Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Nokkra yfirmenn John Deere í Evrópu. Annar frá vinstri er Gísli V. Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Íslyft, nýbúinn að skrifa undir samninginn við John Deere.
Nokkra yfirmenn John Deere í Evrópu. Annar frá vinstri er Gísli V. Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Íslyft, nýbúinn að skrifa undir samninginn við John Deere.
Fréttir 22. maí 2017

Íslyft mun byggja útibú fyrir John Deere og Linde á Akureyri

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Það hlýtur að teljast til stórtíðinda þegar jafn rótgróinn risa­framleiðandi á landbúnaðarvélum og John Deere velur sér nýjan umboðsaðila á Íslandi. Ekki síst þar sem John Deere, sem er eitt þekktasta dráttarvélarmerkið á heimsvísu, hefur verið umboðslaust hérlendis í fjölda ára. 
 
Fyrirtækið sem hlaut blessun lögfræðinga og stjórnenda John Deere sem nýr umboðsaðili er Íslyft ehf. í Kópavogi. Það hefur helst verið þekkt fyrir að selja hina þekktu þýsku Linde-lyftara. Bændablaðinu lék forvitni á að vita hvernig það bar til að John Deere samdi við Íslyft um að vera umboðsaðili á Íslandi. 
 
Í raun tilviljun
 
Sigurður Tómasson, sölumaður hjá Íslyft, tók tíðindamanni Bændablaðsins fagnandi þrátt fyrir miklar annir. Hann sagði að tilkoma þessa samstarfs hafi í raun verið tilviljun. 
 
„Steinbock þjónustan/Íslyft er fyrirtæki sem er búið að vera á sömu kennitölu síðan 1972. 
 
Fyrirtækið hóf starfsemi sína í viðgerðum á lyfturum og það hlóð síðan utan á sig. Fljótlega var farið að selja  lyftara og síðan tók Íslyft að sér umboð fyrir hina þýsku Linde-lyftara 2003. Þetta hafa verið mest seldu lyftararnir á Íslandi í 20 ár. Þá tókum við líka að okkur umboð fyrir Merlo sem er m.a. með skotbómulyftara og hefur gengið gríðarlega vel. 
 
Við höfum meðal annars verið að selja þessi tæki til útgerða, fiskvinnslu, álvera og sérhæfð tæki fyrir vöruhús. Þar er bæði um að ræða rafmagns- og dísillyftara.  
 
Hin síðar ár höfum við svo verið að fara meira inn á landbúnaðarmarkaðinn með Merlo og Pixy liðléttinga og nú einnig með John Deere.“
 
Sigurður segir að erlendis tíðkist mikið að bændur noti skotbómulyftara í sínum rekstri. Nokkuð er orðið um slíkt hérlendis líka og hefur farið vaxandi og þar kemur Merlo inn í dæmið. 
 
Náðu tengingu við bændur í gegnum sölu skotbómulyftara
 
„Svo er Merlo líka með það sem þeir kalla Multifarmer, sem er stór vél með þrítengibeisli, aflúrtaki og öllu sem þörf er á. Á síðasta ári seldum við einar 14 vélar af þeirri gerð. 
 
Árið 2015 fórum við að selja Pixie liðléttinga sem hefur gengið mjög vel. Á síðasta ári seldum við 22 slíka. Þannig höfum við verið að fikra okkur inn á bændamarkaðinn,“ segir Sigurður.
 
Áhuginn jókst eftir heimsókn á sýningu
 
„Við ætluðum svo sem ekkert að fara út í sölu dráttarvéla og töldum okkur góða með dráttarvélaútgáfuna af Merlo. Við fórum svo á Eima landbúnaðarsýninguna í Bologna á Ítalíu 2016 í þeim tilgangi að hitta  Merlo og Pixy. 
 
Fyrir þessa sýningu var John Deere búinn að setja sig í samband við okkur varðandi viðræður og lá því beint við að kíkja á básinn hjá þeim á sýningunni.
 
