Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Ill og ólögleg meðferð á sláturgripum
Fréttir 30. mars 2017

Ill og ólögleg meðferð á sláturgripum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Nýleg myndbönd sýna mjög slæma meðferð á lifandi gripum sem flutt eru til slátrunar frá Evrópusambandinu til Tyrklands og Mið-Austurlanda. Meðferð og umgengni við dýrin við flutningana og á áfangastað er í mörgum tilfellum í bága við öll lög og reglur Evrópusambandsins um dýravelferð.

Breska blaðið Guardian birti fyrir skömmu á heimasíðu sinni umfjöllun um illa og ólöglega meðferð á nautgripum og sauðfé sem flutt eru lifandi frá löndum Evrópusambandsins til slátrunar í Tyrklandi og Mið-Austurlöndum. Mest af afurðunum er neytt í landinu þar sem gripunum er slátrað en dæmi eru um að hluti þeirra sé fluttur til landa Evrópusambandsins og seldar þar eða fluttar út.

Í umfjöllun Guardian segist blaðið hafa undir höndum myndbönd sem sýna að sláturdýrin séu barin og gefið raflost til að reka þau áfram og að illa sé um þau hugsað meðan á flutningunum stendur. Einnig sýna myndböndin að aðferðir við slátrun á áfangastað eru langt frá því að vera það sem kallast má manneskjulegar eða ásættanlegar.

Umfjöllun Guardian í heild má finna á slóðinni, https://www.theguardian.com/world/2017/mar/01/revealed-exported-eu-animals-subject-to-abuse-illegal-conditions.

Barsmíðar og raflost

Í umfjöllun Guardian er meðal annars sagt frá nautgripum frá Írlandi sem tekur tólf daga að flytja til slátrunar í Tyrklandi. Gripirnir eru fluttir með skipi og ekki hirt um að þrífa undan þeim á leiðinni og eru skepnurnar því útataðar í mykju og skít þegar þær berast á áfangastað.

Auk þess að sýna að gripunum sé misþyrmt með barsmíðum og rafstuði sýna myndböndin að gripunum er dögum saman haldið allt of mörgum saman innan allt of þröngra girðinga þar sem jarðvegurinn er lítið annað en leðja og skítur.

Í sumum tilfellum sjást skelfingu lostnir, spriklandi og hljóðandi nautgripir og sauðfé frá Frakklandi, Rúmeníu og Litháen sem verið er að skera á háls og slátra við ömurlegar aðstæður og jafnvel utandyra.

Teymi ástralskra dýraverndunarsinna

Myndefninu var safnað á átta mánaða tímabili af meðlimum í áströlsku teymi dýraverndunarsinna sem starfaði, meðan á öflun upplýsinganna stóð, við flutninga á dýrunum frá löndum Evrópusambandsins í sláturhús í Króatíu, Tyrklandi og fimm öðrum löndum í Mið-Austurlöndum.

Árið 2011 upplýsti teymi ­ástralskra dýraverndunarsinna um slæma meðferð á dýrum sem flutt voru lifandi frá Ástralíu til Indónesíu til slátrunar. Myndefni sem fylgdi þeirri uppljóstrun vakti gríðarlega athygli og olli því að flutningarnir voru bannaðir um tíma og reglur um þá hertar til muna.

Efni sem meðlimir ástralska teymisins hafa aflað núna sýna að ástandið er engu betra þegar kemur að flutningi lifandi gripa frá Evrópu og sýnir svo ekki verður um villst að lög Evrópusambandsins um meðferð á dýrum eru margoft þverbrotin í nánast öllum löndunum sem könnuð voru.

Samkvæmt evrópskum lögum eiga gripir sem fluttir eru milli landa að njóta góðrar meðferðar meðan á flutningi þeirra stendur. Á það að gilda hvort sem landið sem flytja á dýrin til sé hluti af Evrópusambandinu eða ekki.

Lögin gera ráð fyrir að gripirnir séu meðhöndlaðir án ofbeldis og að aðstæður við flutninginn séu þannig að dýrin eigi ekki að upplifa hræðslu né að hætta sé á að þau verði fyrir slysi. Allur búnaður við flutninginn, hvort sem það er flutningstækið eða búnaður við fermingu eða affermingu gripanna, á að vera hannaður með það í huga að gripunum líði sem best meðan á flutningum stendur. Einnig eru ákvæði í lögunum um að flutninga skuli skipuleggja þannig að þeir taki sem skemmstan tíma.

Flutningar standast ekki lágmarkskröfur

Guardian fól ítalskri lögfræðistofu, sem sérhæfir sig í dýrarétti, að leggja mat á myndefni sem sýnir flutninga gripanna milli landa. Í svari lögfræðistofunnar segir að myndefnið sýni svo ekki verði um villst að lög EC No 1/2005 um flutninga á dýrum séu brotin. Enn fremur kemur fram í svari lögfræðinganna að í mörgum tilfellum hefði ekki átt að heimila flutninga dýranna milli landa þar sem flutningsaðilar hefðu ekki getað sýnt fram á að þeir stæðust lágmarkskröfur Evrópusambandsins um dýravelferð meðan á flutningunum stendur.

Nautgripir útataðir í skít

Eitt myndbandið sýnir gripi frá Þýskalandi, Ungverjalandi, Póllandi og Slóveníu sem er verið að reka um borð í flutningaskip í Króatíu. Þaðan átti að flytja gripina sjóleiðina til Beirút. Myndbandið sýnir greinilega að dýrin eru barin áfram, að sparkað er látlaust í þau og þeim gefið raflost í rassboruna til að reka þau áfram og flýta fyrir lestun skipsins.

