Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Stóra-Hildisey II í Landeyjum. Íbúðarhús og útihús hægra megin á myndinni tilheyra Stóru-Hildisey I sem hefur líka verið til sölu.
Stóra-Hildisey II í Landeyjum. Íbúðarhús og útihús hægra megin á myndinni tilheyra Stóru-Hildisey I sem hefur líka verið til sölu.
Mynd / HKr.
Fréttir 30. maí 2022

Kaupa Stóru-Hildisey II og flytja kýr og kvóta suður

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Jónatan Magnússon og Una Lára Waage, sem hafa verið með búrekstur á Hóli í Önundarfirði, eru þessa dagana að ganga frá kaupum á Stóru-Hildisey II í Landeyjum af Jóhanni Nikulássyni og Sigrúnu Hildi Ragnarsdóttur. Mun Jónatan og fjölskylda í framhaldinu flytja allar sínar mjólkurkýr suður ásamt mjólkurkvóta.

Jónatan sagði í samtali við Bændablaðið að svona búferla­flutningar væru alls ekki sársauka­lausir og að í svona ákvarðanatöku fælust bæði plúsar og mínusar,
en þau hjón teldu kostina syðra þó vega þyngra.

Jónatan Magnússon og Una Lára Waage, bændur á Hóli í Firði í Tungudal í Önundarfirði, tóku við rekstrinum í Stóru-HIldisey II í Landeyjum þann 1. maí síðastliðinn. Til að byrja með leigja þau reksturinn á meðan unnið er að frágangi á kaupum. Jónatan sér mikla möguleika í flutningnum á nýjan stað þar sem hann verður með mun meiri mjólkurkvóta og 150 til 160 kýr.

„Maður er búinn að vera að skoða þessi mál í allan vetur og svo eru sumrin fyrir vestan engu lík, en veturnir geta hins vegar verið alveg svakalegir. Það hjálpar líka til að vorið byrjaði ekki með neinum glæsibrag fyrir vestan að þessu sinni. Þá er Una Lára að sunnan þótt hún sé ættuð frá Bíldudal og Patreksfirði. Það blandast því miklar tilfinningar inn í þetta allt saman,“ segir Jónatan.

Verður með yfir milljón lítra kvóta og yfir 150 kýr á nýjum stað

„Ég er búinn að vera með á bilinu 80 til 90 kýr á Hóli og 465.000 lítra mjólkurkvóta. Við flutninginn suður verðum við með samanlagt 1.011.000 lítra kvóta og um 150 til 160 kýr.

Þá var ég ekki með nema 18 hektara tún heima í Önundarfirði og leigði tíu til tólf jarðir að auki. Í Stóru Hildisey II eru 100 hektarar í ræktun og möguleiki að auka ræktun upp í 150 hektara.“

Jónatan segir að húsakostur sé góður á nýja staðnum. Og ábúendur í Stóru-Hildisey II hafi byggt upp húsakost þar sem hugsað hefur verið til framtíðar og því sé tiltölulega auðvelt að sameina búreksturinn.

Kaupverðið á Stóru-Hildisey er í kringum 400 milljónir króna og fer Hóll upp í kaupin. Jónatan segir að forsendan fyrir því að slík kaup gangi upp sé að hann geti flutt kýr og kvóta með sér að vestan. „Þetta er ansi stór biti og maður reynir að halda niðri öllum kostnaði við breytingar.

Ég hefði vissulega getað selt kvótann og nýtt peninginn af því, en flutningur á kvótanum og mjólkurkúm gerir þetta mun vænlegra.“

Frestun á afgreiðslu vegna forkaupsréttar

Til stóð að ganga frá kaupunum 1. maí, en ákvæði í afsali Hóls, sem þau keyptu af foreldrum Jónatans, kvað á um forkaupsrétt ríkisins á jörðinni sem tafið hefur málin um nokkrar vikur. Vonaðist hann til að hægt yrði að ljúka málinu fyrir lok maí. Ekki stendur til að Jóhann og Hildur verði með hefðbundinn búskap á Hóli þótt jörðin fylgi með í kaupum Jónatans og fjölskyldu á Stóru-Hildisey II.

