Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi riðuveiki í sauðfé á Íslandi árið 2032 og að sjúkdómnum hafi verið útrýmt í landinu árið 2044.
Þetta kom fram á fagfundi sauðfjárræktarinnar á Hvanneyri 21. mars þar sem Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir Matvælastofnunar, kynnti gerð landsáætlunar um útrýmingu á riðuveiki í sauðfé. Áætlað er að vinnunni verði lokið í maí.
Með áætluninni er stefnt að því að á árinu 2028 verði litlar líkur á að upp komi riðuveiki á Íslandi, að árið 2032 séu hverfandi líkur á að veikin komi upp – og það sé viðurkennt af Evrópusambandinu – og loks að árið 2044 sé stefnt að því að riðuveiki hafi verið útrýmt.
Þessum markmiðum verði náð með ræktun, vörnum, vöktun og viðbrögðum.
Í áætluninni er gert ráð fyrir því að horfið sé frá því að kvaðir og höft séu sett jafnt á alla bæi í varnarhólfi, heldur frekar á einstaka bæi og þeim aflétt í takti við framvindu ræktunar hvers og eins. Riðubæir verði skilgreindir í tvö til sjö ár, eftir framvindu í ræktun á nýjum stofni. Einnig verði skilgreindir áhættubæir, sem eru í mikilli áhættu, og aðrir bæir í áhættuhólfi sem eru í minni áhættu. Aflétting hafta verði jafnt og þétt samhliða ræktun. Gert er ráð fyrir að varnarhólfum verði fækkað.
Skýrsla sérfræðingahóps um riðu var gefin út 1. nóvember á síðasta ári og byggir landsáætlunin á því starfi, sem matvælaráðuneytið, Bændasamtök Íslands og Matvælastofnun standa sameiginlega að. Í kjölfar skýrslunnar var farið að beita niðurskurði í hjörðum þar sem riða kemur upp, í samræmi við tillögur sérfræðingahópsins. Til að mynda hefur bændum verið gefinn kostur á að hlífa kindum við niðurskurði sem eru með verndandi og mögulega verndandi arfgerðir gegn riðusmiti.
Í máli Sigurborgar kom fram að hún væri í leyfi frá daglegum störfum yfirdýralæknis í nokkra mánuði til að geta sinnt smíði þessarar landsáætlunar.