Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Úrskurður á beinum og ormum sem kunna að leynast í fiskholdi hefur verið snar þáttur í fiskvinnslu á Íslandi um áratuga skeið. Mynd / Fiskifréttir HAG
Úrskurður á beinum og ormum sem kunna að leynast í fiskholdi hefur verið snar þáttur í fiskvinnslu á Íslandi um áratuga skeið. Mynd / Fiskifréttir HAG
Fréttir 5. maí 2022

Hringormavandinn fyrr og nú

Höfundur: Guðjón Einarsson

Sú var tíðin að vaxandi tíðni hringorms í fiskholdi olli íslenskum fiskvinnslufyrirtækjum svo miklum útgjaldaauka að gripið var til róttækra aðgerða til þess að stemma stigu við þessum vágesti með því að stórauka veiðar á sel sem er millihýsill hringormsins.

Á síðustu árum hefur verið fremur hljótt um hringormavandann, sem svo var nefndur á sínum tíma, þótt enn þurfi að tína hringorm úr fiski. Hver er staðan núna og hvað er helst til ráða?

Hverfum fyrst aftur til ársins 1985. Þá kom fram á Fiskiþingi að áætlað væri að frystiiðnaðurinn þyrfti að greiða allt að 200 milljónir króna og saltfiskframleiðendur 60-70 milljónir króna á ári í vinnulaun við að hreinsa hringorm úr fiskholdi. Það jafngildir samtals um 2,7 milljörðum króna á núvirði.

Hringormar. Sá brúni er selormur, sem einkum finnst í hvítfiski, en sá ljósi hvalormur (öðru nafni síldarormur) sem finnst aðallega í síld, loðnu og makríl. Mynd / Læknablaðið.

„Þetta vandamál verður fiskvinnslunni sífellt erfiðara,“ er haft eftir Halldóri Bernódussyni frá Suðureyri í Fiskifréttum í nóvember 1985. Hann sagði að bæði fjölgaði orminum í hverju kílói af fiski og eins yrðu kröfur erlendra kaupenda um ormafríar fiskafurðir æ strangari.

Hringormanefnd

Ekki er dregið í efa að bein tenging sé milli fjölda sela við landið og fjölda hringorma í fiski. Eftir að erlend umhverfissamtök fóru að beita sér gegn selveiðum á áttunda áratug síðustu aldar með frönsku leikkonuna Brigitte Bardot í broddi fylkingar féll markaðurinn fyrir selskinn og þar með dró mikið úr selveiðum hér við land sem annars staðar. Við þessu vildu fiskvinnslumenn á Íslandi sporna og beittu sér fyrir stofnun svonefndrar hringormanefndar sem greiddi verðlaun fyrir hvern veiddan sel. Við það stórjukust veiðar á ný og náðu fyrra marki sem var 6-7 þúsund dýr á ári.

Kjötið var nýtt sem fóður í loðdýrarækt en þegar halla tók undan fæti í þeirri grein var ekki lengur grundvöllur fyrir veiðunum, auk þess sem sögur af rotnandi selshræjum á víðavangi fóru fyrir brjóstið á mörgum.

Hnignandi selastofnar

Aðgerðir hringormanefndar báru tilætlaðan árangur. Selum stór­fækkaði og hélt áfram að fækka eftir að átakinu lauk. Þrátt fyrir sáralitlar selveiðar á undanförnum áratugum hafa selastofnarnir við landið af einhverjum ástæðum ekki náð sér á ný heldur þvert á móti verið á undanhaldi.

Landselastofninn árið 1980 var talinn 33 þúsund dýr en í dag eru aðeins rúm 9 þúsund dýr í stofninum. Útselastofninn var 13 þúsund dýr árið 1990 en er nú metinn 6.300 dýr. Landselurinn hefur nú verið friðaður og markmið yfirvalda er að útselastofninn fari ekki niður fyrir 4.100 dýr.
Að sögn Sigurjóns Arasonar prófessors dró verulega úr hringormum í fiski með fækkun selanna, eins og við var að búast, sem skilaði sér í vinnusparnaði í fiskvinnslunni. Hann bendir hins vegar á að á síðustu árum hafi skapast nýr vandi með stórauknum útflutningi á ferskum, kældum fiskafurðum frá Íslandi.

Hringormar í ferskum fiskafurðum

Í nýlegri skýrslu starfshóps sem sjávarútvegs- og landbúnaðar­ráðherra skipaði er fjallað um hringormavandann, einkum út frá þeirri hættu sem orðspori íslenskra sjávarafurða stafar af hringormi í ferskum, kældum fiskafurðum. Fram kemur að hringormar, sem ekki næst að fjarlægja fyrir frystingu, söltun, niðursuðu eða þurrkun, drepist og neytendur verði lítt varir við þá og stafi alla jafnan ekki hætta af neyslu þeirra.


Náist ekki að fjarlægja hringorm úr kældum, ferskum fiskafurðum getur hann skriðið úr fiskholdinu einmitt á þeim tímapunkti sem afurðirnar eru í sölu til neytenda. Hringormur hreyfir sig ekki í köldu umhverfi en þegar hann er kominn í 4 gráður eða meira fer hann á kreik. Það getur gerst í söluborði verslunar erlendis þar sem hitastig er oftast 2-6 gráður. Þekkt dæmi eru um að ormar hafi borað sig út á yfirborð ferskra fiskafurða í pakkningum og blasi þannig við neytendum með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á kaupandann. Vitað er að ein erlend stórverslunarkeðja hefur hætt viðskiptum með ferskan íslenskan fisk af þeim sökum að hringormur fannst í flökum, segir í skýrslunni.

