Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Þegar kýr eru fóðraðar má í raun segja að bændurnir séu að fóðra örverur en ekki kýr. Þetta skýrist auðvitað af þeim milljörðum af örverum sem þrífast í meltingarvegi kúnna, sér í lagi í vömbinni þar sem þeirra hlutverk er að aðstoða eða sjá um niðurbrot svo fóðrið nýtist kúnni sem allra best.
Þegar kýr eru fóðraðar má í raun segja að bændurnir séu að fóðra örverur en ekki kýr. Þetta skýrist auðvitað af þeim milljörðum af örverum sem þrífast í meltingarvegi kúnna, sér í lagi í vömbinni þar sem þeirra hlutverk er að aðstoða eða sjá um niðurbrot svo fóðrið nýtist kúnni sem allra best.
Mynd / HKr.
Fréttir 27. október 2021

Kýrnar eiga ekki að gera fóðuráætlunina sjálfar

Höfundur: Snorri Sigurðsson - snsig@arlafoods.com

Undanfarin ár hafa orðið miklar breytingar á fóðrun mjólkurkúa hérlendis, sérstaklega fyrir tilstilli mjaltaþjóna. Tilkoma þeirra og kjarnfóðurkerfanna sem fylgja notkun mjaltaþjóna hefur aukið mikið nákvæmni við fóðrun og án nokkurs vafa bætt nýtingu gefins kjarnfóðurs. Enda gefið oft á dag í smáum skömmtum, nokkuð sem hentar mjólkurkúm sérlega vel.

Það er þó enn nokkuð í land með gróffóðurhluta fóðursins og nákvæmnina við fóðrun þess en allt of víða eru það í raun kýrnar sjálfar sem gera fóðuráætlunina fyrir sig með því að éta og skammta sér fóðrið eftir eigin geðþótta og löngunum.

Þegar kýr éta er best ef hver munnfylli er eins og sú síðasta.

Örverufóðrun

Þegar kýr eru fóðraðar má í raun segja að bændurnir séu að fóðra örverur en ekki kýr. Þetta skýrist auðvitað af þeim milljörðum af örverum sem þrífast í meltingarvegi kúnna, sér í lagi í vömbinni þar sem þeirra hlutverk er að aðstoða eða sjá um niðurbrot svo fóðrið nýtist kúnni sem allra best. Þeir sem þekkja vel til örveruræktunar á tilraunastofum vita vel að þær eru einkar viðkvæmar fyrir breytingum á nærumhverfi sínu s.s. á sýru-, hita- og rakastigi eða næringarlegu umhverfi. Sé nærumhverfi örveranna hins vegar einsleitt og þeim hagstætt á hverjum tíma, dafna þær vel og vinna vinnuna sína af krafti. Með þessu móti er hægt að hámarka nýtingu á örverustarfseminni til heilla fyrir kúna og þar með bóndann líka. Sé hins vegar nærumhverfið síbreytilegt og sveiflukennt má í raun segja að vinnuumhverfi örveranna verði óhagstætt og stuðli þannig ekki að hámarks nýtingu.

Heilfóðrun

Það má í raun segja að þekkingin á örverufóðrun hafi leitt til þess að bændur fóru að fara þá leið að búa til heilfóður fyrir kýrnar, þ.e. fóður þar sem öllum næringarefnum er blandað saman eftir kúnstarinnar reglum svo næringarumhverfi örveranna í vömbinni verði sem allra best. Hér á landi eru fáir ef nokkrir sem gefa heilfóður eins og það er skilgreint erlendis (enska: TMR – Total Mixed Ration) enda er heilfóður skilgreint þannig að þá er öllu fóðri, líka öllu kjarnfóðri, blandað í fóður kúnna og meðaltalsfóðurgjöfin uppfyllir meðalfóðurþörf kúahópsins. Kostir þessarar aðferðar eru ótvíræðir enda leiðir aðferðin til mjög jafns sýrustigs í vömbinni, nokkuð sem ekki er hægt að tryggja þegar kýr fá kjarnfóður gefið aðskilið, og leiðir það til betri nýtingar á fóðrinu og aukinnar hagkvæmni.

Í upphafi heilfóðurbylgjunnar, sem reið yfir t.d. Danmörku fyrir um 20 árum, var nokkuð algengt að önnur aðferð við heilfóðrun væri stunduð eða svokölluð hlutaheilfóðurleið (enska: PMR – Partial Mixed Ration). Sú aðferð þróaðist samhliða heilfóðuraðferðinni enda voru þá flestir bændur með kjarnfóðurbása og með þessari aðferð fá nythæstu kýrnar viðbótar kjarnfóður til að uppfylla fóðurþarfir sínar. Þær nytlægstu fá aftur á móti einungis heilfóður og þá er meðal næringargildi þess heldur lægra en ef um væri að ræða eiginlegt heilfóður.

Mjaltaþjónaáhrifin

Það má segja að ör útbreiðsla mjaltaþjóna bæði hér á landi og meðal annarra efnameiri þjóða hafi aðskilin fóðrun, þ.e. sértæk fóðrun á kjarnfóðri, verið fest í sessi enda byggir notkun mjaltaþjóna á því að lokka kýr inn í mjaltir með lystugu kjarnfóðri.

