Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Grímsstaðaket selur mest af lambakjöti en Jóhanna Sjöfn Guðmundsdóttir, sem hér sést við kjötsögun, segir vera vaxandi markað fyrir ærkjöt og sauðakjöt, eða kjöt af veturgömlu. Einnig folaldakjöt og hrossakjöt.
Grímsstaðaket selur mest af lambakjöti en Jóhanna Sjöfn Guðmundsdóttir, sem hér sést við kjötsögun, segir vera vaxandi markað fyrir ærkjöt og sauðakjöt, eða kjöt af veturgömlu. Einnig folaldakjöt og hrossakjöt.
Mynd / Aðsend
Fréttir 15. desember 2023

Jólahangikjötið rýkur út

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Miklar annir eru nú hjá Grímsstaðaketi og hangikjötslærin fjúka út gegnum Beint frá býli. Eigendurna grunaði ekki hversu hröð uppbyggingin ætti eftir að verða þegar þau hófust handa.

Á Grímsstöðum í Reykholtsdal er rekið fjár- og hrossabú. Vetrarfóðraðar ær eru þar 350 talsins og hrossin 90. Árið 2020 settu Grímsstaðabændur, hjónin Jóhanna Sjöfn Guðmundsdóttir og Hörður Guðmundsson, á fót kjötvinnslu.

„Á þeim tíma sem við opnuðum kjötvinnsluna vorum við nær eingöngu að vinna okkar kjöt og lítið fyrir aðra,“ segir Jóhanna. „Þegar við byrjuðum á kjötvinnslunni var komið í umræðuna að leyfa svokölluð heimasláturhús og það var alltaf planið að hoppa á þann vagn þegar það yrði leyft. Okkur grunaði þó aldrei að það yrði strax á öðru starfsárinu okkar!

Við ákváðum að það væri ekki eftir neinu að bíða og fórum strax að stækka húsið þar sem kjötvinnslan er, til að koma fyrir sláturhúsi. Slátruðum fyrstu lömbunum þar í október 2021.“

Eftirspurn eftir folalda- og hrossakjöti eykst

Hún segir þau síðan hafa slátrað öllum þeim lömbum sem þau selja gegnum Beint frá býli þar heima.

„Löggiltu eldhúsi var svo bætt við haustið 2022, eftir að matarsmiðju, sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) stóðu að og var með starfsemi í Borgarnesi, var lokað,“ heldur Jóhanna áfram. „Þá bauðst mér að fá tækin frá þeim. Við gerðum samning við SSV um tækin og geta nú framleiðendur leigt af mér aðstöðuna fyrir sína framleiðslu.“

Þau vinna mest með lambakjöt en Jóhanna segir jafnframt vera aukinn markað fyrir ærkjöt og sauðakjöt, eða kjöt af veturgömlu. Eins sé vaxandi markaður með folaldakjöt og hrossakjöt. Lauslega reiknað sé framleiðslan hjá þeim 50% lambakjöt, 30% ærkjöt og 20% folalda- og hrossakjöt.

„Við höfum vaxið á hverju ári,“ segir Jóhanna. „Í ár slátruðum við 250 lömbum og 90 fullorðnu hér, og frystirinn er að tæmast. Það er því ljóst að ef við ætlum að geta verið með lamba- og ærkjöt í sölu allt árið þá þurfum við að stækka aðstöðuna hjá okkur enn meira til að geta vaxið frekar.“

Um það hvort Grímsstaðaket sé farið að framleiða eitthvað í löggilta eldhúsinu segir Jóhanna það ekki hafa verið mikið til þessa.

„Ég sé fram á að geta nýtt þá aðstöðu frekar í vetur. Það stendur til að fara í framleiðslu á þurrkuðu ær- og hrossakjöti, og fyrir það hef ég fengið styrk frá SSV til að geta staðið vel að þróun á þeirri vöru. Einnig ætlum við að framleiða kæfu, kjötfars og bjúgu,“ segir hún.

