Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Elín Anna Skúladóttir og Ari G. Guðmundsson voru afar farsæl í sinni ræktun á Bergsstöðum en sáu á eftir hjörðinni sinni í byrjun apríl til förgunar.
Elín Anna Skúladóttir og Ari G. Guðmundsson voru afar farsæl í sinni ræktun á Bergsstöðum en sáu á eftir hjörðinni sinni í byrjun apríl til förgunar.
Mynd / smh
Í deiglunni 12. júní 2023

Eftirmál riðuveiki: Mikil vonbrigði en ekki vonleysi

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Fyrsta tilfellið um riðuveiki í sauðfé í Miðfjarðarhólfi var staðfest á Bergsstöðum í Miðfirði í byrjun apríl. Þar með var ljóst að rúmlega 26 ára markviss og metnaðarfull ræktun bændanna var komin á leiðarenda.

Ábúendurnir, þau Elín Anna Skúladóttir og Ari G. Guðmundsson, keyptu jörðina um áramótin 1996– 1997. „Ég er uppalin hérna og við tókum við af foreldrum mínum sem voru með blandað bú, það er kýr, kindur og hross,“ segir Elín.

Tvöföldun á fjárfjölda

„Þá voru hér einhverjar 320–330 kindur og við ákváðum strax að ráðast í breytingar og stækka hjörðina, það fyrsta sem við gerðum var að innrétta hlöðuna sem fjárhús svo við gætum fjölgað. Svo byggjum við fjárhús árið 2001 og nýjasta byggingin er frá 2020. Við lögðum mikinn metnað og vinnu í ræktunarstarfið og reyndum að keppast við að gera betur frá ári til árs.

Við vorum komin í um 700 fjár þegar riðutilfelli var staðfest hér með þeim afleiðingum að það þurfti að skera allt niður núna í byrjun apríl. Það má segja að aðstæður hafi verið orðnar nokkuð þægilegar, það er góður bústofn, góð vinnuaðstaða og búin að endurrækta öll tún og bæta við mikilli ræktun,“ segir Ari.

Vonuðust eftir að um fjárkláða væri að ræða

Þau segjast hafa tekið eftir einkennum hjá einni kind fyrst, en svo fljótlega í öðrum tveimur. Þetta hafi gerst á um 10 dögum að riðuveiki var svo staðfest. „Þá fór nú um okkur þegar við gerðum okkur grein fyrir því hverju við gætum verið að lenda í.

Maður gerði sér alls ekki grein fyrir því til að byrja með að þetta væri riða, þetta var mikill kláði, þannig að við vorum að vona að þetta væri bara þessi fjárkláði því þær voru spikfeitar og heilbrigðar að sjá, ekki þessi einkenni sem maður hefði lesið og heyrt um. En eitthvað fannst okkur einkennilegt við þetta og höfðum því samband við héraðsdýralækni,“ segir Elín.

Gjafirnar erfiðar um páskana

Þau segja að fjölskyldan hafi verið alveg dofin fyrstu dagana eftir að þetta var staðfest og þau áttuðu sig ekki strax á því hvað þetta var mikill skellur – ekki bara fyrir þau heldur Miðfjarðarhólfið í heild sinni. „Auðvitað hefur þetta ferli allt verið mjög erfitt, en þó var líðanin verst þessa páskadaga sem við þurftum að gefa fénu sem eftir var – vitandi að það væri að fara. Fyrri hópurinn fór á föstudaginn langa og sá síðari annan í páskum. Og enn verra var reyndar að horfa á eftir fénu frá nágrönnum okkar á Urriðaá,“ segir Ari.

Þar var svo einnig ráðist í niðurskurð skömmu síðar eftir að riðuveiki var staðfest í einni á sem bændurnir á Bergsstöðum höfðu gefið heimasætunni á Urriðaá árið 2020.

Samstaða í sveitinni

Þau segjast hafa fundið fyrir mikilli samstöðu í sveitinni, bæði með þeim og bændunum á Urriðaá. „Við höfðum í raun vonast eftir að það væri hægt að hlífa þeim við niðurskurðinum þar sem við töldum að það væri jafnvel ekki fleira fé þar smitað en bara þessi sem kom frá okkur,“ segir Elín.

