Krafa Stjörnugríss að mestu samþykkt
Í morgun var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Stjörnugríss hf. gegn ríkinu vegna álagningar búnaðargjalds.
Í niðurstöðu dómsins er fallist á kröfur Stjörnugríss að mestu leyti. Samkvæmt dómnum er ráðstöfun búnaðargjalds til Bændasamtakanna, búnaðarsambanda og búgreinafélaga í tilviki Stjörnugríss ekki talin standast lög en ráðstöfun þess hluta sem rennur til Bjargráðasjóðs er hinsvegar talin standast.
Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands segist hafa beðið lögfræðing BÍ að fara nánar yfir dóminn og taka saman helstu atriði hans.
„Búast má við því að málinu verði áfrýjað en það er í valdi atvinnuvegaráðuneytisins að ákveða slíkt eftir því sem embætti ríkislögmanns tjáir mér,“ segir Sigurður. Frestur til þess er þrír mánuðir.
Skoða má dóminn í heild í dómasafni Héraðsdóms.