Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Ísland – Noregur
Fréttaskýring 28. desember 2017

Ísland – Noregur

Höfundur: Guðjón Einarsson

Eftir frækilega frammistöðu  íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á EM í Frakklandi sumarið 2016 kepptist  heimspressan við að lýsa undrun og aðdáun á dugnaði og eljusemi þessarar dvergþjóðar á hjara veraldar. Jafnvel helsta sjávarútvegsblað Noregs, Fiskeribladet/Fiskaren, hreifst með og lagði forsíðu sína undir íslensku sigurförina.

Og ekki nóg með það, heldur fékk blaðið sérfræðing á norsku rannsóknastofnuninni Nofima (sem er hliðstæð stofnun og Matís á Íslandi) til þess að útskýra hvers vegna Íslendingum gengi svona vel á svo mörgum sviðum, í sumum tilvikum betur en Norðmönnum, eins og til dæmis í sjávarútvegi. Svarið birtist stórum stöfum á forsíðunni: Áhættuvilji, þol, hugrekki, stolt (sjá meðfylgjandi forsíðumynd).

Gerum meiri verðmæti úr hráefninu

Öllum þykir hólið gott, ekki síst ef það kemur að utan, en hollt er þó að taka ummælum um yfirburði íslenska kynstofnsins með fyrirvara. Nægir þar að minnast heimatilbúinna yfirlýsinga um yfirburðargetu íslenskra fjármálamanna áður en allt hrundi.

Að þessu sögðu er það þó óumdeilt, bæði í Noregi og á Íslandi, að Íslendingar geri meiri verðmæti en Norðmenn úr hverju kílói af botnfiski sem dregið er úr sjó. Skýringin liggur að mestu leyti í mismunandi skipulagi veiða og vinnslu í löndunum tveimur.

Veiðar og vinnsla aðskilin í Noregi

Grundvallarreglan í Noregi er sú að veiðar og vinnsla skuli vera aðskilin. Það þýðir til dæmis að eigendur fiskibátanna keppast við að veiða þorskinn þegar auðveldast er að ná í hann, það er að segja á vetrarvertíðinni þegar hann gengur úr Barentshafinu til hrygningar upp að norsku ströndinni. Þannig hrúgast 80–90% þorsksins á land á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Fiskimönnunum er tryggt umsamið lágmarksverð fyrir fiskinn sem gerir það að verkum að hvatning til þess að skila hráefninu í sem mestum gæðum er í lágmarki.

Það segir sig sjálft að þetta verklag veldur fiskvinnslunni í landi miklum erfiðleikum. Alltof mikið framboð á fiski af mismunandi gæðum á stuttum tíma framan af ári getur leitt til söluerfiðleika og verðlækkunar en of lítil veiði það sem eftir er ársins gerir það að verkum að ekki er hægt að þjóna markaðnum á þann hátt sem hann kýs. 

Samvinna veiða, vinnslu og markaða

Á Íslandi á hinn bóginn er mikil samvinna milli veiða, vinnslu og markaða sem leiðir til hærra verðs fyrir afurðirnar. Fiskiskipin eru að stærstum hluta í eigu sömu aðila og fiskvinnslustöðvarnar. Sjálfstæðir bátaeigendur sem selja gjarnan á fiskmörkuðum haga veiðum sínum að töluverðu leyti eftir því hvenær verðið er hæst.

Í erindi sem Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, flutti á síðasta ári kom fram að verðmæti á hvert kvótakíló þorsks frá Íslandi á árinu 2014 hafi verið 20 norskar krónur en frá Noregi 15 norskar krónur. Sem sagt, Íslendingar gera  þriðjungi meiri verðmæti úr hverju veiddu kílói en Norðmenn. Að sögn Þorsteins Más er stóri munurinn sá að aðeins tæp 20% af þorskafurðum frá Íslandi eru lítið unnin vara en hlutfallið í Noregi er 90%.

Fiskur fluttur óunninn úr landi

Fiskvinnsla í Noregi byggist að verulegu leyti á heilfrystingu úti á sjó og vinnslu á saltfiski og skreið í landi. Stór hluti þorskaflans er fluttur ferskur eða frosinn úr landi og unninn erlendis, svo sem í Portúgal, Danmörku og Kína. Flakavinnsla í Noregi hefur verið lítil. Íslendingar hafa aftur á móti lagt aukna áherslu á vinnslu í landi. Útflutningur á ferskum afurðum, sem gefa jafnan mestan arð, fer vaxandi. Er nú svo komið að  hlutur ferskra afurða í útflutningsverðmæti þorsks frá Íslandi er tæp 40% en var 12% árið 2000.

Sendinefndir til Íslands

Framámönnum í norskum sjávarútvegi eru þessar staðreyndir fullljósar. Á hverju ári koma sendinefndir skipaðar fulltrúum hagsmunaaðila, stjórnmálamanna og rannsóknamanna frá Noregi til Íslands til þess að kynna sér hvernig staðið sé að málum hér. Samt breytist tiltölulega lítið. Ástæðan er sú að það hentar norska bátaflotanum vel að fiska megnið af þorskkvóta sínum á vetrarvertíðinni þegar auðveldast er að veiða fiskinn uppi við ströndina.

Ólíkar aðstæður

Bátaútgerðarmennirnir benda á að aðstæður til þorskveiða við Noreg séu frábrugðnar aðstæðum við Ísland. Eftir að þorskurinn hafi lokið hrygningu við Noregsstrendur snúi hann aftur norður í Barentshaf þar sem langt sé að sækja hann en þorskurinn við Ísland haldi sig í námunda við landið árið um kring.
Fleira kemur einnig til. Norskir fiskimenn eru vanir því að taka rösklega á því á vertíðinni og eiga síðan náðugri daga það sem eftir er ársins. Erfitt er að breyta slíkum venjum. Þá má nefna að norska fiskveiðistjórnunarkerfið er miklu ósveigjanlegra en hið íslenska. Kvótaleiga er óheimil og miklar hömlur eru á sameiningu veiðiheimilda. Bátarnir eiga því óhægt um vik að framlengja úthaldið svo það nái árið um kring.

Byggðastefna

Þótt Norðmenn séu tvöfalt stærri fiskveiðiþjóð en Íslendingar miðast umgjörð sjávarútvegsins í Noregi fyrst og fremst við það að styðja við byggð í Norður-Noregi. Á Íslandi hefur sjávarútvegurinn aftur á móti verið ein mikilvægasta stoð efnahagslífsins og sú skoðun ríkjandi að vart sé annað í boði en að reka hann á eins hagkvæman hátt og kostur er.

Menn geta svo velt fyrir sér hvort þeir mannkostir sem Íslendingum voru eignaðir á forsíðu Fiskeribladet/Fiskaren og getið var um hér að framan hafi eitthvað með velgengni íslensks sjávarútvegs að gera. 

Skylt efni: Fiskveiðar | hlunind

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...