Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Það er mikil spenna um hvaða mat íslenskir minkabændur fá á sín skinn á næsta uppboði sem haldið verður hjá Kopenhagen Fur í janúar.
Það er mikil spenna um hvaða mat íslenskir minkabændur fá á sín skinn á næsta uppboði sem haldið verður hjá Kopenhagen Fur í janúar.
Mynd / HKr.
Fréttir 17. nóvember 2015

Íslenskir minkabændur bíða spenntir eftir næsta skinnauppboði í janúar

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Íslenskir minkabændur búast ekki við að viðsnúningur verði til hins betra á skinnamörkuðum heimsins fyrr en eftir eitt til tvö ár. Það sé því spurning hvaða þol minkabændur víða um heim hafa til að mæta svo langri niðursveiflu.
 
Björn Halldórsson, formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda (SÍL), segir að hrun hafi verið á verði minkaskinna á árinu 2014 sem hófst í september 2013.
„Á árinu 2014 varð um 40% lækkun á skinnaverði frá árinu áður. Það er erfitt að segja hvort eða hvenær botninum verður náð.
 
Ég er nokkuð viss um að meðalverð næsta árs eigi eftir að verða eitthvað lægra en það er á þessu ári. Það mun kannski eiga við árið 2017 líka. Erfitt er þó að fullyrða um þetta þar sem margir þættir hafa áhrif á verðmyndunina,“ segir Björn. 
 
„Fyrst og fremst þá þarf framboð af minkaskinnum að minnka verulega mikið. Ásetningsdýrum í heiminum þarf að fækka verulega fyrir næsta ár svo kaupendur viti að þegar búið er að selja skinn sem nú er verið að framleiða, þá verði framboð og eftirspurn komið í miklu betra jafnvægi. 
 
Það sem getur helst haft áhrif á þetta er að stöðugleiki náist í Kína sem líklega verður vegna samdráttar í efnahagskerfinu. Ef Rússland fer svo að taka við sér að nýju, eða að það verði kaldur vetur í Rússlandi og norðanverðri Asíu, þá gæti salan glæðst.“
 
Mikil spenna ríkjandi fyrir næsta uppboði
 
− Nú talar þú um lækkun á meðaltalsverði. Íslenskir minkabændur hafa á undanförnum árum verið að skipa sér við hlið þeirra sem framleiða bestu og verðmætustu skinnin. Er staðan enn þannig?
 „Við vorum komnir í góða stöðu í gæðum, en síðasta ár hefur þó ekki verið eins gott, einkum hvað stærð skinna snertir. Við náðum því ekki að halda við þeirri framför sem búin var að vera hjá okkur mörg undanfarin ár. Í dag heyri ég þó á mönnum að staðan er miklu betri, allavega hvað stærð skinnanna varðar. Það er því mikil spenna hjá okkur um hvaða mat við fáum á næsta uppboði sem verður hjá Kopenhagen Fur í janúar, en síðasta uppboð þessa sölutímabils var í lok september. Einnig hvernig verðþróunin verður á markaðnum.“
 
Afkoman undir núlli
 
− Hefur niðursveiflan þá haft sömu áhrif á loðdýrabændur hér á landi eins og kollegana erlendis?
„Verðniðursveiflan á markaði hefur vissulega áhrif á okkur. Árið 2015 verður gert upp með tapi hjá vel flestum minkabændum á Íslandi. Það var einnig tap á árinu 2014 þótt það væri ekki mikið. Þetta hefur gert það að verkum að íslenskir minkabændur hafa ekki haft eins frjálsar hendur fjárhagslega og var árin þar á undan. Ef verðið fer enn neðar, þá fer að herða verulega að, sérstaklega hjá þeim hluta bænda sem liggja undir meðaltalinu. Það er það sama og hefur verið að gerast í öðrum löndum. Það gæti því farið þannig að þeir verst settu hér á landi heltist úr lestinni.“ 
 
Líka spurning um úthald bankanna
 
„Auðvitað ræðst það svo líka talsvert af því hvað bankarnir eru tilbúnir að skoða stöðuna af  mikilli sanngirni. Ef bankarnir horfa á heildarmyndina og skoða okkar stöðu í samanburði við önnur lönd, þá er áhættan sem fólgin er í því að vera með fjármagn í loðdýrarækt á Íslandi ekki mikil. Það er ekki bara okkar mat, heldur  kollega okkar í langflestum löndum heims. Þar erum við talin vera í hópi þeirra sem hafa hvað besta samkeppnisstöðu.
 
