Kæra hótanir
Tveir einstaklingar hafa verið kærðir til lögreglu fyrir hótanir í garð eftirlitsmanns Matvælastofnunar (MAST).
Málin tvö eru óskyld atvik og áttu sér stað við eftirlit á Suðurlandi fyrr á þessu ári, að því er fram kemur í tilkynningu frá MAST. Báðir einstaklingarnir eru búfjáreigendur.
Samkvæmt upplýsingum frá Hrönn Ólínu Jörundsdóttur, forstjóra MAST, er stofnunin skýr í viðbrögðum þegar mál af þessu tagi koma upp. Í almennum hegningarlögum segi að hver sá sem ræðst með hótunum um ofbeldi á opinberan starfmann þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu, eða út af því, skuli sæta refsingu.
Stofnunin taki það því mjög alvarlega ef slík tilfelli koma upp og þau séu umsvifalaust kærð til lögreglu.
Þetta sé ekki í fyrsta sinn sem stofnunin kærir búfjáreigendur vegna framkomu gagnvart eftirlitsmönnum en frá árinu 2020 hafa fimm slík mál komið upp.