Krónan minnkar matarsóun um 53%
Nú fyrir skemmstu tilkynnti Krónan um að tekist hefði á einu ári að minnka matvælasóunina í verslunum sínum um 53 prósent; úr 300 tonnum matvæla niður í 140 tonn.
Krónuverslanirnar lögðu á síðasta ári af stað með verkefni til að minnka matarsóun í sínum verslunum með því að selja matvörur sem eru að renna út á tíma á niðursettu verði.
Matarsóun er stórt vandamál um allan heim. Þriðjungi framleiddra matvæla er sóað í þessum heimi þar sem einn af hverjum níu jarðarbúum þjáist af vannæringu á degi hverjum, samkvæmt upplýsingum frá FAO, Landbúnaðar- og matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna.
Minnst matarsóun í landbúnaði
Samkvæmt nýlegum gögnum frá Umhverfisstofnun um matarsóun á Íslandi, sem eru sambærileg gögnum frá öðrum Evrópulöndum, er mesta sóun á mat hjá gististöðum og í veitingarekstri, þarnæst í matvælaframleiðslu og þá á heimilum. Þar á eftir koma skólar, heilsustofnanir, heildsala og smásöluverslanir, en minnst er sóun í landbúnaði.