Kanna framleiðslu á grænu metanóli
Landsvirkjun og þýska fjár- festingafélagið PCC SE hafa ákveðið að rannsaka möguleika þess að fanga og nýta útblástur frá kísilmálmsverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík til framleiðslu á grænu metanóli.
Grænt metanól og annað rafeldsneyti mun koma í stað jarðefnaeldsneytis í skipum.
Fjöldi fjárfesta og fyrirtækja veðjar nú á að grænt metanól geti spilað lykilhlutverk í orkuskiptum skipaflotans. Framleiðsla á grænu metanóli krefst endurnýjanlegra kolefnagjafa frá kísilverksmiðju PCC á Íslandi og endurnýjanlegrar orku frá aflstöðvum Landsvirkjunar.
Ferlið við myndun metanóls kallar á inntak hreins koltvísýrings og vetnis frá rafgreiningu vatns, þar sem eina aukaafurðin er súrefni og vatn. „Að umbreyta koltvísýringi úr úrgangi í verðmæta auðlind með því að nýta og framleiða eldsneyti fyrir iðnað mun hjálpa til við að draga úr loftslagsbreytingum og hraða umskiptum í hringrásarhagkerfi,“ segir í tilkynningu frá Landsvirkjun.