Of fáir dagar og stuttir

Þau eru innan vébanda Beint frá býli. „Við seljum allt okkar kjöt sjálf, mest fer í gegnum Facebook- síðu Grímsstaðakets og svo hefur fólk líka samband sem hefur séð okkur á síðu Beint frá býli. Margir koma til okkar og sækja sínar vörur en við erum líka að fara með til fólks sjálf og mest í Reykjavík og á Akranes. Þetta gengur ljómandi vel og virkilega gaman að hitta þá sem eru að kaupa af okkur vörur.“

Hún segir kostinn við þessa aðferðafræði tvímælalaust þann að vera í beinum samskiptum við viðskiptavininn. „Gallinn er hins vegar sá að dagarnir eru bara ekki nógu langir á haustin og haustið sjálft líður allt of fljótt! Það er mikið að gera þessar vikur sem slátrun, vinnsla og afhending fer fram.“

Þau hjónin eru einu föstu starfsmenn Grímsstaðakets. „En þegar við erum að slátra erum við sex meðan á því stendur og við vinnslu og úrbeiningu oftast þrjú,“ segir Jóhanna.

Að hrökkva eða stökkva

„Þetta hefur allt gengið mjög vel, og eiginlega miklu betur en við þorðum að vona,“ heldur Jóhanna áfram.

„Samt sem áður er reksturinn okkar orðinn það stór að við erum farin að velta fyrir okkur að stækka sláturleyfið okkar í næsta flokk,“ segir hún. Það sé til að geta slátrað fleira fé á dag því að í reglugerð fyrir örsláturhús sé eingöngu leyft að slátra 30 gripum hvern dag.

„Með því að verða stærri eigum við möguleika á því að taka að okkur slátrun fyrir aðra hér á svæðinu og auka rekstrartekjur fyrirtækisins með því. Eins og staðan er nú höfum við ekki tíma til þess, vegna takmarkana sem eru á fjölda, en líka vegna plássleysis á kæli þar sem við látum allt kjöt hanga í fimm daga áður en við setjum í frost,“ bætir hún við.

„Því að stækka fylgja líka aukin útgjöld varðandi leyfi og þjónustu dýralækna, og núna eru úrgangsmál sveitarfélaganna í skoðun svo það er ekki víst að það verði rekstrargrundvöllur fyrir stækkun,“ segir Jóhanna.

Úthlutun aflamarks
Fréttir 18. júlí 2024

Úthlutun aflamarks

Nýverið fundaði stjórn Byggðastofnunar vegna fyrirhugaðrar úthlutunar sértæks by...

Lóga þarf hrúti
Fréttir 18. júlí 2024

Lóga þarf hrúti

Bóndi þarf að afhenda Matvælastofnun ákveðinn hrút til að kanna útbreiðslu á rið...

Árangurinn kom á óvart
Fréttir 18. júlí 2024

Árangurinn kom á óvart

Fjölskyldan í Strandarhjáleigu í Rangárþingi eystra átti góðu gengi að fagna á n...

Mögulegur milliliður í kjötinnflutningi
Fréttir 17. júlí 2024

Mögulegur milliliður í kjötinnflutningi

Ýmislegt bendir til þess að fyrirtækið Háihólmi sé milliliður í innflutningi Kau...

Hestamennska gefur lífinu lit
Fréttir 17. júlí 2024

Hestamennska gefur lífinu lit

Það gustaði um hross kennd við Vöðla í Rangárþingi ytra á Landsmóti hestamanna.

Skrifað undir landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu
Fréttir 17. júlí 2024

Skrifað undir landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu

Skrifað var undir nýja landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu í Hörpu á mánudag...

Ársgamall kjúklingur enn í verslunum
Fréttir 16. júlí 2024

Ársgamall kjúklingur enn í verslunum

Þrátt fyrir að meira en ár er liðið frá síðustu sendingu kjúklingakjöts frá Úkra...

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn
Fréttir 16. júlí 2024

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn

Olil Amble og Bergur Jónsson á Syðri-Gegnishólum hafa náð einstökum árangri í hr...