Langflestar nýskráðar dráttarvélar fjórhjól
Á liðnu ári voru 838 ný ökutæki flutt til landsins sem Samgöngustofa skráði sem dráttarvél. Þegar tölurnar eru skoðaðar nánar sést að sex vinsælustu tegundirnar eru merki eins og Can-Am, Polaris o.fl., sem í daglegu tali nefnast fjórhjól.
164 af ökutækjunum í áður nefndum flokki ganga fyrir dísel og eitt sem gengur fyrir metan, og má reikna með að hefðbundnar dráttarvélar séu á bak við þær tölur.
Af þeim er vinsælasta tegundin indverski smávélaframleiðandinn Solis, með 42 nýskráð eintök. Þar á eftir kemur New Holland með 21 vél, Valtra með 20, Claas með 19, Massey Ferguson með 16 og John Deere með 14 nýskráðar vélar.
Aðrir framleiðendur seldu færri vélar. Case IH og Kubota seldu sex eintök hvor. Deutz Fahr og Fendt fimm hvor og Hattat þrjú. Branson, Daedong, Iseki, McCormic og Zetor seldu eina nýja dráttarvél hver.