„Í bréfi sem var sent héðan úr sveitinni til yfirdýralæknis, sem sveitungar okkar skrifuðu undir, var óskað eftir því að það yrði ekki skorið niður þar – því við óttuðumst ekki að um fleiri riðusmit væri að ræða þar, sem komið hefur svo á daginn.“

Það var þá bæði af því að ljóst var að þessi niðurskurðaraðferð skilaði ekki almennilegum árangri og svo að það var vitað að nú væri farið að rækta upp fjárstofna með verndandi arfgerðir. „Það hefði vel verið hægt að stíga inn í ferlið og breyta reglum – það hefði verið hægt að prófa ýmsar aðrar leiðir þarna á Urriðaá, og teljum við að vinnureglur sem farið er eftir í dag séu barns síns tíma.

Fjárstofninn á Urriðaá var einn sá flottasti á landinu og vildu allir bændur fá að sjá hann og eignast gripi frá þeim – enda voru gripir frá þeim eftirsóknarverðir,“ bætir hún við.

Gerð, frjósemi og mjólkurlagni

Þau telja að sig hafa náð ágætum árangri í ræktunarstarfinu, en Bergsstaðir hafa verið ofarlega á flestum uppgjörslistum skýrslu- haldsins í sauðfjárrækt á undan- förnum árum. „Við höfum reynt að vanda okkur og einbeitt okkur að tilteknum þáttum ræktunarinnar til að ná árangri; gerð, frjósemi og mjólkurlagni. Við vorum komin á nokkuð góðan stað í flestum þáttum ræktunar nema í ullargæðum.

Svo eru það atriði í búskapnum sem ekki má vanmeta, eins og að vera með góð hey á álagstímum sem eru fengitími og sauðburður, eins er mjög mikilvægt að hafa gott pláss og góða vinnuaðstöðu, enda ekki vanþörf á verandi með 100 til 140 fleirlembur á hverju ári að meðaltali og það tekur pláss,“ segir Ari. Elín tekur undir þetta og leggur áherslu á að þetta sé þeirra vinna. „Viljum við ekki öll hafa snyrtilegt, þægilegt og gaman í vinnunni? Við eyðum mest öllum okkar tíma í fjárhúsunum og við búskaparstörf sem er dásamlegt – og lífið snýst allt árið um að gera og klára fyrir sauðburð og fyrir smalamennskur. Við viljum ekki trúa því að ráðamenn og landsmenn vilji ekki hafa íslenskan sauðfjárstofn í landinu.“

Tilfinningalegt uppnám

Þau segjast ekki hafa fyllst vonleysi við þessi ótíðindi um riðusmit í hjörðinni þeirra, þó vonbrigðin hafi vissulega verið mikil. Að sögn Ara töluðu þau um að taka ekki einhverjar skyndiákvarðanir í tilfinningalegu uppnámi. „Það var hræðilega erfitt að sjá á eftir kindunum sínum sem áttu nokkrar vikur í burð, hlaupa upp á sláturbílinn. Flestar þeirra voru einstakir karakterar og miklir vinir okkar og maður sá í augum þeirra hvað þær voru óttaslegnar á þessari ringulreið. Við urðum reið og það kom upp uppgjafartónn í okkur eftir að við fengum fyrstu drög að afurðatjónsbótum.

Eins þegar gámarnir með bústofninum frá Urriðaá voru keyrðir um sveitina fram og til baka meðan verið var að finna urðunarstað – og svo þegar við heyrðum upphæðina sem var borguð fyrir það. Það lítur út fyrir okkur að þetta sé bara leið til að fækka fé í landinu og bændum, því þetta er ekki bændum bjóðandi,“ segir Elín.

Vonandi síðasti niðurskurðurinn í landinu

Þau standa enn í samningsferli við ríkið um bætur en gera ráð fyrir að það vanti helmingi meira en þeim er boðið miðað við núverandi forsendur. Þau telja það vera dapurlega stöðu að bjóðast ekki fullar bætur fyrir það sem þau hafa misst og var tekið af þeim, til að geta byggt upp sambærilegan stofn. Ari telur að með árunum verði svo enn dýrara að byggja upp stofn.

„Þessir gripir með verndandi arfgerðir verða auðvitað bara dýrari. Maður skilur bara ekki hvað allt gengur hægt í að breyta þessum áherslum varðandi riðuniðurskurð og hvernig á að ná árangri í baráttunni við hana. Þetta virkar núna bara eins og starfslokasamningur ríkisins við bændur,“ segir hann.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...