Tók við rekstrinum 1. maí

„Þar sem ekki tókst að ganga formlega frá kaupunum 1. maí þá varð það að samkomulagi milli okkar Jóhanns að ég leigði jörðina af honum þar til hægt væri að ganga frá kaupunum. Við erum að vonast til að þetta klárist fyrir maílok, en það kemur í ljós.

Ég tók því við rekstr­inum í Stóru-Hildisey II þann 1. maí og er búinn að vera að mjólka þar síðan. Þá er ég með öflugan vinnumann, sem sinnir búinu fyrir mig á Hóli þar til við getum endanlega flutt. Það er Englendingur sem er búinn að vera hjá mér í tvö og hálft ár.“

Jónatan Magnússon er mjög sáttur við allan aðbúnað í fjósinu í Stóru-Hildisey II. Þar er nú mjaltagryfja, en hann hyggst setja þar upp þrjá mjaltaþjóna. Mynd / HKr. 

Gripirnir verða fluttir í rólegheitum

Jónatan sótti um hjá MAST í síðustu viku að fá að flytja gripina á milli svæða og vonaðist hann til að geta hafið þá flutninga í þessari viku.

„Ég ætla að flytja gripina í rólegheitunum og vera með fáa gripi á hverjum bíl, kannski 15 kýr, og fara eina ferð á dag. Það er miklu meira virði fyrir mig að reyna að halda nyt í kúnum heldur en að flytja mikinn fjölda í einu í færri ferðum. Þá er líka breyting fyrir kýrnar að fara úr mjaltaþjónum í mjaltabás til að byrja með.“
Á Hóli var Jónatan með tvo Delaval mjaltaþjóna, annan frá 2003 og hinn um þriggja ára gamlan.

Fyrir er í Stóru-Hildisey II lítill mjaltabás. Sagðist Jónatan ætla að breyta mjaltaaðstöðunni á nýja staðnum og setja þar upp þrjá mjaltaþjóna, tvo sem voru fyrir vestan og einn til viðbótar.

„Ég flyt inn Delaval róbot af gömlu gerðinni frá Írlandi, en algjörlega ónotaðan og enn í kassanum. Það vildi enginn kaupa hann svo ég fékk hann á mjög góðu verði,“ sagði Jónatan.

„Ég fann þennan um páskana á síðu Delaval eigenda úti í löndum og sendi umsvifalaust tölvupóst. Fyrri róbótinn sem ég var með fyrir vestan var keyptur með svipuðum hætti. Hann var búinn að standa í gámi norður á Akureyri í tvö ár þar sem enginn vildi kaupa hann af því að það vor kom nýrri og fullkomnari gerð. Ég fékk hann því með góðum afslætti. Svo fæ ég annan notaðan róbót til viðbótar úr Eyjafirði.

Ef ég hefði keypt nýju týpuna, sem er 10% afkastameiri, og verið bara með tvo mjaltaþjóna, þá hefði það kostað 40-50 milljónir króna,“ segir Jónatan Magnússon. 

Horfir til virkjunarmöguleika á Hóli

Jóhann Nikulásson, bóndi í Stóru-Hildisey II, nýtur nú sólar á Kanaríeyjum ásamt konu sinni, Sigrúnu Hildi Ragnarsdóttur. Þangað fóru þau eftir að hafa aðstoðað Jónatan Magnússon við nauðsynleg vorverk þegar ljóst var að báðir voru ákveðnir í að láta samninga um kaup og jarðaskipti ganga upp.

Jóhann Nikulásson.

Að því loknu pöntuðu þau hjónin í fyrsta skipti á ævinni farmiða aðra leiðina á vit nýrra ævintýra.

„Ætli við eigum það bara ekki skilið eftir rúmlega þriggja áratuga feril í búskapnum þar sem lítið hefur verið um frí,“ sagði Jóhann og telur þau vera lánsöm að ungt og áhugasamt fólk taki við jörðinni.

Ekki einfalt mál að selja svona kúabú

„Það er búið að tryggja fjármögnun sem og öll tilskilin leyfi varðandi flutninga á gripum og kvóta og ekkert eftir nema frágangur á pappírum.