Það má með sanni segja að áhugi okkar hafi stóraukist þegar við sáum þennan glæsilega sýningarsal þar sem þeir sýndu stóran hluta af sinni framleiðslu.
 
Þeir ítrökuðu þar að verið væri að leita að umboðsaðila fyrir John Deere á Íslandi, þar sem enginn umboðsaðili hafi verið fyrir merkið á landinu síðan 2008. Síðan hafi ekki verið seld nein ný vél beint frá John Deere til Íslands, einungis vélar í gegnum erlenda milliliði.  
 
Eftir þetta spjall fórum við heim. Nokkru seinna höfðu John Deere-menn aftur samband við okkur og spurðu okkur hvort við vildum ekki skila inn umsókn, en þrjú fyrirtæki á Íslandi voru þá búin að sækja um að gerast umboðsaðilar. Þeir hafi verið að skoða málið og litist vel á okkur eftir spjallið á sýningunni.  Við vorum svolítið hissa og greinilegt að þeir voru búnir að skoða okkar feril og fjárhagsstöðu mjög vel. Eftir að hafa rætt málið ákváðum við að taka þátt í þessum viðræðum. Við bjuggumst svo sem ekkert við að verða fyrir valinu, en vissum heldur ekkert hver hin fyrirtækin voru. 
 
Í framhaldinu erum við boðaðir út á fund og síðan fleiri fundi. John Deere er amerískt fyrirtæki og mjög strangt í öllu sem þeir gera og setja gríðarlegar kröfur á sína umboðsaðila. Þar þarf allt að vera 100% og eiginfjárstaða umboðsaðila að vera mjög góð.“
 
Þekktu vel til Linde
 
„Aðalverksmiðja John Deere utan Bandaríkjanna er í Mannheim í Þýskalandi. Það er að finna stærstu verksmiðju utan Bandaríkjanna en þaðan fara út um 240 vélar á dag. Verksmiðjur Linde-lyftaranna eru þar ekki langt frá, eða í Aschaffenburg, og eru talsverð samskipti milli fyrirtækjanna.  John Deere notar t.d. eingöngu Linde-lyftara í sínum verksmiðjum og nokkrir umboðsaðilar John Deere eru einnig Linde-umboðsaðilar. Teljum við að þetta atriði hafi styrkt okkur í samningaviðræðunum.
 
Það sem aðskilur John Deere frá flestum öðrum dráttar­véla­framleiðendum er að þeir framleiða alla hluti sjálfir en kaupa ekki t.d. hús, ámoksturstæki, mótora eða gírskiptingar af öðrum,“ segir Sigurður.
 
John Deere lætur þýða alla bæklinga á íslensku
 
Sigurður nefnir líka áhugaverðan punkt hvernig stjórnendur John Deere vinna.
Þrátt fyrir að þess sé ekki krafist hér á landi að eigandahandbók og bæklingar séu á íslensku þá afhendir John Deere engin tæki  fyrr en búið er að þýða allar handbækur.
 
 Hefur Íslyft ekkert þurft að koma að því máli en þetta gerir John Deere allt á sinn kostnað.
„Við fáum bara ekki afhenta nýja vél til landsins nema að það sé búið að þýða bæklinga,“ segir Sigurður.  
 
Misstu trú á Íslandi en snerist hugur
 
Sigurður segir að vissulega sé Ísland örmarkaður þegar kemur að dráttarvélum. Eftir að hafa verið umboðslausir frá 2008 hafi áhugi á Íslandi smátt og smátt aukist enda er John Deere markaðsleiðandi í flestum löndum Skandinavíu.
 
Eftir að þrjú íslensk fyrirtæki  höfðu lýst áhuga á að taka við umboðinu ákváðu stjórnendur John Deere að reyna aftur. Niðurstaðan var svo að samið var við Íslyft. 
 
Sigurður segir að það hafi reyndar komið þeim hjá Íslyft á óvart að hér væru skráðar um 330 dráttarvélar af þessari tegund.  
 
