Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Staðfest er í rannsókn Egils að íslenska kúakynið er mjög sérstætt og einsleitt, en skyldleikaræktin er samt ekki kvíðvænlega mikil. Þetta er talið vera hagkvæmt fyrir kynbótastarfið.
Staðfest er í rannsókn Egils að íslenska kúakynið er mjög sérstætt og einsleitt, en skyldleikaræktin er samt ekki kvíðvænlega mikil. Þetta er talið vera hagkvæmt fyrir kynbótastarfið.
Mynd / MÞÞ
Fréttir 14. janúar 2020

Íslenska kúakynið er norrænt og mestur skyldleiki er við sænskt kúakyn og þrjú finnsk

Höfundur: smh
Egill Gautason, doktorsnemi við Háskólann í Árósum, hefur í rúmt ár unnið að erfðarannsóknum á íslenska kúakyninu, þar sem bæði erfðafræðilegur uppruni er kannaður en einnig hver þróun og áhrif skyldleikaræktarinnar er hér á landi. Hann greindi frá fyrstu niðurstöðunum nýverið í grein, þar sem staðfest er að íslenskar kýr eru norrænar að uppruna og  mest skyldar þremur finnskum kúakynjum og sænsku fjallakyni – af þeim kúakynjum sem borin voru saman við það íslenska. Þar kemur fram að íslenski kúastofninn er eini stóri og óblandaði stofninn meðal þessara kynja sem gerir hann afar sérstakan.
 
Aðalmarkmið verkefnisins er hins vegar að innleiða erfða­mengjaúrval til að nota við erfðamengjakynbætur fyrir litla kúastofna og kemur í kjölfar ályktunar aðalfundar Landssambands kúabænda árið 2016 um að hagkvæmni slíks fyrirkomulags yrði kannað. 
 
Líklegast frá Noregi
 
Egill segir að einungis sé um niðurstöður að ræða úr fyrsta hluta verkefnisins, en það er styrkt af Auðhumlu, Mjólkursamsölunni og Kaupfélagi Skagfirðinga. „Meginniðurstöðurnar eru að íslenskar kýr eru norrænar að uppruna og þar af leiðandi líklegast frá Noregi, þær eru enn fremur erfðalega ansi sérstæðar því innflutningur á öðrum kúakynjum hefur nánast engin áhrif haft á stofninn. 
Þá er stofnbygging engin,“ segir Egill. 
 
Sýnt fram á sérstöðu íslenskra kúa í fyrsta sinn
 
Egill Gautason.
„Þessar niðurstöður koma ekki beinlínis á óvart hvað skyldleikann og stofnbygginguna varðar, þar sem þær eru í samræmi við fyrri niðurstöður. Fyrri rannsóknir hafa bent til skyldleika við norskar kýr, en skyldleiki íslenskra kúa við bresk kyn hefur lítið verið rannsakaður. Af þeim sökum rannsakaði ég skyldleika við kúakyn frá Skotlandi, Englandi og Írlandi, en fann ekkert sem benti til skyldleika íslenskra kúa við breskar kýr,“ segir Egill um niðurstöðurnar.
 
„Mér vitanlega hefur ekki verið sýnt fram á erfðalega sérstöðu íslenskra kúa með óyggjandi hætti fyrr en nú, en fyrri rannsóknir hafa þó heldur bent til þess að þær hafi lengi verið einangraðar. En nú eru sem sagt komin gögn sem sýna fram á þessa sérstöðu,“ bætir hann við.
 
Alveg nýjar niðurstöður um nær engin innflutt áhrif
 
Að sögn Egils var í rannsókninni einnig beint sjónum að mögulegri blöndun íslenska stofnsins og áhrifum innflutnings. „Þetta hefur aldrei verið rannsakað og því um algjörlega nýjar upplýsingar að ræða. Það sem kemur kannski mest á óvart er hversu hreinn stofninn er og hversu lítil áhrif eru af innflutningi annarra kynja til landsins. Við töldum líkur á að finna meiri áhrif frá rauðum dönskum kúm, en fundum nærri því engin áhrif. Það er samt dálítið vandasamt að fjalla um þetta, því að niðurstöðurnar geta líka bent til innflutnings annarra kynja, sem engar heimildir eru annars um. En hafi sá innflutningur átt sér stað, þá hefur hann engin teljanleg áhrif haft á stofninn. Það þarf meiri rannsóknir til að skera úr um það. En meginniðurstaðan, hvað áhrif innflutnings varðar, er að íslenski stofninn er nærri algjörlega óblandaður öðrum kynjum.“
 
Engin teljandi stofnbygging íslenska stofnsins
 
„Við rannsökuðum líka hvort nokkra teljandi stofnbyggingu, eða undirstofna, væri að finna innan íslenska stofnsins – og fundum ekki. Það kom alls ekki á óvart – og er í samræmi við rannsókn Margrétar Ásbjarnardóttur sem hún stóð að árið 2010 ásamt fleirum. Það þýðir það einfaldlega að kerfisbundinn breytileiki er ekki til staðar, sem væri til dæmis ef kýr á Austurlandi væru frábrugðnar kúm annars staðar á landinu. Það myndi síðan bjaga kynbótamatið kerfisbundið.
 
Hins vegar sýndum við fram á að það er samt sem áður dálítil bygging í stofninum, sem útskýrist af skyldleika gripa við þrjú naut, Laska, Font og Stíg. Þessi einsleitni stofnsins er frekar til bóta fyrir kynbótastarfið, þar sem að meiri bygging getur valdið skekkju á kynbótamati. 
 
Þessu til viðbótar birti ég síðan þróun skyldleikaræktarstuðulsins síðustu árin og útreikning á virkri stofnstærð. Skyldleikaræktin hefur aukist töluvert, en er samt ekki kvíðvænlega mikil.
 
Niðurstöðurnar verða nýttar við áframhaldandi rannsóknir á íslenskum kúm, bæði hvað varðar þróun skyldleikaræktar og áhrif úrvals, auk þess sem niðurstöðurnar varðandi skyldleika við önnur kyn verða nýttar við rannsóknir á öryggi erfðamengjakynbótamats fyrir íslenskar kýr,“ segir Egill. 
 
Kyngreining sæðis hafin
Fréttir 27. desember 2024

Kyngreining sæðis hafin

Við Nautastöð Bændasamtaka Íslands á Hesti í Borgarfirði hefur verið komið upp f...

Áskrift að Bændablaðinu 2025
Fréttir 27. desember 2024

Áskrift að Bændablaðinu 2025

Gefin eru út 23 tölublöð af Bændablaðinu ár hvert. Upplagi þess er dreift um all...

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...