Hólar verði þjóðarleikvangur íslenska hestsins
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Byggðarráð Skagafjarðar hefur skorað á menntamálaráðherra að setja af stað vinnu við að skoða allar mögulegar útfærslur með það að markmiði að styrkja Háskólann á Hólum sem sjálfstæða menntastofnun og tryggja til framtíðar að yfirstjórn og umsjón haldist í Skagafirði.
Byggðarráð segir í bókun að Háskólinn á Hólum sé ein af grunnstoðum í skagfirsku samfélagi og verði mikilvægi hans seint að fullu metið. „Það að vera með öll skólastig innan héraðs, frá leikskóla til háskóla, gefur Skagafirði tækifæri sem mikilvægt er að nýta til framfara fyrir íbúa og atvinnulíf í Skagafirði,“ segir í bókun byggðarráðs.
Fylgja eftir jákvæðri umræðu
Þá segir að nú sé glæsilegu Landsmóti hestamanna á Hólum nýlokið og mun sú mikla og mikilvæga uppbygging sem þar hefur átt sér stað nýtast skólanum til sóknar um ókomna tíð. „Mikilvægt er fyrir okkur Skagfirðinga að fylgja eftir þeirri jákvæðu umræðu sem Hólar fengu í kjölfar Landsmóts til að sækja fram fyrir skólann enda er Háskólinn á Hólum æðsta menntastofnun íslenska hestsins í heiminum. Er það okkar að tryggja að svo verði áfram.“
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar óskar formlega eftir samstarfi við stjórnvöld og Landssamband hestamannafélaga um að Hólar í Hjaltadal verði gerðir að þjóðarleikvangi íslenska hestsins. Sú umgjörð sem þar hefur verið sköpuð er einstök á heimsvísu og öll uppbygging í fortíð, nútíð og framtíð mun nýtast Háskólanum á Hólum, styrkja stöðu hans og festa enn frekar í sessi.
Auka þarf rekstrarfé
Byggðarráð vill jafnframt ítreka að tryggja þarf sjálfbærni í gæða- og rekstrarmálum skólans. Auka þarf rekstrarfé til skólans og tryggja rekstrargrundvöll hans til framtíðar. Taka þarf af uppsafnaðan halla sem safnast hefur upp á undanförnum árum meðal annars vegna þess að fjárframlög til skólans hafa ekki verið í samræmi við rekstrarforsendur og veita þar með skólanum andrými tl framþróunar.