Sauðfé er rifið upp á ullinni og því kastað um borð. Nautgripir missa fæturna og renna aftur á bak niður í lestina eftir að hafa í örvæntingu reynt að klofast yfir sauðfé til að komast undan raflosti.

Á öðru myndbandi má sjá affermingu nautgripa úr flutningaskipi í Tyrklandi. Gripirnir, sem voru frá Írlandi, höfðu verið tvær vikur um borð í skipinu á leiðinni. Húð nautgripanna, frá klaufum og upp á haus, er klepruð af skít þar sem ekki hefur verið hirt um að þrífa undan þeim á leiðinni. Til að spara lestarpláss eru þrengsli mikil í lest flutningaskipsins. Við uppskipun er nautgripunum troðið á opna vörubíla þar sem þeir hossast og kastast til á meðan þeim er ekið síðasta spölinn að geymsluhólfi við sláturhúsið.

Slátrað úti á götu

Dæmi eru um að nautgripum og sauðfé sem flutt hefur verið frá löndum Evrópusambandsins sé slátrað á blóðvelli við götumarkaði eða á götum utan við íbúðarhús en lög í Evrópu banna slíkt. Í myndbandi frá götumarkaði frá Jórdaníu sést sauðkind, sem illa hafði tekist til við að skera á háls, spriklandi í dauðateygjunum á blóðþakinni gangstétt. Annað myndband frá Tyrklandi sýnir spriklandi nautgrip, sem búið er að hengja upp á öðrum afturfætinum, á meðan hann er margsinnis skorinn á háls og látinn blæða út.

Auknir flutningar

Gríðarleg aukning hefur orðið í flutningum á lifandi gripum frá löndum Evrópusambandsins til slátrunar í Mið-Austurlöndum undanfarin ár. Fjöldi nautgripa sem fluttur var frá Evrópu til Mið-Austurlanda til slátrunar árið 2015 var um 650 þúsund. Fjöldi sauðfjár var á sama ári um 2,5 milljón og fór mest af því til Líbýu, Líbanon og Jórdaníu. 

Græðgi á kostnað dýravelferðar

Í umfjöllun Guardian er haft eftir talsmanni dýraverndunarsamtakanna, Animal Welfare Foundation (AWF), að dýraníðið sem á sér stað við flutningana sé rekið áfram af græðgi og gróðahyggju og ekki sé hikað við að draga úr kostnaði við flutningana á kostnað velferðar gripanna. Auk þess sem Evrópusambandið hafi dregið úr fjárframlögum sem ætluð eru til eftirlits með dýravelferð. 

Eftir að hafa horft á hluta myndbandanna hafa Evrópuþingmenn Þýskalands, Frakklands, Litháen og Finnlands kallað eftir því að farið verði fram á ítarlega rannsókn á flutningunum og að eftirlit með þeim verði aukið.

Fæðuöryggi, umhverfisvernd og lýðheilsa

Í framhaldi af umræðu um illa meðferð á dýrum við flutninga á milli landa var haft eftir framkvæmdastjóra Eurogroup, sem er óopinber samráðsvettvangur fjármálaráðherra Evrópusambandsríkjanna sem nota evruna sem gjaldmiðil, að ríki Evrópusambandsins væru í raun að flytja út dýraníð í stórum stíl og að það væri ósýnilegt langflestum íbúum álfunnar.

„Brot á reglum um flutninga á lifandi dýrum milli landa sýna svo ekki verður um villst að við ættum að þróa kerfi þar sem húsdýr eru alin og þeim slátrað sem næst fæðingarstað þeirra. Þetta skiptir ekki einungis máli hvað varðar dýravelferð heldur er einnig grundvallaratriði þegar kemur að fæðuöryggi, umhverfisvernd og lýðheilsu.“

Vínbruggun í Húnaþingi í gerjun
Fréttir 2. apríl 2025

Vínbruggun í Húnaþingi í gerjun

Á Hvammstanga er verið að þróa framleiðslu á íslensku víni. Rabarbarafreyðivínið...

Skepnur út undan í almannavörnum
Fréttir 1. apríl 2025

Skepnur út undan í almannavörnum

Dýraverndarsamband Íslands telur brýnt að styrkja stöðu dýra í almannavarnaástan...

Skoða bryggju austan við Vík
Fréttir 31. mars 2025

Skoða bryggju austan við Vík

Fyrirtækið EP Power Minerals Iceland ehf. hyggst gera bryggju við Alviðruhamra á...

Ferðaþjónusta sem hluti af heildinni
Fréttir 28. mars 2025

Ferðaþjónusta sem hluti af heildinni

Nærandi ferðaþjónusta er ný nálgun í ferðaþjónustu sem miðar að því að leggja ræ...

Endingarmeira malbik og vegklæðing
Fréttir 28. mars 2025

Endingarmeira malbik og vegklæðing

Með því að blanda hágæða jarðbiki úr endurunnum þakdúki í malbik eða vegklæðingu...

Amerísk kögurvængja og dvergmítill nýir landnemar
Fréttir 28. mars 2025

Amerísk kögurvængja og dvergmítill nýir landnemar

Dvergmítlar og ný tegund kögurvængju eru nýlegir landnemar á Íslandi og geta val...

Strandirnar standa sterkari eftir
Fréttir 27. mars 2025

Strandirnar standa sterkari eftir

Strandamenn hafa staðið í átaki til að stöðva fólksfækkun og efla innviði og atv...

Íslenskar paprikur árið um kring
Fréttir 27. mars 2025

Íslenskar paprikur árið um kring

Sölufélag garðyrkjumanna fékk nýverið 13,5 milljóna króna styrk vegna rannsókna ...