Það er hins vegar alls ekki einfalt mál að selja kúabú með rúmlega hálfri milljón lítra í kvóta og vandfundnir aðilar sem ráða við slíka fjárfestingu.“

Jóhann segir að hjá þeim hafi þetta verið tveggja ára ferli, en konan hefði þó viljað selja fyrr vegna ofnæmis sem hún fékk fyrir kúm fyrir 25 árum sem leiddi til þess að fyrir sex árum keyptu þau einbýlishús á Selfossi þar sem Hildur hefur að mestu dvalið síðan.

„Það tók mig samt tvö ár að sannfærast um að þetta væri rétt ákvörðun. Hún var svo endanlega tekin í samráði við börnin okkar fjögur.

Ég hef alltaf sagt við krakkana mína að það ætti enginn að taka við búskap nema hann hafi fyrir því brennandi áhuga. Það eru allt of margir sem hafa tekið við búum af því að það var ætlast til þess af þeim. Þá er fólk ekki að gera þetta af heilum huga heldur af skyldurækni við aðra.

Niðurstaða okkar fjölskyld­unnar var því sú að setja jörðina okkar á sölu.

Okkur hefur liðið vel í sveitinni og það eru viss forréttindi að ala börnin sín upp á svona stað. En við erum svo heppin að við tekur ungt og áhugasamt fólk sem kemur með ung börn í sveitina og stækkar búið hér í Hildisey um það bil um helming. Það er eiginlega ekki hægt að biðja um neitt meira.“

Sér virkjunarmöguleika á Hóli í Önundarfirði

Hluti af samningunum felst í því að Jóhann og Hildur taka við jörðinni Hóli í Firði í Önundarfirði. Þau hafa samt ekki í hyggju að hefja þar kúabúskap.

„Nei, nei, það stendur ekki til en þetta er vel uppbyggð jörð og á gríðarlega fallegum stað sem býður upp á allt annars konar möguleika. Í því sjáum við ákveðin tækifæri. Það eru þarna m.a.virkjanamöguleikar sem við höfum áhuga á að kanna nánar,“ segir Jóhann.

Kúrsinn tekinn til framtíðar
Fréttir 20. janúar 2025

Kúrsinn tekinn til framtíðar

Þingeyjarsveit hefur samþykkt nýja heildarstefnu fyrir sveitarfélagið fram til á...

Skógareldar vaxandi vá
Fréttir 20. janúar 2025

Skógareldar vaxandi vá

Norðurlöndin skoða nú í sameiningu vaxandi hættu á víðtækum skógareldum.

Auka við atvinnuhúsnæði
Fréttir 17. janúar 2025

Auka við atvinnuhúsnæði

Sveitarfélagið Dalabyggð og Byggðastofnun hafa gert með sér viljayfirlýsingu um ...

Stóra viðfangsefnið að styðja við unga bændur
Fréttir 17. janúar 2025

Stóra viðfangsefnið að styðja við unga bændur

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra nýrrar ríkisstjórnar, segir br...

Nýr hagfræðingur til Bændasamtakanna
Fréttir 16. janúar 2025

Nýr hagfræðingur til Bændasamtakanna

Harpa Ólafsdóttir hefur verið ráðin sem hagfræðingur Bændasamtaka Íslands og hóf...

Um hundrað stóð í blóðtöku árið 2024
Fréttir 16. janúar 2025

Um hundrað stóð í blóðtöku árið 2024

Meira blóði var safnað á árinu 2024 en á árinu áður. Fjöldi blóðtökuhryssna var ...

Fjögur áherslumál í landbúnaði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar
Fréttir 15. janúar 2025

Fjögur áherslumál í landbúnaði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar

Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar, sem gefin var út 21. desember, eru fjö...

Undanþágan beint til Hæstaréttar
Fréttir 15. janúar 2025

Undanþágan beint til Hæstaréttar

Hæstiréttur samþykkti að taka fyrir mál Samkeppniseftirlitsins og Innnes ehf. án...