Bændur óttast að þrýst verði á tollfrjálsan innflutning á kartöflum í ljósi birgðastöðunnar.
Bændur óttast að þrýst verði á tollfrjálsan innflutning á kartöflum í ljósi birgðastöðunnar.
Mynd / Úr safni
Fréttir 24. október 2024

Kartöflubirgðir litlar í landinu

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Eins og greint var frá í síðasta Bændablaði var uppskerubrestur hjá kartöflubændum í Eyjafirði. Af þeim sökum eru birgðirnar minni í landinu, en uppskeran var slök víðar.

Sigurbjartur Pálsson, kartöflubóndi á Skarði í Þykkvabæ, segir augljóst að það sé minna til af kartöflum í landinu en í fyrra. Langstærstur hluti kartöfluuppskerunnar kemur úr Þykkvabænum, en miðað við það sem Sigurbjartur hefur heyrt frá bændum í kringum sig er uppskera Þykkbæinga nálægt 70 prósent af því sem var í fyrra, sem var meðalár.

Þá dugði uppskeran svo að segja alveg þangað til bændur hófu upptöku að nýju í sumar.

Mun ekki birtast sem vöntun

Sigurbjartur bendir á að þrátt fyrir minni uppskeru sé ekki víst að hún birtist neytendum sem vöntun.

„Við höfum í samstarfi við kartöfluverksmiðjuna möguleika á því að stýra því hvert kartöflurnar fara,“ segir hann. Í þessu árferði noti verksmiðjan innflutt hráefni á meðan hærra hlutfall af innlendu framleiðslunni fer ferskt á neytendamarkað.

„Gagnvart venjulegu fólki sem fer út í búð og kaupir sér poka af kartöflum er ekkert sjálfgefið að þetta skipti máli.“ Afurðirnar úr kartöfluverksmiðjunni eru ýmsir réttir og forsoðnar kartöflur sem fást í verslunum eða fara í mötuneyti og á veitingastaði.

Kemur niður á bændum

Jón Helgi Helgason segir að þrátt fyrir að neytendur muni ekki verða varir við að kartöflubirgðir í landinu séu litlar muni þetta koma niður á framleiðendunum. Hann er stjórnarmaður í deild garðyrkjubænda hjá Bændasamtökum Íslands og stundar kartöflurækt á Þórustöðum í Eyjafirði.

Hann gerir ráð fyrir að kartöflur norðan heiða verði að öllum líkindum búnar snemma en önnur landsvæði ættu að geta fyllt í skarðið. Þetta ójafnvægi kallar á að innflutningsaðilar setji pressu á að tollaglugginn, það er tollfrjáls innflutningur á kartöflum, verði opinn í ljósi birgðastöðu.

Það komi niður á bændum sem vilji sjá neytendum fyrir ferskum kartöflum í verslunum.

„Þá fara verslanir að sperra innkaupaverðið niður til bænda sem þurfa að fara að keppa við innflutning tollalaust,“ segir Jón Helgi. Hann bendir á að smásöluverð á kartöflum hafi ekki lækkað þó svo að tollurinn sé felldur niður.

Vantar hvata til að rækta meira

Efld tollvernd yrði að hans mati til þess að hvetja bændur til að auka ræktun. Eins og staðan er núna sjá þeir ekki hag sinn í að stækka við sig með það að markmiði að eiga nægar birgðir allt árið þar sem þeir óttist alltaf að þurfa að keppa við tollfrjálsar erlendar kartöflur sem eru ódýrari fyrir verslanirnar í innkaupum. „Framboð og eftirspurn tala ekki saman í þessu. Það hækkar ekkert afurðaverðið þó svo að það sé lítið framboð,“ segir Jón Helgi.

Hann bendir á að kartöflubændur hafi lagt í sama kostnað á hvern hektara, jafnvel aðeins meira til þess að reyna að hraða vextinum. Frostanætur í byrjun september hjálpi ekki til, en tjónið af þeim völdum eigi eftir að koma í ljós þegar kartöflurnar blotna upp og skemma út frá sér í geymslu.

„Þetta veður og þessi uppskerubrestur er að valda því að það er tap á rekstri flestra búa hérna norðan heiða. Það er engin trygging sem tekur á þessu tjóni og verða bændur bara að taka þetta á sig. Einhverjir bændur þurfa jafnvel að huga að því að leita sér að vinnu til að brúa bilið,“ segir Jón Helgi.

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...