Hestamennska gefur lífinu lit
Það gustaði um hross kennd við Vöðla í Rangárþingi ytra á Landsmóti hestamanna.
Sex hross úr ræktun þeirra Margeirs Þorgeirssonar og Ástríðar Lilju Guðjónsdóttur komu fram í ýmsum flokkum. Þar á meðal voru fjórir gæðingar undan heiðursverðlaunahryssu þeirra hjóna, Nótt frá Oddsstöðum I.
Ræktunarsaga hjónanna hófst árið 1996. „Við eignumst Njólu frá Oddsstöðum undir Fáfni frá Laugarvatni og Nótt frá Oddsstöðum og er hún grunnurinn að allri okkar ræktun. Fyrstu tvær dætur hennar, Dimma og Nótt, fóru beint í fyrstu verðlaun og við enduðum með fjórar merar undan henni sem leggja því grunninn að okkar ræktun.“
Afkomendur Nóttar eru orðin 82 talsins og af þeim hafa átján hlotið fyrstu verðlaun í kynbótadómi.
Einnar merar ræktun
Þetta er því einnar merar ræktun segir Ástríður. Nótt er fædd árið 1997 og er orðin 27 vetra. Hún hlaut sinn hæsta kynbótadóm árið 2003, þá 8,44 í aðaleinkunn, þar á meðal einkunnina 9,5 fyrir skeið. Hún keppti með Olil Amble í A-flokki gæðinga á Landsmóti árið 2006 og tók þá þátt í B-úrslitum og endaði í fimmta sæti. Elva Björk, dóttir Margeirs og Ástríðar, tók svo þátt í Íslandsmóti yngri flokka það sama ár á Nótt og sigraði þá keppni í gæðingaskeiði og var í öðru sæti í fimmgangi.
Nótt hefur eignast ellefu afkvæmi og voru fjórir synir hennar á Landsmóti í ár. Sá yngsti, Svartur, undan Kveik frá Stangarlæk, var sýndur í fjögurra vetra flokki stóðhesta og varð hann í 5. sæti með 8,22 í aðaleinkunn. Gauti, undan Glað frá Prestbakka, var sýndur í flokki sex vetra stóðhesta og hlaut þar 8,52 í aðaleinkunn.
Snædís Þorgeirsdóttir, tíu ára gömul sonardóttir hjónanna, keppti í barnaflokki á Nirði, undan Natan frá Ketilsstöðum og Herdís Björg Jóhannsdóttir keppti á Stálasyninum Skorra í fimmgangi.
Sameinandi lífsstíll
Margeir og Ástríður fóru út í hrossarækt fyrir fjölskylduna. „Við ætluðum að rækta keppnishross. Við eigum fjögur börn og þau eru með misjafnar skoðanir og vildu hvert sína týpuna af hestum. Sum vildu góða fjórgangshesta á hringvelli en aðrir hesta sem skeiðuðu hratt,“ segir Ástríður.
Hestamennskan og hrossaræktin er því sannkallaður fjölskyldulífsstíll, því nú hafa tíu barnabörn bæst í hópinn og hafa þau erft áhugann. Ástríður segir þennan fjölskyldulífsstíl sameinandi. „Við getum öll talað saman um hlutina, það er svo mikilvægt að geta átt skemmtilegar samræður við barnabörnin.“ Margeir bætir því einnig við að fjölbreytileiki innan hestamennskunnar verði til þess að allir fjölskyldumeðlimir geti verið með og notið.
„Hvort sem það er að keppa, vera í hestaferðum eða rækta, svo ekki sé talað um alla útiveruna. Þetta gefur lífinu lit.“
Skiptir máli að börn fái hross við hæfi
„Það skiptir mestu máli fyrir foreldra barna sem hafa áhuga á hestum að útvega þeim hross sem þau geta riðið og maður getur treyst,“ bendir Ástríður á.
Undir það tekur Margeir. „Börn verða að fá hesta sem eru passlega stór númer fyrir þau. Síðar geta þau svo fært sig á meira krefjandi hross. Meginmálið er að börnin verði ekki hrædd.“
Þau segjast því hafa verið einstaklega heppin að hafa getað útvegað fjölskyldu sinni góð hross í gegnum ræktun út af Nótt. „Hrossin eru léttbyggð og svakalega geðgóð. Í þeim býr mikil ganghæfni og þau eru alltaf traustsins verð,“ segir Ástríður.
Hjónin halda að jafnaði um þremur hryssum en hafa þó þá reglu að hrossaeignin fari aldrei yfir þrjátíu hross. „Við erum með þrjátíu hrossa kvóta. Ef þau verða fleiri þá seljum við eitthvað. Okkur finnst bara nóg að hugsa um þrjátíu hross,“ segir Margeir.
Landsmót eru toppurinn
Landsmót hestamanna eru mikil uppskeruhátíð fyrir hrossaræktendur og hafa þau hjón tekið þátt í þeim ófáum. „Ég reyni alltaf að fara með fulla kerru á Landsmót, þó ég tilgreini svosem aldrei hversu stór kerran er. Ég hef til dæmis útvegað mér eins hesta kerru og fyllt hana,“ segir Margeir hlæjandi. Landsmótið á Melgerðismelum árið 1998 er honum eftirminnilegt. „Þá sigraði dóttir okkar, Elva Björk, barnaflokkinn á hesti sem við tömdum frá grunni. Sonur okkar var þá einnig í 5. sæti í 250 metra skeiði.“