Bankarnir þurfa auðvitað að hafa trú á því að eftir tvö ár eða svo förum við að sjá breytingar til batnaðar. Sagan hefur líka sýnt það að við þurfum ekki nema eitt til tvö góð ár til að staðan snúist gjörsamlega við. Það þarf enginn að efast um að slíkt mun gerast. Maður óttast þó mest um þá sem eru tiltölulega nýlega byrjaðir í greininni og þekkja ekki þessar sveiflur. Öll okkar vinna undanfarin ár hefur miðast við að hjálpa mönnum til að lifa af svona högg þegar það kæmi. Að bændur hér komist upp á það plan að það verði margir framleiðendur í heiminum að hætta framleiðslu á undan okkur. Þá höfum við frekar möguleika á að þrauka.“
 
Niðursveiflan kom seinna en við reiknuðum með
 
„Við sem erum búnir að vera lengst í þessu höfum svo oft farið í gegnum svona sveiflur að við þekkjum þær vel. Það er því fátt eða ekkert í stöðunni í dag sem hefur komið okkur á óvart. Það eina sem kom okkur kannski á óvart var hversu seint niðursveiflan kom. Við vorum búnir að spá henni miklu fyrr. Einnig að hún yrði miklu dýpri en hún virðist ætla að verða.“
 
Þjóðhagslega hagkvæmt
 
„Ég tel að við höfum horft mjög raunsætt á stöðuna og vitum hvað þarf til að þetta gangi. Við vitum það líka að á síðustu fimm árum erum við búin að greiða samfélaginu allan þann stuðning sem við fengum þegar verst gekk. Það er í gegnum skattgreiðslur loðdýrabænda sem hafa verið mjög háar undanfarin ár vegna góðrar afkomu. Það er góð tilfinning.“
 
− Þú vilt þá meina að þessi grein sé þjóðhagslega hagkvæm?
„Já, til lengri tíma litið þá tel ég svo vera. Þá verður líka að horfa á það að við erum að vinna fóður úr hráefnum sem í flestum tilfellum eru vandræði að losna við. Það eru margvíslegar hliðarafurðir í matvælaframleiðslunni sem við erum að gera verðmæti úr. Slíkar aukaafurðir sem falla til við slátrun á þessu hausti væri t.d. erfitt að losna við ef við nýttum þær ekki. Meira að segja er orðið erfitt að losna við þurrkaða hausa í fiskvinnslunni. Úr þessu búum við til atvinnu og pening með okkar skinnaframleiðslu. Heildarmyndin er því einföld í mínum huga. Ef við horfum til skamms tíma, þá er útlitið dálítið svart, en bjart ef horft er til lengri tíma. 
 
Okkar framleiðsla er þannig, bæði hvað varðar gæði og litasamsetningu og stærð skinna, að við verðum nálægt toppnum í afurðaverðmætum samanborið við önnur lönd. Þegar á móti blæs er það einfaldlega þannig að þeir eru fyrst slegnir af sem eru að fá lægsta verðið. Það er langt í að við lendum í sömu stöðu og bændur í þeim löndum sem eru hvað verst stödd.“ 
 
Grikkir Kínverjar og Kanadamenn í slæmri stöðu
 
„Þar er fyrst og fremst um Kína og Grikkland að ræða og síðan eru kanadískir bændur líka í skelfilegri stöðu. Þeir lökustu þar hafa verið að fá um 1.200 krónur að meðaltali fyrir sín skinn á meðan við erum að fá um 6.200 krónur. Lakast settu Kanadamennirnir eru því ekki að fá nema sem svarar rúmlega einum þriðja af fóðurkostnaðinum fyrir sín skinn. Svipuð staða er í Grikklandi. 
 
Í Kína er verið að framleiða á allt öðrum forsendum en við gerum. Þeir nota hormón eins og þeim sýnist og geta haft dýrin tilbúin í pelsun miklu fyrr. Slík lyfjanotkun er bönnuð hér hjá okkur og víðast hvar á Vesturlöndum. Kínverjar eru í dag að selja sín skinn á 10 dollara eða minna, eða sem svarar um 1.200 krónum. Það er á sama tíma og vitað er að fóðurkostnaðurinn í Kína er á bilinu 2.500 til 3.000 krónur fyrir hvert dýr. Það liggur því fyrir hrun hjá bændum sem eru að framleiða á þessu verði. Hvort það dugar til að markaðurinn nái jafnvægi er ekki gott að segja, eins hversu hratt það gerist. Við þurfum að sjá fjölda ásetningslæða í heiminum fara úr um 25 milljónum og vel niður fyrir 20 milljónir.“
 
Miklir möguleikar í markaðssetningu
 
Björn segir að mikið óunnið verk sé við markaðssetningu á minkaskinnum. Danir hafi verið í fararbroddi við að reyna að þróa markaðinn í Kína sem hafi enn ekki verið nýttur nema að litlu leyti. Snýst það markaðsstarf m.a. um að efla gæðamat Kínverja á skinnum og hækka þá um leið kröfur kaupenda þar í landi. Það mun síðan hjálpa þeim sem eru að framleiða bestu skinnin. 
 
