Íbúum utan borgarinnar fjölgar
Yfirlit yfir þróun byggðar hérlendis er eitt verkefna Byggðastofnunar, en nýverið var gefin út mannfjöldaspá 2023–2074 á sveitarfélagagrunni.
Þetta er í fjórða skipti sem stofnunin gefur út slíka spá, unna úr opinberum gögnum Hagstofu Íslands, en mannfjöldaþróun og aldurssamsetning íbúa eru dæmi um þætti sem Byggðastofnun hefur litið til við greiningu á búsetuskilyrðum og því rannsóknir á borð við mannfjöldaspána hluti þess sem litið er til þegar um framtíðarhorfur byggðarlaga er að ræða.
Byggir spáin á að „fram haldi sem horfir“ þ.e. að að þróunin verði áfram með sambærilegum hætti að teknu tilliti til mismunandi lýðfræði eftir svæðum. Það þýðir að spáin sér ekki fyrir breytingar á borð við náttúruhamfarir, samgöngubætur eða jákvæðar / neikvæðar breytingar í atvinnulífi.
Samkvæmt Sigurði Árnasyni, sérfræðingi á þróunarsviði Byggðastofnunar lítur út fyrir að Íslendingum fjölgi um rétt tæp 45% næstu fimmtíu ár, eða úr rúmlega 380 þúsund í um 550 þúsund.
Sigurður segir íbúafjölda utan höfuðborgarsvæðisins fara vaxandi nema á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra, en samkvæmt útreikningum er talið að þar verði um fólksfækkun að ræða. Reikna þurfi þó með því að óvissumörk séu nokkur og meiri eftir því sem líður á spátímabilið. Teljast þar inn í dánar- og fæðingartíðni auk þess sem sérstaklega er erfitt að spá fyrir um búferlaflutninga eins og þróun undanfarinna ára hefur sýnt.
Íbúaþróun ræðst helst af framvindu afkomu innan hefðbundinna samfélaga landbúnaðar- og sjávarútvegs og framþróun atvinnulífs almennt með tilliti til fjarvinnu.
„Íbúaþróun ræðst víða af afkomu í landbúnaði og sjávarútvegi en ekki síður af því hvernig til tekst með framþróun atvinnulífs almennt. Búsetuval mun líklegast ráðast af fjölbreyttum búsetugæðum á hverju svæði og hvernig þau uppfylla þarfir einstaklingsins. Þannig verði atvinna nauðsynleg en ekki endilega nægjanleg forsenda búsetu.“
Í gildandi byggðaáætlun Byggðastofnunar 2022–2036 er aðgerðinni Óstaðbundin störf ætlað að styðja við uppbyggingu vinnustaðaklasa um landið, sem framhald af aðgerðinni Störf án staðsetningar sem hafði það að markmiði að a.m.k. 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra yrði óháð staðsetningu nú í ár.
Má gögn um óstaðbundin störf finna á mælaborði heimasíðu Byggðastofnunar, auk mannfjöldaspárinnar, sem gerð var af Einari E. Hreinssyni, landfræðingi og fyrrum starfsmanni Byggðastofnunar.