Þessi krafa um kjarnfóðurnotkun hefur gert það að verkum að víða, þar sem gefið er heilfóður, þá fá kýr lágmarksskammt af kjarnfóðri í mjaltaþjóni sem þó er oftast eitthvað nyttengdur og svo heilfóðrið þess utan. Í þessu dæmi er þó breytileikinn á kjarnfóðurskammtinum á milli nytlágra og nythárra kúa afar lítill, oft ekki nema 1-2 kíló og heilfóðrið nánast full gjöf í raun fyrir utan því sem nemur þetta 2-3 kílóum af kjarnfóðri.

Þessi aðferð hefur ekki beint slegið í gegn hér á landi og má segja að íslenska aðferðin sé eiginlega hálft heilfóður, líkt og Baldur Örn fóðurfræðingur kemst að orði í nýju kennslubókinni um nautgriparækt. Með þessari aðferð er gefið mjög mikið magn af kjarnfóðri í fóðurbás og/eða mjaltabás, eftir nyt kúnna, og svo gefið heilfóður því samhliða sem þó er eðlilega með frekar lág gildi á öllum helstu stuðlum enda fá kýrnar mikið af orku og öðrum næringarefnum með kjarnfóðrinu. Þessi aðferð þykir afar dýr, þar sem hún leiðir til mikillar kjarnfóðurnotkunar, og er ekki mjög útbreidd í heiminum, en er þó einnig vel þekkt t.d. í Noregi.

Nýtir afganga

Helstu kostir heilfóðurs eru, fyrir utan að henta sérlega vel fyrir örverusamspilið í meltingarvegi mjólkurkúa, að þessi aðferð býður upp á að hægt er að lækka fóðrunarkostnað mjólkurkúa með því að nota mun fjölbreyttari hráefni til fóðurgerðar en annars væri mögulegt. Þannig má t.d. nýta matarafganga með afar heppilegum hætti, brugghrat, afganga frá grænmetisframleiðslu, úrgang frá almennri matvælavinnslu á grænmeti eða ávöxtum og fleira mætti nefna.

Sparar kjarnfóður

Heilfóðurgerð, þ.e. hefðbundin heilfóðurgerð án mikillar hliðarnotkunar á kjarnfóðri, gerir það að verkum að bændur þurfa almennt ekki að kaupa mikið af hinu dýra kjarnfóðri, en þess í stað geta þeir keypt hráefni kjarnfóðursins beint og sparað mikinn kostnað. Þekkt er að kögglað kjarnfóður hentar kúm einstaklega vel en hráefni kjarnfóðursins, sem eru oftar en ekki á duftkenndu eða muldu formi, eru kúm óhentug og étast illa eða ekki. Með því hins vegar að hræra þessum hráefnum beint saman við lystugt gróffóður með réttu rakastigi, þannig að hinar litlu agnir dreifast um allt fóðrið og klessast við gróffóðrið, fá kýrnar einstaklega jafnt og gott fóður sem heldur sýrustigi vambarinnar jöfnu.

Kýrnar eiga ekki að róta

Kýr eru einstaklega lagnar við að flokka ofan í sig það sem þær éta og velja sér tuggu ef þær geta. Þetta er þó atferli sem bændur ættu alltaf að reyna að forðast að fá í fjósum sínum. Hver tugga sem niður fer ætti í raun að vera eins lík þeirri sem á undan fór og þeirri sem á eftir kemur! Þannig má hámarka nýtingu vambarstarfseminnar og þar með hafa jákvæð áhrif á framleiðslu kýrinnar. Séu kýrnar aftur á móti að róta mikið í fóðrinu og velja þannig ofan í sig, nást þessi áhrif ekki í sama mæli. Til þess að draga úr slíku atferli þarf að blanda fóðrinu vel saman.

Tilkoma mjaltaþjóna og kjarnfóðurkerfanna sem fylgja notkun þeirra hefur aukið mikið nákvæmni við fóðrun og án nokkurs vafa bætt nýtingu gefins kjarnfóðurs.

Einfalt að skoða

Bændur sem gefa heilfóður eða blandað fóður ættu alltaf að viðhafa gott eftirlit með áthegðun kúnna, kýrnar eru nefnilega afar duglegar að gefa merki um hvort eitthvað sé vel gert eða ekki. Kýr sem teygja sig mikið inn á fóðurgang og/eða glansandi framhliðar innréttinga benda til þess að kýrnar séu að reyna að flokka í sig sjálfar eða að þær hafi of takmarkað aðgengi að fóðri. Víða erlendis er ýtt að kúm 8-12 sinnum á sólarhring, svo þær þurfi ekki að teygja sig eftir fóðri. Þá bendir holumyndun í fóðrinu til þess að kýrnar séu að reyna að sækjast eftir einhverju sérstöku góðgæti í fóðrinu. Kýr eiga í raun að éta jafnt ofan af fóðurstrengnum enda ætti hver munnfylli að vera eins, hvar sem er. Ef þær „grafa“ sig niður eru þær að nota tunguna til að sækja sér eitthvað sem getur numið allt niður í 8 mm löngum bitum af góðgæti,. Þetta eiga þær ekki að fá að gera. Síðast en ekki síst þá er auðvelt að taka upp lúku af fóðri af handahófi og skoða hvort unnt sé að greina fóðrið í sundur. Gróffóður í heilfóðurblöndu er í raun nánast alltaf hægt að greina í sundur en önnur hráefni ætti ekki að vera hægt að finna, sé rétt staðið að blöndunni.

Benda má á nánara lesefni í köflum 7-10 í Nautgriparæktarbókinni sem hægt er að lesa á vef deildar kúabænda hjá BÍ: www.naut.is.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...