunar sem þykir hafa skarað fram úr í fjölgun starfa/verkefna í landshlutanum eða með öðrum hætti stuðlað að uppbyggingu hans.
Starfsstöðin hefur mikla þýðingu fyrir samfélögin á Norðurlandi vestra og þykir fyrirmyndardæmi um árangursríkan flutning verkefna á landsbyggðina. Starfsstöðin hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin misseri og fer starfsmönnum fjölgandi með fjölgun verkefna. Vinnustaður eins og HMS hefur mikla þýðingu fyrir samfélagið, segir á vef samtakanna.
„Stjórn HMS hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á að ekki bara viðhalda starfsemi á Norðvesturlandi heldur að efla hana og styrkja. Frá því HMS var stofnað hefur stöðugildum á Sauðárkróki fjölgað um meira en þriðjung og í dag eru tæplega 30 starfsmenn sem tilheyra starfsstöðinni.
Það felast mikil tækifæri í að reka opinbera þjónustu á landsbyggðinni, starfsumhverfið er frábært og lífsgæði starfsmanna eins og best verður á kosið,“ segir Hermann Jónasson, forstjóri HMS.
Ingibjörg Huld Þórðardóttir segir á vef samtakanna að eitt helsta baráttumál íbúa á Norðurlandi vestra hafi verið fjölgun starfa í landshlutanum, störf séu það sem skiptir mestu þegar kemur að því að fjölga íbúum og efla samfélögin. „Fjölgun opinberra starfa er einn liður í því. Það er afar ánægjulegt að finna skilning stjórnenda HMS á því hvaða tækifæri felast í því fyrir stofnanir að efla sínar starfsstöðvar á landsbyggðinni og það er þess vegna sem ákveðið var að veita HMS viðurkenninguna að þessu sinni,“ segir hún.