Kjarnafæði yfirtekur SAH Afurðir á Blönduósi
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Kjarnafæði mun taka við rekstri Sölufélags Austur-Húnvetninga, sem rekur SAH Afurðir á Blönduósi. Kjarnafæði tekur einnig við öllum fasteignum félagsins.
Þetta var samþykkt á félagsfundi hjá Sölufélaginu nýverið. Rekstur SAH Afurða hefur verið þungur undanfarin misseri og segir Björn Magnússon, stjórnarformaður hjá SAH Afurðum á Blönduósi, að þessi lending hafi verið sú sem mest sátt hafi verið um.
Mest sátt um þessa niðurstöðu
Stjórn félagsins hefur nú heimild félagsfundar til að ganga til samninga við Kjarnafæði um að það taki við rekstri þess, en fyrir átti Kjarnafæði tæplega helming í SAH Afurðum. Lítilræði, eða um 3% hlutur, er í eigu einstaklinga á svæðinu og hefur Kjarnafæði yfirtökuskyldu gagnvart þeim.
„Staðan hefur verið mjög erfið undanfarin misseri og þessi niðurstaða var í raun eini kosturinn í þeirri slæmu stöðu sem uppi var og sá kostur sem mest sátt var um innan félagsins,“ segir Björn. Hann segir að innan skamms verði samkeppniseftirliti tilkynnt um breytingar, en forsenda þess að þær taki gildi er að eftirlitið samþykki þær. „Við munum tilkynna samkeppniseftirliti um þessar breytingar þegar endanlega verður búið að ganga frá málum,“ segir Björn.
Umframbirgðir og mikil samkeppni
„Það er langt í frá að þetta sé gert af því við viljum eiga allt og ráða öllu, langt í frá. Það má segja að þessi kaup séu miðuð við að sækja í það hagræði sem mögulega liggja í nánari samvinnu félaganna tveggja,“ segir Gunnlaugur Eiðsson, framkvæmdastjóri Kjarnafæðis. Hann segir að yfirtakan á SAH Afurðum gefi glögga mynd af bágri stöðu fyrirtækja á kjötmarkaði, en rekstur fyrirtækja sem eiga allt sitt undir í sölu á kjöti sé afar erfiður.
„Samkeppnin er mikil og það er talsvert meira magn til af lambakjöti en markaður er fyrir sem aftur leiðir til þess að verð er lágt. Þetta hefur heldur verið að ágerast, þótt reyndar sé umfram magn milli ára heldur minna nú í ár en í fyrra. Markaðurinn er þó fullmettur og rúmlega það.“
Höfum fulla trú á að dæmið gangi upp
Gunnlaugur segir erfitt að sitja uppi með birgðir, einkum af lambakjöti sem hefur í för með sér mikinn kostnað, einkum í formi hárra vaxta, vextir séu langt umfram það sem fyrirtæki sem nánast eingöngu starfi á innanlandsmarkaði geti unnið á, „svo einfalt er það“.
Gunnlaugur segir að Kjarnafæðismenn sjái tækifæri í þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru, og séu þau einkum fólgin í meiri vinnslu á lambakjöti en verið hafi fram til þessa á Blönduósi. „Þetta er spennandi verkefni, en alls ekki sjálfgefið að það gangi upp. Við höfum þó fulla trú á að svo verði,“ segir hann.