Langflestir íbúar á höfuðborgarsvæðinu
Samkvæmt tölum Byggðastofnunar fyrir árið 2022 var íbúafjöldi landsins 376.248. Þar af bjuggu rúm 240 þúsund á höfuðborgarsvæðinu og um 136 þúsund á landsbyggðinni. Sveitarfélög á landinu eru 64.
Þrátt fyrir að landsmönnum hafi fjölgað undanfarna áratugi er fjölgunin misjöfn milli landshluta. Mest fjölgun var á Suðvesturlandi en fólksfækkun var á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Mest hlutfallsleg breyting var í Mosfellsbæ, 148,3% og í Garðabæ 100,1%. Sé horft í landshluta er mest fólksfjölgun á Suðurnesjum, 85,2% og á höfuðborgarsvæðinu, 46,3%.
Störf óháð staðsetningu
Á byggðaáætlun 2018 til 2024 er aðgerð sem kallast Störf án staðsetningar. Markmið verkefnisins er að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði óháð staðsetningu árið 2024 þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki.
Byggðastofnun hefur tekið saman upplýsingar um mögulegt húsnæði fyrir óstaðbundin störf. Samkvæmt þeim upplýsingum eru yfir 100 starfsstöðvar fyrir einstaklinga og landsbyggðin því vel í stakk búin til að taka á móti þessum störfum.
Skipting húsnæðisins eftir landshlutum er 4 á Suðurnesjum, 14 á Vesturlandi, 15 á Vestfjörðum, 19 á Norðurlandi vestra, 29 á Norðurlandi eystra, 17 á Austurlandi og 14 á Suðurlandi.
55 þúsund með erlent ríkisfang
Af þeim þeim rúmum 376 þúsund sem Íslendingar telja eru um 55 þúsund, eða 14,6%, með erlent ríkisfang. Þar af eru karlmenn tæplega 32 þúsund og konur rúmlega 23 þúsund og flestir eru á aldrinum 30 til 39 ára.
Séu íbúar svæða flokkaðir eftir ríkisfangi sést að hlutfallslega flestir íbúar með erlent ríkisfang búa í Mýrdalshreppi, eða 51,5%, í Skaftárhreppi 33,4% og í Súðavíkurhreppi 32,1%. Samkvæmt mælaborði Byggðastofnunar búa flestir íbúar landsins með erlent ríkisfang í Reykjavík, rúmlega 24 þúsund, en fæstir í Árnes- og Skorradalshreppi, eða tveir í hvorum hreppi.