Hann segir að mikil hefð sé hins vegar í Kína fyrir pelsanotkun og Danirnir séu að vinna að því að beina þeirri hefð og eftirspurn yfir í lúxusvöru. 
 
Björn segir að einnig sé verið að vinna að markaðsmálum í Kákasuslöndum eins og Kasakstan, Úsbekistan og víðar þar sem mikil hefð sé líka fyrir pelsanotkun. 
„Til lengri tíma litið er ekkert sem bendir til annars en að pelsar verði áfram notaðir á þessari hefðbundnu pelsaslóð á norðurhveli jarðar.“
 
-Hvað með Rússland, nú hafa þeir að verulegu leyti horfið af markaðnum sem öflugir kaupendur. Spilar viðskiptabannið þar inni í?
„Nei, það hefur engin bein áhrif á  sölu minkaskinna til þeirra. Málið er miklu fremur peningaleysi Rússa vegna lækkandi olíuverðs. Sem dæmi þá er heilt hérað, við hina þekktu loðdýraborg Kastoríu í Grikklandi, að gjalda fyrir minni umsvif Rússa. Nánast allir íbúarnir á þessu svæði í Grikklandi hafa lifað á því að framleiða minkaskinn og vörur úr þeim fyrir Rússa. Þetta hefur verið tiltölulega ódýr pelsavara, en í dag er þar algjör eyðimörk í skinnaframleiðslunni. Þar er nú hægt að fá flotta pelsa á góðu verði ef menn bara staðgreiða í seðlum. Þeir fást fyrir um einn tíunda af eðlilegu verði og því er þar algjört neyðarástand,“ segir Björn Halldórsson.
 
Hrikaleg staða í Grikklandi
 
Kastoría er þekkt fyrir loðdýraframleiðslu sína sem stunduð hefur verið á svæðinu frá því á miðöldum. Auk þess að vera með umfangsmikla minkarækt, hafa skinnavöruframleiðendur á svæðinu keypt skinn frá Norður-Ameríku og Norðurlöndunum. Samkvæmt frétt NPR fyrr á þessu ári voru menn orðnir mjög óttaslegnir vegna versnandi stöðu greinarinnar á svæðinu. Yfir 60% af 35.000 íbúum Kastoríu höfðu þá haft atvinnu af minkarækt og skinnavinnslu í um 1.500 fyrirtækjum. Undanfarin 20 ár hafa Rússar keypt um 70% framleiðslunnar en eru nú að mestu horfnir úr kaupendahópnum. Ekki var óalgengt að  bestu pelsarnir frá Kastoríu seldust á 10.000 dollara, en verðið nú er jafnvel komið vel niður fyrir 1.000 dollara. 

5 myndir:

Matartengdar örverur 3% af þarmaflórunni
Fréttir 5. nóvember 2024

Matartengdar örverur 3% af þarmaflórunni

Matís tekur þátt í Evrópuverkefni um skráningu örvera í matvælum og framleiðsluu...

Melrakki rannsakaður í krók og kring
Fréttir 4. nóvember 2024

Melrakki rannsakaður í krók og kring

Nú stendur yfir rannsókn á stofngerð íslensku tófunnar og stöðu hennar á þremur ...

Samvinna fremur en samkeppni
Fréttir 4. nóvember 2024

Samvinna fremur en samkeppni

Rétt neðan við afleggjara Landeyjahafnarvegar stendur reisulegt hús með gömlu ís...

Vörður staðinn um lífríki Látrabjargs
Fréttir 1. nóvember 2024

Vörður staðinn um lífríki Látrabjargs

Staðfest hefur verið stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Látrabjarg. Markmið henn...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 1. nóvember 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Verður forstjóri til áramóta
Fréttir 31. október 2024

Verður forstjóri til áramóta

Auður H. Ingólfsdóttir, sem gegnt hefur starfi sviðsstjóra loftslagsmála og hrin...

Samvinna ungra bænda
Fréttir 31. október 2024

Samvinna ungra bænda

Stjórnir ungbændahreyfinga á öllum Norðurlöndunum eiga í stöðugum samskiptum til...

Vilja reisa mannvirki
Fréttir 30. október 2024

Vilja reisa mannvirki

Linde Gas ehf. hefur óskað eftir deiliskipulagsbreytingu á lóð sinni á Hæðarenda...