Hundraðasti veitingastaðurinn í samstarf við Icelandic lamb
Icelandic lamb hefur gert samstarfssamninga við hundrað veitingastaði sem setja íslenskt lambakjöt í öndvegi. Hundraðasti veitingastaðurinn er Dill við Hverfisgötu, sem er eini íslenski veitingastaðurinn með Michelin-stjörnu. Með því er hann kominn í flokk bestu veitingastaða í heimi.
Samstarfið við veitingastaðina hófst í fyrra og er hluti af þeirri viðleitni Icelandic lamb að ná til erlendra ferðamanna á Íslandi og segja þeim frá íslensku lambakjöti. Sala á lambakjöti jókst að jafnaði um fjórðung hjá þeim þrjátíu veitingastöðum sem voru með í samstarfinu í fyrra.
Að auki hefur samfélagsmiðlaherferð náð til milljóna og unnið er að vöruhönnun og sérstökum vörulínum og umbúðum fyrir erlenda ferðamenn. Sala á íslensku lambakjöti innanlands jókst um rúm 5% í fyrra eftir samdrátt árin þar á undan. Sala það sem af er ári hefur einnig verið góð.