Hönnun og frágangur fjóss
Höfundur: Snorri Sigurðsson, ráðgjafi hjá SEGES P/S Danmörku
Þegar hugað er að hönnun og byggingu eða breytingu fjósa er að mörgu að huga og eins og við er að búast er hætt við að einhver atriði hreinlega gleymist eða komi í ljós á síðari stigum framkvæmda. Það er þó hægt að gera ýmislegt til þess að auka líkurnar á því að vel takist til strax í fyrstu atrennu.
Undanfarin ár hefur þróun í fjósbyggingum verið hröð hérlendis og með byggingu á mörgum legubásafjósum skapast þekking og reynsla á því hvernig heppilegt er að standa að uppbyggingu á aðstöðu fyrir nautgripi. Það hefur margsannast að ein langbesta leiðin til þess að ná yfirsýn fyrir hvað sé gott og hvað ekki er að fara í heimsóknir til bænda sem hafa sjálfir staðið í framkvæmdum og fá að sjá hvað hafi tekist vel og hvað hefði mátt betur fara. Það eiga þó ekki allir heimangengt og því getur verið gott að sækja þekkingu í stoðefni svo sem af veraldarvefnum.
Betri fjós
Fyrir fimm árum stóð Landbúnaðarháskóli Íslands fyrir nokkuð umfangsmikilli rannsókn á nýlega byggðum eða breyttum fjósum hér á landi en verkefnið var kallað „Betri fjós“. Markmið verkefnisins var að safna saman reynslu af nýlega byggðum og/eða breyttum fjósum með því að heimsækja bændur, taka viðtöl við þá og gera úttekt á fjósum þeirra þar sem leitast var við að draga fram bæði kosti og galla ólíkra lausna og frágangsaðferða.
Með þessu verkefni var ekki verið að safna saman nákvæmum upplýsingum um málsetningar á ólíkum lausnum heldur verið að fá álit bændanna á notkunargildi ólíkra lausna. Niðurstöður verkefnisins voru svo settar fram í skýrslu sem var hugsuð sem eins konar hugmyndabanki þar sem leitast var við að draga fram sameiginlegt álit bændanna á ólíkum lausnum.
Mest áhersla var lögð á að draga fram helstu kosti og/eða galla viðkomandi byggingar, innréttinga og frágangs og niðurstöðurnar svo teknar saman í skýrslu, sem samanstendur af grunnupplýsingum um hin útteknu fjós, en þó fyrst og síðast af myndaumfjöllun um einstaka hluta fjósanna með skýringartextum.
Þó svo að nokkuð sé um liðið frá því að þetta verkefni leit dagsins ljós og að síðan þá hafi komið fram nýjar lausnir í fjóshönnum, svo sem velferðarrými í fjósum og miðlæg staðsetning mjaltaþjóna í fjósum, þá stendur verkefnið enn nokkuð vel fyrir sínu og er líklega enn sem komið er besta handhæga íslenska gagn sem hægt er að nota við undirbúning framkvæmda.
Hér á eftir fer stutt samantekt um helstu atriði sem komið er inn á í þessari skýrslu, en hana má í heild sinni nálgast á vef Landbúnaðarháskóla Íslands: www.lbhi.is. Enn fremur má vafalítið biðja ráðunauta RML um aðstoð við að fá hana prentaða út og senda í pósti gegn eðlilegri greiðslu, án þess að greinarhöfundur hafi svo sem nokkuð fyrir sér í því.
Grunnhönnun og undirbúningur framkvæmda
Þegar fjós eru hönnuð liggur oftar en ekki að baki mikil vinna við undirbúning og hönnun. Mikill samhljómur var með bændunum varðandi undirbúning hönnunar en flestir höfðu lagt þónokkuð á sig við að skoða fjós hjá öðrum bændum og margir skoðað fjós erlendis. Þó nefndu nokkrir það sem galla að hafa ekki skoðað nógu víða. Þá höfðu sumir einnig farið á landbúnaðarsýningar til þess að fá góðar hugmyndir.
Frá því að hugmynd er komin á blað og þar til framkvæmdir hefjast leið oft mjög skammur tími. Þannig var algengt að tími frá ákvörðun um að byggja/breyta þar til að notkun kom var oft ekki nema 6–8 mánuðir.
Full ástæða er til þess að hvetja fjósbyggjendur að nota góðan tíma í þennan þátt framkvæmdarinnar enda má oft spara miklar fjárhæðir með því að leita skriflegra tilboða bæði í kaup á aðföngum og kaup á þjónustu s.s. frá iðnaðarmönnum. Í sjálfu sér er ástæðulaust að framkvæmdin sjálf taki mjög langan tíma, sé ekki þeim mun meiri vinna sem hvílir á herðum ábúenda.
Algeng vandamál
Í skýrslunni er sérstaklega komið inn á mörg af þeim atriðum sem oft fara úrskeiðis eða hafa reynst heldur illa. Nokkuð sammerkt var með mörgum af þeim fjósum sem voru heimsótt að flórar þeirra voru bæði fjölbreyttir og oft æði misheppnaðir. Erfitt reyndist að henda reiður á ágæti mismunandi lausna en helst var kvartað yfir ágæti heilla flóra með sköfum ofan á og svo fleytiflórum hjá geldneytum.
Fleytiflórar virðast virka ágætlega, eins og flestar aðrar flórgerðir, ef mykjan er ekki of þykk. Þegar ábúendurnir voru spurðir um flórakerfi fjósanna sögðust 52,7% ekki vera ánægðir með flórana í fjósum sínum ef þeir voru með sk. heila flóra og sögðust margir sjá eftir því að hafa ekki byggt haughús undir fjósinu með rimlum. Algengasta skýringin sem gefin var, var bilun á sköfukerfum í heilum flórum en flestir voru með glussasköfukerfi sem virtust samkvæmt því sem bændurnir sögðu bila alloft.
