Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Fréttir 9. nóvember 2015
Landsbyggðirnar eru fjársjóður Íslands
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
N4 er eini fjölmiðill landsins, utan netmiðla sem dreift er á landsvísu, en er með ritstjórn og höfuðstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins.
Áhorf á stöðina hefur vaxið undanfarin misseri. N4 kynnti vetrardagskrá sína í Menningarhúsinu Hofi nýverið en alls verða nítján íslenskir dagskrárliðir sýndir á stöðinni í vetur og er bæði um að ræða ýmsar nýjungar í bland við gamalkunna heimilisvini.
„Ég held að hver sá sem stillir á N4 sjái að búseta dagskrárgerðarmanna hefur töluverð áhrif á forgangsröðun og efnisvalið á stöðinni. Það er því þannig að það eru landsbyggðirnar sem eiga oftast sviðið á N4 – og já ég segi landsbyggðirnar, því þær eru margar, það er ekki bara ein tegund af landsbyggð. Hins vegar er stefnan einfaldlega sú að gera gott sjónvarpsefni sem höfðar til allra landsmanna – óháð búsetu. Ef það er hægt í Reykjavík, þá er það líka hægt á Akureyri,“ sagði Hilda Jana Gísladóttir, framkvæmda- og sjónvarpsstjóri á N4.
María Björk Ingvadóttir, sem ásamt Hildu er einnig sjónvarpsstjóri og hefur að auki reksturinn á sinni könnu, greindi frá því með stolti að í systurþáttunum og hryggjarstykkjunum „Að“-þáttunum myndi þátturinn Að vestan bætast í hópinn og væri mikill fögnuður ríkjandi. N4 stæði þar með undir nafni, N í nafni stöðvarinnar stæði fyrir Norðurland þar sem höfuðstöðvar hennar væru og 4 fyrir fjórðungana, Norður-, Suður-, Austur- og Vesturland.
Að opna glugga milli landshluta
Fyrir eru á N4 þættirnir Að norðan, sem sýndur er þrisvar í viku, Að sunnan og Glettur að austan sem eru á dagskrá vikulega. Allir hafa notið mikilla vinsælda. Sýningar á þáttunum Að vestan hefjast eftir áramót. „Okkar næsti draumur og markmið er að finna leið til að hefja megi dagskrárgerð á Vestfjörðum eins fljótt og auðið er. Við stefnum að því að þessir systurþættir séu framleiddir á því svæði sem þeir eru frá, af fólki sem þar býr og sýndir á N4. Þannig trúum við því að unnt sé að opna glugga milli landshluta, auka innsýn, skilning og virðingu fyrir hverju svæði fyrir sig, en ekki síður að efla sjálfsmyndina innan svæðanna. Því landsbyggðirnar eru fjársjóður Íslands, ekki síður en höfuðborgarsvæðið,“ sagði María Björk.
Draumurinn að auka dreifinguna
Sjónvarpsstjórarnir kváðust eiga sér drauma og einn þeirra væri að auka dreifingu á N4 sjónvarpi. Allir þeir sem eru með móttakara frá Símanum stöðinni á rás 6 og 90% þeirra sem skipta við Vodafone eiga að ná stöðinni á rás 29. Vonir standa til að komast ofar á þeim lista innan skamms. „En þar sem við leggjum gríðarlega áherslu á landsbyggðirnar í okkar dagskrárgerð, þá skiptir Bárðardalur okkur ekki síður máli en Reykjavík. Það er ekki bara fjöldi hausa sem telur í okkar sýn, heldur landið allt sem ein heild. Það er gríðarlega kostnaðarsamt að greiða fyrir dreifingu á sjónvarpsefninu okkar og leitum við logandi ljósi að leið til þess að komast í dreifingu um land allt, án þess að verða gjaldþrota. Við fáum fjölda símtala, tölvupósta og heimsókna þar sem fólk leitar leiða til að ná okkur og stundum er það einfaldlega ekki hægt, af því að við höfum ekki efni á því. Það þykir okkur mjög sorglegt.“
Góðu fréttirnar væru þó þær að N4 er eina íslenska sjónvarpsstöðin sem hægt er að horfa á á Netinu í beinni útsendingu um allan heim. Að auki er efnið aðgengilegt á heimasíðu stöðvarinnar í töluverðan tíma eftir útsendingu.
