Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Fréttir 22. febrúar 2017
Lamb street food- staður í burðarliðnum
Höfundur: smh
Það fer sífellt vaxandi að íslenskir veitingastaðir sérhæfi sig í að bjóða upp á mat sem kemur beint úr íslenskri náttúru. Neytendur – ekki síst erlendir ferðamenn – gera æ ríkari kröfur um að fá mat þar sem rekja megi hráefnið til upprunans. Einn slíkur veitingastaður er í burðarliðnum, þar sem íslenskt lamb er í aðalhlutverki.
Í Matvælalandinu, einu af frumkvöðlasetrum í húsi Sjávarklasans á Grandagarði, hefur Rita Didriksen verið að máta hugmyndir sínar um framleiðslu og sölu á íslensku lambakebabi og fóstrað þær í samvinnu við Norðlenska.
Kebab er aldagömul eldunarhefð sem er upprunnin frá Arabalöndum fjær.
Íslenskur vinkill
„Kebab er ekki nein nýjung eins og flestir vita, enda einn vinsælasti skyndibiti í Evrópu,“ segir Rita. „Þetta er aldagömul eldunarhefð sem er upprunnin frá Arabalöndum fjær, en orðið kebab þýðir einmitt kjöt sem steikist á teini. Það er þessi hæga eldunaraðferð á grillteini sem er svo mikil snilld, engin steiking á pönnu og engin olía. Við tökum svona íslenskan vinkil á kebabið. Allar sósur eru sérlagaðar á staðnum, tzatziki o.fl., með áherslu á léttleika og íslenskt hráefni. Brakandi ferskt og sýrt grænmeti og ferskt flatbrauð er meðal þess sem mun gera kebabið að frábærri máltíð.
Ég kynntist kebabmenningunni þegar ég var í námi í Þýskalandi, þar sem þessi réttur er í miklum metum. Mér er illa við að kalla þetta skyndibita, sem hefur þá ímynd að vera talinn óhollur. Ég vil frekar samsama mig við fyrirbærið „street food“ – enda er vörumerkið mitt Lamb street food en það byggir á markaðssetningu þar sem neytandanum er kynnt með ýmsum hætti um uppruna vörunnar, til dæmis með skírskotun til héraðsins, heimahaga lambsins og bóndans. Þetta er svona „slow food in a fast way“ – svo ég sletti nú aðeins – dálítið eins og þegar Bjartur í Sumarhúsum hittir heimsborgarann. Lamb street food er gæðamáltíð en með hentugleika skyndibitans,“ segir Rita.
Hollusta og hreinleiki lambakjötsins
Hollusta íslenska lambakjötsins er hafin yfir allan vafa, að sögn Ritu. „Lambið sem gengur á fjalli nærist á hægvaxta villtum jurtum og drekkur kristaltært vatn og fær þannig næringu sem inniheldur kjarnann úr okkar einstöku náttúru. Í kjötinu er mikið magn af góðum fitusýrum eins og Omega 3 og meira af andoxunarefnum, vítamínum og steinefnum heldur en í kjöti af dýrum sem alin eru á sérblönduðu kraft- og gróffóðri. Við höfum því sannarlega einstæðar aðstæður sem keppinautar á kjötmarkaði annars staðar í heiminum eiga erfitt með að keppa við.
Lambakjötið okkar hefur mikla sérstöðu og fólk tengir íslenskar sauðfjárafurðir mjög sterkt við íslenska náttúru og hreinleika hennar. Frá byrjun þessa verkefnis var markvisst stefnt að því að framleiða hreina og holla vöru.“
Hágæða lambakjötskeila
„Ég var svo heppin að komast í samstarf við Norðlenska við að hanna hágæða lambakjötskeilu fyrir staðinn minn, en framleiðsluaðferð keilunnar eins og hún hefur verið þróuð og unnin hjá Norðlenska er nýsköpun. Leitast var við að framleiða staðlaða gæðaafurð úr framparti lambsins, án íblöndunar ýmissa aukaefna, sem er einmitt oft einkennandi fyrir kebab erlendis. Framparturinn hentar mjög vel í kebabið með hæfilegri blöndu af fitu og vöðva. Ákveðið var að yfirskyggja ekki hið góða íslenska bragð sem er af kjötinu með of mikilli kryddnotkun, en þurrkuð og mulin hvannarfræ og íslenskt salt er meðal þess sem notað er til að laða fram rétta bragðið.
Það býr mikill metnaður að baki þessu verkefni hjá þeim sem ég hef starfað með og vandlega hugað að öllum þáttum. Ég sé fyrir mér Lamb street food-staði um allt land, þar sem girnilegur biti verður aðgengilegur öllum þeim sem ferðast um landið – Íslendingum sem og erlendum ferðamönnum.
Draumurinn er að búa til flott vörumerki sem verður þekkt fyrir eitt besta kebab norðan Alpafjalla – þótt víðar væri leitað. Ég legg út í þetta verkefni full af bjartsýni og tilhlökkun um spennandi ferðalag,“ segir Rita, sem vonast til að geta opnað næsta sumar.
Draumur Ritu er að búa til flott vörumerki sem verður þekkt fyrir eitt besta kebab norðan Alpafjalla – þótt víðar væri leitað.