Selormur og hvalormur

Hringormar í íslenskum sjávaraf­urðum eru aðallega tvenns konar og nefndir eftir millihýslum sínum, annars vegar selormur, sem stundum er líka kallaður þorskormur, og hins vegar hvalormur, sem einnig er nefndur síldarormur, þar sem hann finnst einkum í síld og loðnu. Selormurinn er aðalvandamálið í íslenskri fiskvinnslu. Hann er útbreiddari í útsel en landsel.

Rannsóknir hafa sýnt að útbreiðsla selorms er í beinu samhengi við útbreiðslu sela við landið. Þannig er magn orma í fiski sem veiddur er á svæðinu frá Faxaflóa norður um til Skagafjarðar mun meira á grunnsævi en þegar komið er lengra frá landi. Þetta mynstur virðist hins vegar ekki vera við Suðausturland en þar er enginn munur á þéttleika orma miðað við fjarlægð frá landi, samkvæmt athugunum frá árunum 2001–2005. Þar kemur jafnframt fram að munur er á tíðni hringorma í fiskholdi eftir árstíma. Þannig var að jafnaði mestur fjöldi hringorma í þorski í september-nóvember en eftir það minnkaði fjöldinn og var lægstur í mars-maí.

Leiðir til úrbóta

Í skýrslu starfshópsins er fjallað um ýmsar leiðir til þess að draga úr hringormi í kældum fiski. Árangursríkasta aðferðin væri náttúrlega að útrýma selum en hún er augljóslega ekki í boði.
Aðrar leiðir gætu falist í lokunum veiðisvæða þar sem ástandið er verst, einkum á grunnslóð frá Faxaflóa að Húnaflóa, og þá á þeim tíma árs þegar hringormurinn er í mestu magni. Þetta myndi hins vegar bitna á smærri bátum sem þessa
fiskislóð stunda.

Rekjanleiki veidds afla

Betra eftirlit með gæðum fisks af ákveðnum veiðislóðum og takmarkanir á útflutningi fersks fisks af þeim slóðum gæti einnig verið áhrifaríkt. Bent er á að um það bil fimmti hver þorskur sem veiðist við Ísland sé seldur á fiskmarkaði. Mikil sala fer fram rafrænt þannig að kaupandinn sér ekki aflann áður en kaupin eiga sér stað. Með réttum skráningum um veiðistað og veiðitíma sem miðlað væri til kaupenda mætti byggja upp miðlæga þekkingu um staði og tímabil þar sem ormar eru tíðastir. Ef slíkar upplýsingar lægju fyrir mætti gera ráð fyrir að verð fyrir fisk sem veiddur væri á svæðum þar sem ormar væru algengastir myndi lækka og það virka sem hvatning fyrir sjómenn að leita annarra miða.

Starfshópurinn lagði til að farið yrði í tilraunaverkefni með fiskmörkuðum og kaupendum fisks um nákvæma skráningu veiðisvæða, gæði fisksins sem og fjölda orma í hverjum kaupum. Jafnframt yrði efnt til átaks um nákvæma skráningu gagna um fjölda hringorma í fiski. Upplýsingarnar yrðu svo sameinaðar í gagnagrunni.

Ljóst er að hringormur í fiskier viðvarandi vandi sem ekki verður leystur að fullu meðan ekki hefur verið fundin örugg leið til þess að greina og fjarlægja orma
úr fiskholdi.

Eru hringormar hættulegir mönnum?

Hringormar drepast við suðu, frystingu og söltun og eru þá skaðlausir mönnum. Í nýlegri grein í Læknablaðinu kemur fram að ef menn borða hráan eða vaneldaðan fisk með lifandi selormi getur lirfan tekið sér bólfestu í slímhúð magans og valdið óþægindum sem oftast endar með uppköstum eða niðurgangi og þar með er orminum skilað til baka úr líkamanum.

Hvalormurinn, öðru nafni síldarormurinn, sem finnst í síld, loðnu og makríl en sjaldnar í hvítfiski, er varhugaverðari en selormurinn. Mun algengara er að lirfur hans bori sig út úr meltingarveginum og fari í framhaldinu á flakk í kviðarholi fólks og geti valdið ofnæmisviðbrögðum og öðrum alvarlegum einkennum.

Erlendis, þar sem hefð er fyrir því að borða hráan fisk, eins og í Japan og mörgum löndum Norður- og Suður-Evrópu, greinast fjölmörg smit á hverju ári. Í langflestum tilfellum er um að ræða síldarorminn og eru lirfurnar upprunnar úr uppsjávarfiskum eins og síld, loðnu og makríl. Einföld leið til að stemma stigu við smiti er að frysta fiskinn áður en hann er borðaður hrár og er það sums staðar skylda. Hér á landi er samkvæmt reglugerð kveðið á um að fisk sem á að nota hráan í fiskrétti, svo sem sushi, skuli frysta í mínus 20 °C í a.m.k. sólarhring fyrir notkun.

Skylt efni: Hringormar

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...