Glænýtt efni og gamlir kunningjar
Sem fyrr segir verða alls nítján þættir í boði á N4 í vetur. Þar á meðal eru gamlir kunningjar eins og Að norðan þar sem dagskrárgerðarmenn ferðast frá Borðeyri til Bakkafjarðar og fræðast um fjölbreytt mannlíf á svæðinu. Gísli Sigurgeirsson ferðast svo um Austurland, frá Vopnafirði til Djúpavogs í þætti sínum Glettur að austan. Margrét Blöndal og Sighvatur Jónsson ferðast um Suðurland og fræðast um fjölbreytt mannlíf á svæðinu frá Hveragerði að Höfn í Hornafirði í þættinum Að sunnan.
Hvað segja bændur?
Nýr þáttur, Hvað segja bændur?, í umsjón Birnu Pétursdóttur og Árna Þórs Theodórssonar verður á dagskrá í vetur en í þættinum er ætlunin að kynna íslenskan landbúnað, líf og störf bænda. Fjallað verður um framleiðsluferli landbúnaðarafurða og hvernig hægt er að auka verðmæti þeirra, hvaða nýsköpun og rannsóknir eru í gangi og kannað hvort frumkvöðla sé að finna í bændastéttinni.
Annar nýr þáttur fer í loftið í vetur, Hundaráð, þar sem þau Steinar Gunnarz, yfirhundaþjálfari ríkislögreglustjóra, og Heiðrún Villa hundaatferlisfræðingur sjá um Hundaráð, þætti sem fjalla um fjölbreytt samskipti milli manna og hunda.
Hafið, kokkarnir og Íslendingar
Haldið verður áfram með þáttaröðina Auðæfi hafsins og í röð númer tvö verður fjallað um uppsjávarveiðar, vinnslu, markaðssetningu og sölu. Þá má nefna þáttinn Lífríkið í sjónum við Ísland þar sem Erlendur Bogason kafari skoðar lífríkið í sjónum og vekur athygli á fjölbreyttu náttúrulífi neðansjávar. Þáttaröðin hlaut í haust fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á Degi íslenskrar náttúru.
Íslendingasögur er nýr í dagskrá N4, en um er að ræða sjónvarpsþætti í umsjá Margrétar Blöndal þar sem Íslendingar af erlendu bergi brotnir segja sínar sögur.
Halli kokkur, Hallgrímur Sigurðsson, verður með þáttinn Kokkarnir okkar. Þar leitar hann uppi bestu kokka landsins, allir eiga þeir það sameiginlegt að hafa keppt í virtustu og stærstu kokkakeppni heims, Bocuse d´Or í Lyon í Frakklandi.
Allt milli himins og jarðar
Föstudagsþátturinn í umsjá Hildu Jönu er á sínum stað og Gestur Einar Jónasson heldur áfram að spjalla um lífið og tilveruna við skemmtilegt fólk í þætti sínum, Hvítir mávar.
Þættinum Praktískt verður hleypt af stokkunum í vetur, en í þeim fær sköpunargleðin að njóta sín, fjallað um skemmtilegar og skapandi hugmyndir af ýmsu tagi. Sr. Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju, hefur vakið athygli fyrir pistla sína sem fjalla um allt milli himins og jarðar, en hún verður með samnefndan þátt á N4 í vetur. Jólaráð Stúfs verða á dagskrá í desember og eins býður stöðin upp á þáttinn Mótorhaus, sem fjallar um mótorsport.