Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Íslenski geitastofninn enn í útrýmingarhættu
Mynd / Úr einkasafni
Fréttir 26. júní 2018

Íslenski geitastofninn enn í útrýmingarhættu

Höfundur: smh
Anna María Flygenring, bóndi í Hlíð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, tók við formennsku í Geit­fjár­ræktarfélagi Íslands á aðalfundi félagsins í apríl síðastliðinn.  Hún tekur við af Sif Matthíasdóttur sem hafði gegnt formennsku í fjögur ár og gaf ekki lengur kost á sér.
 
Anna María segir að ýmis áhugaverð verkefni séu í gangi á vegum félagsins sem haldið verður áfram með. „Á þeim tíma sem Sif var formaður var til dæmis farið í samstarf við Matís um verðmætasköpun, vöruþróun og kynningu á geitaafurðum og verkefnið Matarauður Íslands hefur líka verið okkur hliðhollt. 
 
Nýja merkið fyrir geitaafurðir.
Þá stóð Lista­háskóli Íslands fyrir samkeppni um merki fyrir geitaafurðir, sem félagið verðlaunaði síðan fyrir og fær merkið til afnota. Það verður bara á allra næstu dögum sem við gefum leyfi fyrir notkun á því, en það var Sóley Tómasdóttir sem hannaði merkið. Á döfinni er sem sagt að fylgja þessum verkefnum eftir ásamt því að kynna afurðir geitanna alls staðar sem við komum því við.
 
Stofninn er enn í útrýmingarhættu, ekkert má koma upp á til að hann verði í verulegri hættu; fjöldinn var um síðustu áramót 1.163 geitur ef ég man rétt,“ segir Anna María. 
 
Nýr vefur
 
Nýr vefur Geitfjár­ræktarfélags Íslands (geit.is) var tekinn í gagnið í vor, en Anna María segir hann ekki enn vera fullburða. „Við erum að bæta inn eftir því sem vefstjórar hafa tíma en öll okkar vinna er unnin í sjálfboðavinnu. Ég held og vona að félagið eigi eftir að eflast og félögum fjölgi, því það styrkir allt okkar starf,“ segir Anna María.
 
Alltaf haft áhuga á geitum
 
Annar María segir að hún hafi haft áhuga á geitum allt frá barnæsku. „Ég hef alltaf verið mikið fyrir dýr, sogaðist að kindaköllum og hestamönnum hvar sem þeir urðu á vegi mínum með sínar skepnur. Heima hjá ömmu minni var veggteppi með mynd af geitum og á þá mynd horfði ég alltaf þegar ég gekk upp stigann hjá henni, en ég var hjá ömmu og afa þegar ég var í menntaskóla. Ég vildi líka alltaf frekjast til að fá að sitja réttum megin í bílnum þegar við keyrðum frá Reykjavík austur eða til Reykjavíkur yfir Geitháls, þá voru nokkrar geitur í girðingu við veginn. En ég bjóst aldrei við að geta eignast geitur, það var bara alls ekki í kortunum – ekki einu sinni eftir að ég var orðin bóndi og átti nóg land og tækifæri. Ég er sem sagt kúabóndi í dag og hef verið í rúm 37 ár. Við eigum líka allnokkur hross enda hefur áhugamál fjölskyldunnar verið hestamennska og er enn. Sauðfé erum við með svona rúmlega til matar og einnig hefur áhugi minn á handverki, tóvinnu, spuna og prjónamennsku margfaldast síðustu ár. 
 
Það sem hins vegar varð beinlínis til þess að ég gerðist geitabóndi var að komast í kynni við Jóhönnu á Háafelli. Barátta hennar fyrir verndun stofnsins og hugsjónastarf varð kveikjan að þessu hjá mér. Mér rann til rifja að allt hennar starf yrði unnið fyrir gýg og fór að skoða nánar þau mál öll og eftir komu að Háafelli var ekki aftur snúið. Enda reyndist það ekki svo flókið að eignast örfáar geitur. Það var 2014 sem við fengum okkar fyrstu þrjár hingað heim að Hlíð.“
 
Beint frá býli afurðir Hlíðarkistunnar
 
„Nú, þegar ég hef komist í kynni við spunakonur og lært að spinna á rokk og eignast einn slíkan, ætla ég að bjóða til sölu ullarband spunnið af mér heima og í Uppspuna, nýju smáspunaverksmiðjunni. Síðast en ekki síst notum við fiðuna af geitunum sem er einstakt gæðahráefni og mýkra band finnst ekki en fiðuband – alla vega ekki náttúrulegt band. Nú hafa geitabændur betra tækifæri til að láta spinna fiðuna hér á landi, en áður þurfti að senda hana til vinnslu, til dæmis til Noregs. Þetta er eitt af tækifærunum sem liggja í geitfjárrækt en handavinnan við að kemba geitina er feiknamikil og eðlilega hafa ekki allir tíma til að kemba, en það er gert með handkömbum. 
 
Geitaafurðirnar í sókn
 
Að sögn Önnu Maríu er geitakjöt og geitaostar óðum að vinna sér sess hjá fólki, en það er allt meira og minna selt í heimasölu. „Ég er sjálf ekki með gestamóttöku, en við seljum ýmislegt héðan úr Hlíðarkistunni sem við köllum svo; nautgripakjöt, lambakjöt, kiðlingakjöt og svo stökur og gærur. Einnig ullarbandið sem ég nefndi áður. 
 
En hjá mér eru svo fáar geitur þannig að þetta er ekki mikil framleiðsla; við eigum sjö fullorðnar og fimm kiðlinga þetta árið. 
 
Margir hafa þá trú að ekki sé mögulegt að halda geitum innan girðinga. Það er hins vegar vel hægt og rafmagnsnet halda þeim mjög vel. Það þarf bara að hafa strauminn á þessu,“ segir nýr formaður Geitfjárræktarfélags Íslands.

4 myndir:

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...