Hveragerði eignast sitt eigið brugghús
Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Í hjarta Hveragerðis opnaði hópur framtakssamra vina nýlega veitingahúsið Ölverk. Þar er hægt að gæða sér á eldbökuðum pitsum og sérbrugguðum bjór sem eru unnin á svipaðan hátt.
„Mig hefur lengi langað að opna matsölustað. Svo fékk ég áhuga á bjór. Þá bættist við draumurinn um brugghús. Nýlega losnaði þetta húsnæði og þá fór hugmyndin á flug,“ segir Elvar, sem er framkvæmdastjóri Ölverks en hann og Laufey Sif búa saman í Hveragerði.
Deigið þrjá daga í vinnslu
„Staðurinn er hugsaður fyrir heimamenn í bland við ferðamenn. Heimamenn vantaði pitsustað en jafnframt erum við staðsett innan gullna hringsins ásamt því að vaxandi ferðamennska innan Hveragerðis kallaði á fleiri veitingastaði í bænum,“ segir Laufey Sif.
Á matseðli Ölverks má finna smárétti, eldbakaðar pitsur með nokkuð óvenjulegu áleggi ásamt eftirréttapitsum og ís.
Elvar var áður rómaður fyrir góða pitsugerð meðal vina og vandamanna. „Ég geri deig sem tekur þrjá daga að verða til. Ég nota rosalega lítið af geri og vinn deigið frekar með tímanum,“ segir hann en að baki liggur svipuð hugmynd og þegar bjór er bruggaður.
„Þessi útfærsla á deigi skilar sér í meiri bragðgæðum auk þess sem það fer betur í magann,“ segir Elvar, sem er jafnframt bruggmeistari.
Jarðgufa nýtt við bjórframleiðslu
Pitsunum verður því hægt að skola niður með bjór sem bruggaður verður á staðnum en fyrsti bjór Ölverks er væntanlegur eftir um mánuð.
„Hér verður að sjálfsögðu í boði góður lager og pale ale. En auk þess ætlum við í raun að gera allt sem okkur dettur í hug. Hér verða sex kranar beintengdir við bruggtanka,“ segir Elvar.
Brugghúsið mun hafa framleiðslugetu upp á 900–1200 lítra á viku og hefur þá sérstöðu að jarðgufa verður notuð við framleiðslu á bjórnum.
„Við erum á útjaðri háhitasvæðis og getum því nýtt jarðgufuna við upphitun. Við vitum af tveimur brugghúsum í Bandaríkjunum sem nota þessa tækni en eftir því sem við best vitum þá er þetta það fyrsta sinnar tegundar í Evrópu,“ segir Laufey Sif.
Bjórinn mun eingöngu vera fáanlegur á Ölverki fyrst um sinn.
„Með haustinu sjáum við svo fyrir okkur að selja bjór innan Hveragerðis og jafnvel á völdum stöðum í Reykjavík,“ segir Elvar.