Koma fram við Íslendinga eins og aðra fulltrúa milljónaþjóða
 
John Deere er elsti dráttarvélaframleiðandi í heimi, en það var stofnað 1837. Sigurður sagði að það hafi komið þeim Íslyftsmönnum á óvart að hjá John Deere sé komið fram við íslenska umboðsmenn á þessum örmarkaði eins og alla aðra umboðsmenn þeirra hjá milljónaþjóðunum. 
 
„Þeir sendu hingað fjölda manna, hvern á sínu sviði,  til að fara yfir alla þætti. Þeir voru boðnir og búnir að aðstoða okkur á allan hátt og litu greinilega ekki á okkur sem fulltrúa smáþjóðar þótt við séum það. Á móti gera þeir líka miklar kröfur.“  
 
Íslyft með útibú á Akureyri fyrir John Deere og Linde
 
„Til að standa okkur í þessu erum við nú að fara að byggja á Akureyri yfir starfsemina, en þar erum við búnir að fá lóð og við vonum að húsið verði komið upp öðru hvorum megin við næstu áramót. Þessi viðbót er löngu orðin tímabær enda höfum við fengið fjölmargar áskoranir um að koma norður.
 
Við erum þegar búnir að ráða mann til að stýra okkar starfsemi á Akureyri en það er Kristján Skjóldal, sem var með lyftaraþjónustu Norðurlands. Til að byrja með höfum við komið okkur þar fyrir í leiguhúsnæði. 
 
Akureyri liggur vel við til frekari uppbyggingar Íslyft þar sem við erum þegar með mikil viðskipti þar við stór sjávarútvegsfyrirtæki, skipafélög og önnur flutningafyrirtæki.
 
Þar stefnum við á að vera með 5–6 nýjar vélar á lager af 5 og 6 línunum, sem eru frá 75 til 195 hestöfl. Svo verðum við líka með golfvallartæki frá John Deere og höfum þegar selt fjórar nýjar vélar. Á því sviði er John Deere mjög sterkt.
 
Þrátt fyrir að það sé frekar þröngt um okkur í Kópavoginum munum við einnig vera með góðan lager af dráttarvélum og varahlutum auk lyftaranna og viðgerðarþjónustu eins og verið hefur. 
 
Við erum þegar búnir að byggja upp stóran varahlutalager frá John Deere og  munum við vera með á lager um 80% af öllum helstu varahlutum sem búast má við að þurfi að nota hverju sinni.  
 
Öll okkar viðskipti fara fram í gegnum verksmiðju John Deere í Þýskalandi.
Við erum þegar búnir að semja við verkstæði allt í kringum landið til að annast fyrir okkur þjónustu við John Deere. Þar eru vanir menn, bæði í viðgerðum á John Deere og öðrum tegundum. Svo hafa verið að fara menn frá okkur á námskeið í viðgerðum hjá John Deere og þrír menn af þessum þjónustuverkstæðum hafa þegar farið á slík námskeið.“
 
Rafvæðingin að ná fótfestu
 
Eins og áður hefur komið fram í Bændablaðinu hefur John Deere þegar kynnt stóra rafknúna dráttarvél. Sigurður segir allt benda til að rafdrifinir lyftarar búnir lithium rafhlöðum muni líka smám saman taka yfir hlutverk dísillyftaranna.
 
Íslyft hafi þegar töluverða reynslu í sölu lítilla rafknúinna pall- og þjónustubíla frá Goupil í Frakklandi sem framleitt hafi slíka bíla frá 1996. Hægt er að skrá þessa bíla sem almenn ökutæki eða sem vinnuvélar. Þessir bílar komast um 100 km á hleðslunni og ná allt að 50 km hraða.
 
Einnig er John Deere  eitt stærsta og þekktasta fyrirtæki í framleiðslu á tækjum fyrir golfvelli og eru vörur frá þeim í þjónustu við fjölda golfvalla hér á landi.
 
Hefur fyrirtækið t.d. verið einn helsti styrktaraðili PGA-mótaraðarinnar í Bandaríkjunum síðastliðin 20 ár. 

Skylt efni: John Deere | Íslyft

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...