Annað algengt vandamál var bleyta í smákálfastíum en í 75% fjósanna sem rannsökuð voru, voru smákálfar haldnir í hálmstíum sem bændurnir voru alla jafna afar ánægðir með. Sammerkt var þó með svörum bændanna að oft reyndist þeim erfitt að halda stíunum vel þurrum, sér í lagi við jötugrindur og þar sem kálfunum var gefin mjólk, hvort sem það var úr fóstru eða með fötum. Í ljós kom reyndar að í mörgum tilfellum var hreinlega verið að setja of lítinn hálm undir kálfana en margar þessara stía voru ekki heldur með nein eða lítil niðurföll eða dren sem var bagalegt. Þannig átti vatn og hland ekki aðra leið í burtu en með hálminum. Einnig var það slæmt þegar þrifið var enda þá jafnan mikið vatn sem þarf að koma í burtu. Auk þessa voru ótrúlega margir bændur bjartsýnir í upphafi framkvæmda og ráðgerðu að handmoka stíurnar og þær því illa eða ekki véltækar – eftir á að hyggja ekki sérlega heppileg lausn til framtíðar litið.
Komið er inn á mörg önnur vandamál í skýrslunni sem ætti að vera hægt að forðast eftir lestur hennar.
Aðstaða þjónustuaðila
Þjónustuaðilar þurfa að geta komist allauðveldlega til þess að þjónusta nautgripina eða tækjabúnað og má þar t.d. nefna frjótækna, dýralækna, klaufskurðarfólk, viðgerðarfólk mjaltatækja, ráðunauta og þar fram eftir götunum. Allmisjafnt er hve vel aðstaðan er hönnuð fyrir þá aðila sem oft þurfa að leggja leið sína í fjós en langeinfaldast og öruggast er að fá álit þeirra, sem sjá um þjónustu við viðkomandi bú, til þess að gefa álit sitt á fyrirhuguðum framkvæmdum. Með því móti má koma í veg fyrir klaufaleg mistök eins og t.d. að gleyma mannopi inn í sæðingarstíuna hjá kvígunum sem hefur gerst eiginlega ótrúlega oft. Þá vantar oft smáatriði eins og góða handlaug fyrir dýralækninn eða þvottaaðstöðu við klaufskurðarbásinn og fleira mætti nefna. Í stuttu máli sagt: spyrja þjónustufólkið sjálft, það mun benda á lausnir sem henta!
Aðkoma að fjósi
Best er að hanna aðkomu að mjólkurhúsi þannig að hægt sé að taka hringakstur svo ekki þurfi að bakka, a.m.k. ekki mikið. Víða erlendis er þetta krafa og stefnir í það sama hér á landi. Þá þarf langtímamarkmiðið að vera að aðkoma að mjólkurhúsinu sé ekki um bæjarhlaðið.
Í skýrslunni er sérkafli um mjólkurhús og frágang þess enda skiptir það mjólkurbílstjóra að sjálfsögðu miklu máli. Að sama skapi skiptir inngangur í fjós ekki höfuðmáli fyrir fóðurbílstjóra þar sem þeir ættu hvort sem er ekki að fara inn í fjós vegna smithættu o.fl. Oft eru fóðursíló afar undarlega staðsett og hreinlega eins og alls ekki hafi verið hugsað um smithættu eða vinnusparnað þegar þeim hefur verið valinn staður.
Rétt eins og með svo margt annað, skiptir miklu máli að velta fyrir sér ferlunum sem gilda um kjarnfóður og áfyllingu þess á síló og miða þar við að besta lausnin er að bílarnir þurfi ekki að bakka. Í raun gilda nákvæmlega sömu reglur um afhendingaraðstöðu fyrir nautgripi á gripaflutningabíl. Bílstjórar á þessum bílum eiga ekki að fara inn í gripahús, enda gætu þeir verið að koma frá búi þar sem gripir eru veikir og líkur á krosssmiti meiri en með öðrum þjónustuaðilum. Hér þarf því að reyna að sjá fyrir helstu verkferla og hanna/hugsa út heppilegar lausnir. Planið þarf að vera stórt svo gripabíllinn geti athafnað sig vel á því og einnig er til bóta að vera með stuttan rampa utan við dyrnar en gripir ganga mun auðveldar upp rampa en niður. Enn fremur er mikilvægt að geta smúlað svæðið eftir að bíllinn er farinn.
Af mörgu að taka
Eins og fram hefur komið er um afar viðamikla handbók að ræða og hér að framan aðeins verið tæpt á örfáum atriðum en mörg önnur eru tekin fyrir í skýrslunni „Betri fjós“ s.s. „mjaltaaðstaða og mjólkurhús“, „tækjarými, rekstrarvörugeymsla og fóðuraðstaða“, „loftræsting, lýsing og hljóðvist“, „lagnir“, „Frágangur utan fjóss“ og „skipulag í fjósi“. Full ástæða er til þess að hvetja þá sem eru að huga að fjósbyggingum, hvort sem er breytingum eða nýbyggingum, að kynna sér skýrsluna. Þá er væntanlegur minnislisti frá undirrituðum sem er hugsaður fyrir þá sem eru að fara að byggja, en hugmyndin er að unnt verði að nota listann til þess að kanna með einföldum hætti hvort einhver mikilvæg hönnunaratriði hafi gleymst. Listi þessi verður birtur á helstu fagnetmiðlum bænda en vænta má þess að hann verði tilbúinn fyrir lok maí.
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Ráðgjafi hjá SEGES P/S
Danmörku