Kjötskortur, hvað?
Sé horft til ásetningsfjölda gripa á landinu er fyrirsjáanlegt að framboð á kjöti verður minna en neysla hér heima í náinni framtíð. „Nauðsynlegt er fyrir afurðastöðvar að horfa til framtíðar svo bændur geti gert áætlanir um framleiðslu, ekki bara á morgun heldur til lengri framtíðar,“ segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Gunnar segir ástæðu þess að framboð verði ekki til að fullnægja innanlandsmarkaðinum minni ásetning gripa. Nýverið var haft eftir Steinþóri Skúlasyni, forstjóra Sláturfélags Suðurlands, að miðað við kjötframleiðslu í landinu stefni í skort á íslensku svína-, nauta- og kindakjöti á næstu árum.
Gunnar segir að slíkt sé ekki sýnilegt þar sem heimildir til innflutnings eru umtalsverðar. „Það er aftur á móti umhugsunarvert af hverju afurðaverð hafi ekki haldið í við kostnaðarauka við frumframleiðslu hér á landi. Í framleiðslu er nauðsynlegt að hafa skýra framtíðarsýn og áætlanir um hvað markaðurinn þarf annars vegar og verð til framleiðenda hins vegar.
Það er ekki langt síðan að afurðageirinn var með skilaboð til framleiðenda að draga úr framleiðslu þar sem vitnað var til að um verulega birgðasöfnun væri að ræða og nauðsynlegt að draga úr framleiðslu, þetta var nefnt í frétt frá janúar 2021. En á grunni nautakjöts tekur rúm tvö ár að ala naut til slátrunar.
Nauðsynlegt er fyrir afurðastöðvar að horfa til framtíðar svo bændur geti gert áætlanir um framleiðslu, ekki bara á morgun heldur til lengri framtíðar. Stöndum vörð um okkar framleiðslu á grundvelli fæðuöryggis til lengri tíma og heilnæmar landbúnaðarvörur.“