Jafnvægisverð 185 krónur á lítrann
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu bárust 227 gild tilboð um kaup og sölu á tilboðsmarkaði fyrir greiðslumark mjólkur þann 1. apríl 2020. Jafnvægisverð á markaði er 185 krónur á hvern lítra. Það er sama verð og ráðherra ákvað að yrði hámarksverð.
Í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kemur fram að ráðherra hafi ákveðið það að tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga. Skoða þurfi myndun jafnvægisverðs í þessu ljósi, þar sem tilboð tóku nær undantekningarlaust mið af settu hámarksverði.
Þetta er fyrsti markaðurinn með greiðslumark sem samið var um við endurskoðuðun á samstarfssamningi um nautgriparækt milli ríkis og bænda á síðasta ári.
Tilboð voru send með rafrænum hætti í gegnum AFURÐ sem er greiðslukerfi landbúnaðarins og liggur eftirfarandi niðurstaða fyrir:
- Fjöldi gildra tilboða um sölu á greiðslumarki mjólkur voru 9
- Fjöldi gildra tilboða um kaup voru 218
- Fjöldi kauptilboða undir jafnvægisverði voru 4.
- Greiðslumark sem boðið var fram (sölutilboð) voru alls 586.046 lítrar
- Greiðslumark sem óskað var eftir (kauptilboð) voru 9.836.190 lítrar
- Greiðslumark sem viðskipti ná til eftir opnun tilboða (jafnvægismagn) voru 585.981lítrar að andvirði 108.406.485 kr.
„Línuritið sýnir niðurstöðu tilboðsmarkaðar þann 1. apríl 2020. Á myndinni er sýnd blá lína framboðs og rauð lína eftirspurnar. Jafnvægisverð sem fram kom á markaðinum reyndist krónur 185 kr./l. eins og áður segir.
Þeir sem lögðu inn tilboð um sölu á greiðslumarki á verði 185 kr./l. eða lægra selja nú greiðslumark sitt. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið , mun nú senda öllum tilboðsgjöfum upplýsingar um afgreiðslu tilboða og gera breytingar á skráningu greiðslumarks þegar uppgjör hefur farið fram. Upplýsingar um greiðslumark sitt geta bændur nálgast í AFURÐ og á Bændatorginu,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.